„Sterkur Sjálfstæðisflokkur skiptir sköpum“ 

15. júlí 2025

'}}

„Þinglokin staðfesta að ríkisstjórnin lagði allt undir fyrir veiðigjaldið og fórnaði í leiðinni nánast öllum öðrum málum sínum,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, í yfirlýsingu sem hún birti í tilefni þingloka. Þar gagnrýnir hún harðlega störf ríkisstjórnarinnar, en dregur jafnframt fram þann árangur sem Sjálfstæðisflokkurinn náði fyrir hönd almennings og undirstrikar í því samhengi að sterkur Sjálfstæðisflokkur skipti sköpum. 

Guðrún segir að flokkurinn hafi tryggt að ekki komi til skattahækkunar á rúmlega 90 þúsund einstaklinga með breytingartillögu við frumvarp um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.  

„Það eitt sýnir hversu mikilvægt er að hafa sterka stjórnarandstöðu sem stendur vörð um fólkið í landinu,“ segir hún og bætir við að markmiðin hjá ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur séu orðin ljós.  

„Við ætlum ekki að sitja hjá“ 

„Þessi tilraun ríkisstjórnarinnar til að hækka skatta er aðeins forsmekkurinn. Við vitum hvert þau stefna, en við ætlum ekki að sitja hjá.“ 

Guðrún gagnrýnir jafnframt beitingu svokallaðs kjarnorkuákvæðis 71. greinar þingskapalaga, sem Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra beitti í fyrsta sinn í 66 ár. „Ekki vegna neyðarástands, heldur til að þröngva í gegn skattahækkun. Það var ekkert annað en valdbeiting sem sýnir ekki styrk, heldur veikleika,“ segir hún. 

Horfir til haustsins af ábyrgð og festu 

Að loknum þingvetri horfir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, nú til haustsins af bjartsýni og með skýra sýn á næsta þingvetur. 

„Við höldum áfram með skýra sýn. Næsti þingvetur verður tími nýrrar baráttu og Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn að leiða hana af ábyrgð og festu,“ segir Guðrún og bendir á að flokkurinn muni leggja sérstaka áherslu á málefni sem varða fólkið i landinu og atvinnulífið. 

„Við ætlum að bæta hag heimilanna, styðja við verðmætasköpun og sterkt atvinnulíf, og standa vörð um fullveldið. Sterkur Sjálfstæðisflokkur skiptir sköpum.“ 

Að lokum beinir hún orðum sínum til landsmanna með hlýjum hug. 

„Núna stendur yfir fallegasti og mest heillandi árstími á Íslandi. Ég óska ykkur öllum gleðilegs sumar og hlakka til að eiga við ykkur samtal.“