Einnar handar pelastikk

8. júlí 2025

'}}

Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins:

Grímu­laus sér­hags­muna­gæsla, vald­arán, and­lýðræði, hund­ar í bandi og fals­frétta­stíll eru nokk­ur dæmi um þá orðræðu sem rík­is­stjórn­ar­flokk­arn­ir hafa viðhaft und­an­farið um stjórn­ar­and­stöðuna. Þessi orð end­ur­spegla senni­lega bet­ur viðhorf meiri­hlut­ans til stjórn­mál­anna sem inni­halds­lausr­ar ref­skák­ar en nokkuð annað. Mót­spyrna og hlut­verk stjórn­ar­and­stöðunn­ar virðist í þeirra aug­um þjóna eng­um raun­veru­leg­um til­gangi. Slíkt viðhorf til starfa minni­hlut­ans og lýðræðis­legr­ar umræðu er ekki til eft­ir­breytni. Er ekki að undra að þinglok séu kom­in í þann hnút sem raun ber vitni en á því ber rík­is­stjórn­in fulla ábyrgð.

Umræðan um tvö­föld­un veiðigjalda á Alþingi hef­ur staðið yfir nokkuð lengi og rétt að árétta að ástæðan er ærin. Frum­varp ráðherr­ans er van­búið og skort­ir mat á víðtæk­um áhrif­um þess. Sam­ráð var tak­markað frá upp­hafi og mál­inu böðlað í gegn­um nefnd. Með öðrum orðum var áhugi stjórn­ar­liða á öðrum sjón­ar­miðum um málið tak­markaður. Það er ekki til of mik­ils mælst að stjórn­ar­meiri­hlut­inn viðhafi vandaðri vinnu­brögð við laga­setn­ingu. Svo ekki sé minnst á þau mis­tök í grund­vallar­út­reikn­ing­um máls­ins sem ein­göngu voru dreg­in fram í dags­ljósið af hálfu stjórn­ar­and­stöðunn­ar. Mis­tök sem senni­lega stæðu enn óleiðrétt í ný­sett­um lög­um hefði minni­hlut­inn látið und­an ít­rekuðum kröf­um stjórn­ar­liða um að hleypa frum­varp­inu í at­kvæðagreiðslu mögl­un­ar­laust. Varðstaða þing­manna Sjálf­stæðis­flokks­ins hef­ur því sann­ar­lega ekki verið til einskis.

Eitt er að láta varnaðarorð stjórn­ar­and­stöðunn­ar sér í léttu rúmi liggja. Annað er að láta sem áhyggj­ur sveit­ar­fé­laga, fólks­ins í sjáv­ar­byggðunum, fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi og tengdra aðila og inn­lendra og er­lendra sér­fræðinga séu til­bún­ing­ur. Ásak­an­ir um að margra mála málþóf stjórn­ar­and­stöðu hafi sett þingið í hnút og rétt­læti því skeyt­ing­ar­leysi rétt­mætra varnaðarorða breyt­ir engu og stenst enga sann­gjarna skoðun. Til að mynda hef­ur nú þegar um helm­ing­ur allra mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar orðið að lög­um.

Staðreynd­irn­ar tala sínu máli og óboðlegt að heil at­vinnu­grein, fólkið og byggðirn­ar í land­inu séu lát­in líða fyr­ir van­v­irðingu gagn­vart því hvernig verðmæt­in verða til og því má ekki ógna.

Afstaða Sjálf­stæðis­flokks­ins í þessu máli er skýr. Trú­in á frelsið og hvat­ann til að skapa verðmæti er inn­byggð í stefnu flokks­ins ásamt áhersl­unni á fjöl­breytt og öfl­ugt at­vinnu­líf. Þannig verður hag­sæld­in enda til og skil­ar sér í aukn­um lífs­gæðum og vel­ferð til handa fólk­inu í land­inu. Það er ekki sjálfsprottið ástand að Ísland er í dag meðal bestu landa í heimi og lífs­gæði óvíða meiri. Það er afrakst­ur af stefnu­festu Sjálf­stæðis­flokks­ins í gegn­um ára­tug­ina. Það er skylda okk­ar að þegja ekki þunnu hljóði þegar þeim ár­angri er teflt í tví­sýnu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. júlí 2025