Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur braut í dag blað í lýðveldissögunni þegar hún beitti 71. grein þingskapalaga (kjarnorkuákvæðinu) til að stöðva lýðræðislega umræðu á Alþingi og þvinga fram atkvæðagreiðslu um veiðigjaldafrumvarpið.
Um algjört neyðarúrræði er að ræða en í dag var því ekki beitt vegna þjóðarvár eða neyðarástands – heldur vegan skattahækkunar. Slíku ákvæði hefur einungis tvisvar áður verið beitt. Síðast fyrir 66 árum til að afstýra því að öll starfsemi hins opinbera stöðvaðist og þar áður fyrir 76 árum vegna inngöngu Íslands í NATO.
Með þessu er rofin hefð um að Alþingi sé vettvangur lýðræðislegrar umræðu. Beiting ákvæðisins var ekki nauðsynleg, heldur aðeins pólitísk ákvörðun ríkisstjórnarinnar til að þagga niður í stjórnarandstöðunni.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hefur, í sinni fyrstu prófraun, sýnt fullkominn skort á sáttavilja og leiðtogahæfileikum.
Fyrsti forsætisráðherrann í 66 ár sem mistekst að miðla málum í þinglokum
„Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur ákvað í dag að beita þessu ákvæði til að troða yfir þingræðið og þvinga í gegn umdeildu frumvarpi um hækkun veiðigjalda. Þannig hefur Kristrún Frostadóttir markað sín spor í þingsöguna og sett fordæmi fyrir ríkisstjórnir framtíðarinnar um að taka lýðræðið úr sambandi með beitingu kjarnorkuákvæðisins,” segir Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins.
Segir hún jafnframt að þessi dagur verði skrifaður í sögubækurnar sem smánarblettur ríkisstjórnar hennar. Hún sé fyrsti forsætisráðherrann í 66 ár sem mistekst að miðla málum í þinglokum. Það sé og verði hennar arfleifð, á sínu fyrsta þingi sem forsætisráðherra.
„Henni kann að þykja þægilegt að þagga niður í andstæðingum sínum í dag. En þeir sem ryðja burt leikreglunum þurfa að vera tilbúnir að spila leikinn án þeirra sjálfir. Með fordæminu sem Kristrún setti í dag fær hún ef til vill að bragða á eigin meðali fyrr en síðar. Forsætisráðherra mun koma til með að sjá eftir þessum degi,“ segir Guðrún.
Sjálfstæðisflokkurinn mun berjast gegn öllum skattahækkunum
Þá segir Guðrún að Sjálfstæðisflokkurinn hafi að undanförnu verið sakaður um sérhagsmunagæslu.
„Hvað slíka orðræðu varðar hef ég aðeins eitt að segja: Sjálfstæðisflokkurinn mun berjast gegn öllum skattahækkunum, sem leggjast munu á ykkur, fólkið í landinu, af sömu hörku,“ segir hún.
Í þessu samhengi nefnir hún að á næstu misserum ætli ríkisstjórnin að hækka skatta á 80 þúsund Íslendinga með því að þvinga sveitarfélög til þess að hafa útsvar í botni. Þá eigi að afnema samsköttun hjóna sem komi verst út fyrir fjölskyldufólk. Eins eigi að hækka skatta á ferðaþjónustu og allan almenning með upptöku kílómetragjalds. Eins sé til skoðunar að skattleggja heitt vatn fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins.
„Ef ríkisstjórn Kristrúnar er tilbúin að beita þessu ákvæði til þess að hækka skatta, hvernig mun hún þá beita ákvæðinu næst?” spyr Guðrún.
Segir Guðrún að hægt sé að snúa þessari vegferð við því þó svo að ríkisstjórnin hafi kosið að veita valdi í stað umræðu og hroka í stað samráðs muni Sjálfstæðisflokkurinn standa með fólkinu í landinu, með lýðræðinu og með skynseminni.
„Nú reynir á alla þá sem trúa því að Ísland eigi betra skilið,“ segir hún.