Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:
Ekki er langt síðan forsætisráðherra barmaði sér í Kastljósi yfir „falsfréttastíl“ minnihlutans á Alþingi í umræðu um fyrirhugaða hækkun veiðigjalds. Það er nú yfirleitt þannig að þegar stjórnmálamaður sakar aðra um falsfréttir þá er upplýsingaóreiðan alla jafna frá honum sjálfum komin. Þegar staðreyndir þessa tiltekna máls eru skoðaðar sést nefnilega svart á hvítu að það er ríkisstjórnin og meirihlutinn á Alþingi sem fer með fleipur í umræðunni um veiðigjöld.
Í frumvarpi atvinnuvegaráðherra greinir meiri- og minnihlutanum á um ýmislegt, svo sem mögulegar afleiðingar, hversu hátt gjaldið eigi að vera og hvort skattar á fyrirtæki hafi yfir höfuð einhver áhrif á rekstur þeirra. Slíkur ágreiningur á fullan rétt á sér. Öllu verra er að borið hefur á því að einföldum og óumdeilanlegum staðreyndum sé hreinlega hafnað. Þar fer hvað mest fyrir þremur rangfærslum sem ítrekað hefur verið varpað fram í umræðunni og eiga það sameiginlegt að koma frá stjórnarmeirihlutanum.
1. „Veiðigjald er ekki skattur.“ Fullyrðingin um að veiðigjald sé ekki skattur er án efa sú rangfærsla sem hefur náð hvað mestri dreifingu. Stjórnarliðar hafa ítrekað haldið því fram að veiðigjald sé ekki skattur heldur einhvers konar leiga eða afgjald. Staðreyndir málsins tala hins vegar sínu máli. Samkvæmt lögum um veiðigjald, nr. 145/2018, er veiðigjald skattur. Þá segir orðrétt í frumvarpi atvinnuvegaráðherra að „ágreiningslaust er að veiðigjald er skattur“. Er það líka niðurstaða Hæstaréttar og lesa má um í dómum nr. 461/2015 og 213/2016. Í nefndaráliti meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis segir svo einnig að Hæstiréttur hafi „slegið því föstu að veiðigjald sé í eðli sínu skattur“.
Það er því óumdeilanlegt að veiðigjald er skattur.
2. „Veiðigjaldið stendur ekki undir kostnaði ríkisins við sjávarútveginn.“ Því hefur ítrekað verið haldið fram að veiðigjöldin standi ekki straum af þeim kostnaði sem fellur á ríkið við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu eins og kveðið er á um í 1. gr. laga um veiðigjald. Sagt er að kostnaður ríkisins hafi verið meiri en tekjur af veiðigjaldi árið 2023. Sú fullyrðing stenst hins vegar enga skoðun.
Í lokaskýrslu Auðlindarinnar okkar kemur skýrt fram að heildarkostnaður ríkisins við sjávarútveg hafi verið tæpir 7,9 milljarðar árið 2023 á sama tíma og veiðigjaldið skilaði ríkissjóði tekjum upp á rúma 10 milljarða króna.
3. „Það hefur legið fyrir frá upphafi hverjar tölurnar hafa verið.“ Í Kastljósi sagði forsætisráðherra að legið hafi fyrir „alveg frá upphafi hverjar tölurnar hafa verið“. Þessi fullyrðing kemur ekki heim og saman við gögn málsins. Þær tölur sem birtast í frumvarpi atvinnuvegaráðherra eru ekki þær sömu og komu frá Skattinum og eru nú lagðar til grundvallar í nefndaráliti meirihluta atvinnuveganefndar.
Sjálfur þingflokksformaður Samfylkingarinnar hefur viðurkennt í ræðustól Alþingis að réttar tölur hafi fyrst legið fyrir 12. júní, eða eftir að umsagnarfrestur við frumvarpið var liðinn og um einum og hálfum mánuði eftir að frumvarpið var lagt fram – einum degi fyrir áætluð þinglok.
Ef þú ert komin ofan í holu, hættu þá að moka
Í vegferð sinni um hækkun veiðigjalds virðist ríkisstjórnin hafa farið of geyst. Það að æða áfram með jafn veigamikið mál án þess að réttar tölur liggi fyrir lýsir óvönduðum vinnubrögðum af hálfu ríkisstjórnarinnar og er ekki Alþingi sæmandi. Enn er því ósvarað hvort frumvarpið og þau gögn sem liggja því til grundvallar séu yfir allan vafa hafin. Þess utan hafa sjónarmið og upplýsingar litið dagsins ljós sem benda einatt til þess að frumvarpið hafi í för með sér íþyngjandi afleiðingar fyrir atvinnulíf og sveitarfélög úti á landi.
Ekki virðist vera nokkur vilji hjá stjórnarmeirihlutanum til þess að viðurkenna það sem betur hefði mátt fara eða bæta úr ágöllum. Í staðinn er haldið ótrautt áfram og ítrekuðum rangfærslum kastað fram í þeirri von að fegra frumvarpið í augum almennings. Það er þó ekki vænlegt til vinnings enda hefur það aldrei þótt góðri lukku að stýra að moka sig upp úr holum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. júlí 2025