Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins:
Ísland er ekki átakaþjóð. Okkur er annt um náungann og við höfum löngum lagt okkur fram við að leysa ágreining með samtali. Við ræðum, rökræðum, en leitum jafnan eftir hófstilltum niðurstöðum. Þess vegna er það þyngra en tárum taki að horfa upp á ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur kollvarpa rótgrónum siðum og hefðum Alþingis, ekki vegna neyðar eða þjóðaröryggis, heldur vegna skattahækkana.
Kjarnorkuákvæðið, eins og það er kallað, er ekki nefnt svo að ástæðulausu. Það er neyðarúrræði og hefur einungis tvisvar verið beitt í lýðveldissögunni: Árið 1949 við inngöngu Íslands í NATO og árið 1959 þegar fjárlög voru í algjörum ógöngum. Aldrei síðan. Ekki í einu einasta máli sem hefur komið til kasta Alþingis.
Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur ákvað í dag að beita þessu ákvæði til að troða yfir þingræðið og þvinga í gegn umdeildu frumvarpi um hækkun veiðigjalda. Þannig hefur Kristrún Frostadóttir markað sín spor í þingsöguna og sett fordæmi fyrir ríkisstjórnir framtíðarinnar um að taka lýðræðið úr sambandi með beitingu kjarnorkuákvæðisins. Ekki vegna þjóðarvár. Ekki vegna neyðarástands. Heldur vegna skattahækkunar.
Kristrún áttar sig kannski ekki á því í dag, en þessi dagur verður skrifaður í sögubækurnar sem smánarblettur ríkisstjórnar hennar. Hún er fyrsti forsætisráðherrann í 66 ár sem mistekst að miðla málum á Alþingi. Það er og verður hennar arfleifð, á sínu fyrsta þingi sem forsætisráðherra.
Henni kann að þykja þægilegt að þagga niður í andstæðingum sínum í dag. En þeir sem ryðja burt leikreglunum þurfa að vera tilbúnir að spila leikinn án þeirra sjálfir. Með fordæminu sem Kristrún setti í dag, fær hún ef til vill að bragða á eigin meðali fyrr en síðar. Forsætisráðherra mun koma til með að sjá eftir þessum degi.
Ef ríkisstjórn Kristrúnar er tilbúin að beita þessu ákvæði til þess að hækka skatta, hvernig mun hún þá beita ákvæðinu næst?
Við höfum séð á fyrstu mánuðum þessarar ríkisstjórnar að hún megi ekki heyra á skatta minnst án þess að vilja hækka þá. Þau ætla að hækka skatta á 80 þúsund Íslendinga með því að þvinga sveitarfélög til þess að hafa útsvarið í botni. Það á að afnema samsköttun hjóna sem kemur verst út fyrir fjölskyldufólk. Þá á að hækka skatta á ferðaþjónustuna og allan almenning með upptöku kílómetragjalds. Og ekki nóg með það, þá á að skattleggja sjálft heita vatnið hjá íbúum höfuðborgarsvæðisins. Vitleysan virðist ekki eiga sér nein takmörk.
Áhrif þessarar skattastefnu munu koma fram. Á fjögurra ára kjörtímabili verður enginn óhultur. Allir munu komast að í röðinni. Og á meðan ríkisstjórnin gerir ráð fyrir nýjum skatttekjum án þess að taka á útgjaldavandanum, þá blasir svarið við: Ríkisstjórnin mun sækja peningana í vasa skattgreiðenda með einum eða öðrum hætti, og ef marka má daginn í dag, án umræðu.
En það er hægt að snúa þessari vegferð við. Því þó að ríkisstjórnin hafi kosið að beita valdi í stað umræðu, hroka í stað samráðs, þá mun Sjálfstæðisflokkurinn standa með fólkinu í landinu. Með lýðræðinu. Með skynseminni.
Nú reynir á alla þá sem trúa því að Ísland eigi betra skilið.
Birt á facebook-síðu Guðrúnar 11. júlí 2025.