27. júní 2025

Svigrúm til skattalækkana

Í sjötta sinn á yfirstandandi kjörtímabili lagði Sjálfstæðisflokkur til við borgarstjórn síðastliðinn þriðjudag, að álagningarhlutföll fasteignaskatta yrðu lækkuð á bæði íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði. Í sjötta sinn var tillagan felld af sitjandi meirihluta.

Heildarmat fasteigna á Íslandi hefur tekið gríðarlegum hækkunum á kjörtímabilinu eða sem nemur tæpum 62%. Í ljósi þess að fasteignaskattar eru reiknað hlutfall af fasteignamati leiðir ítrekuð hækkun fasteignamats óhjákvæmilega af sér krónutöluhækkanir fasteignaskatta. Nágrannasveitarfélög hafa brugðist við hækkandi fasteignamati með samsvarandi lækkun álagningarhlutfalla síðustu ár, en borgaryfirvöld hafa ekki séð ástæðu til að fallast á slíkt viðbragð. Þvert á móti hefur ríkjandi meirihluti hverju sinni talið nauðsynlegt að sækja auknar tekjur í vasa fasteignaeigenda.

Samkvæmt fyrirliggjandi ársreikningum og fjárhagsáætlunum Reykjavíkurborgar má ljóst vera að tekjur borgarinnar af álögðum fasteignasköttum hafa aukist töluvert á kjörtímabilinu, eða
sem nemur samanlagt tæpum
16,2 milljörðum króna. Það er sú aukna fjárhæð sem sótt hefur
verið til fasteignaeigenda í formi aukinnar skattheimtu svo bregðast megi við bágum rekstri borgarinnar.

Samkvæmt tölfræði frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun mun fasteignamat íbúðarhúsnæðis í Reykjavík hækka um 9,9% árið 2026 og fasteignamat atvinnuhúsnæðis um 3,8%. Verði álagningarhlutföllum ekki breytt fyrir árið 2026 munu fasteignaeigendur óhjákvæmilega verða fyrir fjórðu skattahækkuninni á kjörtímabilinu í formi krónutöluhækkana fasteignaskatta. Eina skynsamlega viðbragð sveitarfélags við hækkun fasteignamats er samsvarandi lækkun skattprósentu – enda kostar það borgina ekki meira að þjónusta fasteignaeigendur þótt fasteignamat hafi hækkað.

Eftir sem áður er það afstaða sjálfstæðismanna í borgarstjórn að óráðsíu í opinberum rekstri skuli ekki undir nokkrum kringumstæðum leiðrétta með aukinni skattheimtu, heldur þvert á móti með því að draga saman seglin í opinberum rekstri, minnka yfirbygginguna og ráðast í hagræðingar. Ef rétt er haldið á málum er sannarlega svigrúm til skattalækkana í Reykjavík.

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur

Greinin birtist fyrst á Vísi 26. júní 2025.