Furðuleg flöggun við ráðhús Reykjavíkur

16. júlí 2025

'}}

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins:

Fáni ríkis, sem er undir stjórn hryðjuverkasamtaka, hefur verið dreginn að húni við ráðhús Reykjavíkur. Með því kýs meirihluti borgarstjórnar að taka afstöðu með samtökum, sem hafa um áratugaskeið staðið fyrir hræðilegum ofbeldisverkum, innan sem utan eigin ríkis. Hampað er fána annars aðilans í stríðsátökum þar sem mannfall hefur orðið mikið á báða bóga.

Hamas-samtökin náðu völdum á Gaza-ströndinni árið 2006. Frá valdatöku Hamas hefur um þrjátíu þúsund eldflaugum og sprengjum verið skotið frá Gaza yfir til Ísraels. Hafa flaugarnar smám saman orðið markvissari og skæðari.

Hamas-samtökin hafa tortímingu Ísraels á stefnuskrá sinni. Samtökin njóta víðtæks stuðnings Íransstjórnar í stríði sínu og hryðjuverkum gagnvart Ísrael.

Hamas-samtökin stóðu einnig fyrir innrásinni í Ísrael 7. október 2023. Talið er að vígamenn samtakanna hafi drepið 1.195 manns í innrásinni, þar af 815 óbreytta borgara. Ísraelsmenn svöruðu innrásinni með hernaði á Gaza, sem talið er að hafi kostað um 57 þúsund mannslíf. Að auki er mikill skortur á matvælum, lyfjum og öðrum hjálpargögnum á svæðinu.

Miklar hörmungar á Gaza

Samúð mín er svo sannarlega með fórnarlömbum stríðsátaka, hvar sem þau er að finna.

Ljóst er að stríðið hefur kallað ólýsanlegar þjáningar yfir íbúa Gaza og þar eiga sér stað hræðileg fjöldadráp sem þarf að stöðva sem fyrst. Margir þjóðarleiðtogar vinna stöðugt að því að koma á vopnahléi í stríðinu. Þeir hafa því miður enn ekki haft erindi sem erfiði.

Hamas-liðar tóku um 250 gísla í innrásinni 7. október. Um fimmtíu gíslar eru enn á valdi samtakanna og talið er að um tuttugu þeirra séu enn á lífi eftir næstum tveggja ára prísund. Ráðamenn í Ísraels hafa sagt að lausn allra gíslanna sé forsenda þess að samið verði um vopnahlé í stríðinu á Gaza.

Harðstjórn Hamas

Sannkölluð harðstjórn ríkir á Gaza og stendur Hamas fyrir víðtækum ofsóknum og drápum á eigin þegnum. Pólitískir keppinautar og gagnrýnendur eru drepnir. Sjaríalögum er framfylgt á yfirráðasvæði Hamas en samkvæmt þeim er samkynhneigð ólögleg og í raun refsivert athæfi, sem getur kallað pyntingar og jafnvel dauða yfir hinn ,,seka.“ Mannréttindasamtök hafa greint frá fjölmörgum tilvikum þar sem Hamas-liðar hafa líflátið einstaklinga, sem grunaðir eru um samkynhneigð, t.d. með því að varpa þeim fram af húsþökum.

Öll þessi óhæfuverk eru framin undir þeim fána, sem meirihluti borgarstjórnar hefur nú dregið að húni við ráðhús Reykjavíkur.

Vanrækt borgarmál

Reykjavíkurborg glímir við vanda á mörgum sviðum, sem brýnt er að leysa. Margir málaflokkar eru í megnasta ólestri, t.d. fjármálin, skólamál og skipulagsmál. Auðvitað ættu borgarfulltrúar að einbeita sér að lausn borgarmála í stað þess að eyða tíma og orku í aukafund um fánamál á miðju sumri. Ef til vill er einn tilgangur flöggunarinnar að draga athygli fjölmiðla og almennings frá borgarmálunum þar sem mikil óstjórn ríkir.

Þegar vinstri meirihlutinn í borgarstjórn kýs með slíkri flöggun að taka afstöðu í afar viðkvæmri og erfiðri deilu, vaknar sú spurning hvort haldið verði áfram á sömu braut og afstaða tekin til fleiri stríðsátaka. Stríð og hörmungar geisa víða um heim, t.d. í Súdan, Suður-Súdan, Myanmar (Búrma) Haítí og í Kasmír-héraði á Indlandi.

Borgarfulltrúar meirihlutans hafa sagt að með því að draga umræddan fána að húni við ráðhúsið sé ekki verið að sýna Hamas stuðning heldur palestínsku þjóðinni. Slíkt viðhorf er barnalegt enda ljóst að margir munu túlka flöggunina sem stuðning við Hamas-samtökin, sem fara með ríkisvald á Gaza-ströndinni og nota fána sinn óspart eins og aðrar ríkisstjórnir.

Spyrja má, rökræðunnar vegna, hvernig viðbrögðin hefðu verið ef ísraelski fáninn hefði farið á loft við ráðhúsið, en ekki hinn palestínski. Auðvitað hefðu þá ýmsir brugðist illa við og sakað borgarráð um stuðning við Ísraelsstjórn. Ég er hræddur um að þá hefði sú skýring ekki dugað að með flögguninni væri einungis verið að sýna fórnarlömbum stríðsátaka í Ísrael samúð og stuðning.

 Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. júlí 2025