Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins:
Grímulaus sérhagsmunagæsla, valdarán, andlýðræði, hundar í bandi og falsfréttastíll eru nokkur dæmi um þá orðræðu sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa viðhaft undanfarið um stjórnarandstöðuna. Þessi orð endurspegla sennilega betur viðhorf meirihlutans til stjórnmálanna sem innihaldslausrar refskákar en nokkuð annað. Mótspyrna og hlutverk stjórnarandstöðunnar virðist í þeirra augum þjóna engum raunverulegum tilgangi. Slíkt viðhorf til starfa minnihlutans og lýðræðislegrar umræðu er ekki til eftirbreytni. Er ekki að undra að þinglok séu komin í þann hnút sem raun ber vitni en á því ber ríkisstjórnin fulla ábyrgð.
Umræðan um tvöföldun veiðigjalda á Alþingi hefur staðið yfir nokkuð lengi og rétt að árétta að ástæðan er ærin. Frumvarp ráðherrans er vanbúið og skortir mat á víðtækum áhrifum þess. Samráð var takmarkað frá upphafi og málinu böðlað í gegnum nefnd. Með öðrum orðum var áhugi stjórnarliða á öðrum sjónarmiðum um málið takmarkaður. Það er ekki til of mikils mælst að stjórnarmeirihlutinn viðhafi vandaðri vinnubrögð við lagasetningu. Svo ekki sé minnst á þau mistök í grundvallarútreikningum málsins sem eingöngu voru dregin fram í dagsljósið af hálfu stjórnarandstöðunnar. Mistök sem sennilega stæðu enn óleiðrétt í nýsettum lögum hefði minnihlutinn látið undan ítrekuðum kröfum stjórnarliða um að hleypa frumvarpinu í atkvæðagreiðslu möglunarlaust. Varðstaða þingmanna Sjálfstæðisflokksins hefur því sannarlega ekki verið til einskis.
Eitt er að láta varnaðarorð stjórnarandstöðunnar sér í léttu rúmi liggja. Annað er að láta sem áhyggjur sveitarfélaga, fólksins í sjávarbyggðunum, fyrirtækja í sjávarútvegi og tengdra aðila og innlendra og erlendra sérfræðinga séu tilbúningur. Ásakanir um að margra mála málþóf stjórnarandstöðu hafi sett þingið í hnút og réttlæti því skeytingarleysi réttmætra varnaðarorða breytir engu og stenst enga sanngjarna skoðun. Til að mynda hefur nú þegar um helmingur allra mála ríkisstjórnarinnar orðið að lögum.
Staðreyndirnar tala sínu máli og óboðlegt að heil atvinnugrein, fólkið og byggðirnar í landinu séu látin líða fyrir vanvirðingu gagnvart því hvernig verðmætin verða til og því má ekki ógna.
Afstaða Sjálfstæðisflokksins í þessu máli er skýr. Trúin á frelsið og hvatann til að skapa verðmæti er innbyggð í stefnu flokksins ásamt áherslunni á fjölbreytt og öflugt atvinnulíf. Þannig verður hagsældin enda til og skilar sér í auknum lífsgæðum og velferð til handa fólkinu í landinu. Það er ekki sjálfsprottið ástand að Ísland er í dag meðal bestu landa í heimi og lífsgæði óvíða meiri. Það er afrakstur af stefnufestu Sjálfstæðisflokksins í gegnum áratugina. Það er skylda okkar að þegja ekki þunnu hljóði þegar þeim árangri er teflt í tvísýnu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. júlí 2025