Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:
„Tekjuöflun ríkissjóðs á að byggja á réttlátri og hóflegri skattlagningu, þar sem allir bera réttlátar byrðar. Viðreisn leggur áherslu á að við endurskoðun skattlagningar fjármagnstekna sé mikilvægt að taka tillit til raunávöxtunar. Viðreisn leggur áherslu á að auka vægi grænna gjalda og auðlindagjalda. Tekjur af þeirri skattlagningu má nýta til að lækka aðra óhagkvæmari skatta.“ (Af heimasíðu Viðreisnar)
„Fyrsta viðbragð má ekki alltaf vera að hækka skatta, því það er fátt varanlegra en skattahækkanir, jafnvel þótt þær séu sagðar tímabundnar,“ sagði Sigmar Guðmundsson þingflokksformaður Viðreisnar í réttmætri gagnrýni í grein á Eyjunni. Að hans mati kemur ekki til greina að sá hópur sem ber þyngstar byrðar af útgjaldagleði (þáverandi) stjórnarflokka greiði fyrir stjórnleysi með hærri sköttum. Heimili landsins eigi ekki að fá slíkt högg ofan á ofurvextina og verðbólguna. Og nú er ekki lengur minnst á lækkun skatta með auðlindagjöldum. – Hvað hefur breyst?
Nú eru boðaðar stórfelldar skattahækkanir sem aldrei fyrr. Fyrirtækin eru sögð eiga að greiða stóran hluta. En skattur á fyrirtæki lendir á endanum alltaf á fólki. Fólk ber byrðarnar, ekki kennitölur. Fyrirspurnir mínar til fjármálaráðherra hafa leitt í ljós að Ísland á heimsmet í skattbyrði og nú á heldur betur að bæta í. Þorsteinn Pálsson, guðfaðir Viðreisnar, sagði enda fyrir stuttu: „Ísland er þegar í hópi þeirra ríkja sem ganga lengst í skattheimtu.“
Gengur skattastefna ríkisstjórnarinnar ekki í berhögg við grunnstefnu Viðreisnar? Og hvað má þá segja um frumvarp fjármálaráðherra um víxlverkun örorkulífeyrisgreiðslna? Svona má áfram halda um stefnumál flokksins, hvert af öðru. Erindi hans virðist það eitt að efna stefnu annarra stjórnarflokka, að því undanskildu að ESB-flokkarnir tveir sameinast um inngöngu Íslands í sambandið. Þetta verklag og áhrif Viðreisnar í stjórn þekkjum við reyndar þegar af þátttöku flokksins sem stuðningsfulltrúi Samfylkingar við stjórn Reykjavíkurborgar. – Er Viðreisn þá bara enn einn vinstriflokkurinn, eða freista völdin svo mjög?
Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. júlí 2025