Aukin samkeppnishæfni Íslands – betur má ef duga skal

27. júní 2025

'}}

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi:

Sviss, Singapúr, Hong Kong og Danmörk eru samkeppnishæfustu ríki heims samkvæmt árlegri úttekt IMD-háskólans í Sviss. Íslendingar hækka um tvö sæti á milli ára og eru nú í 15. sæti listans samkvæmt mælingunni, sem Viðskiptaráð hefur kynnt. Þær þjóðir, sem metnar eru samkeppnishæfastar, leggja mikla áherslu á frjálst hagkerfi og öflugt atvinnulíf.

Úttekt IMD nær til 69 ríkja og byggist á 340 atriðum úr hagvísum og svörum úr stjórnendakönnun. Samkeppnishæfni er metin út frá fjórum meginflokkum: efnahagslegri frammistöðu, skilvirkni hins opinbera, skilvirkni atvinnulífs og samfélagslegum innviðum. Þessir þættir gegna lykilhlutverki varðandi verðmætasköpun og velferð þjóða.

Ánægjulegur árangur

Samkeppnishæfni Íslands hefur batnað verulega undanfarin fimmtán ár, sem er afar ánægjulegt. Á heildina litið stöndum við framarlega í þremur af fjórum meginþáttum úttektarinnar. Árið 2010 var Ísland í þrítugasta sæti listans, í tuttugasta sæti árið 2019 og nú í hinu fimmtánda.

Þessi árangur skýrist einkum af framförum varðandi skilvirkni atvinnulífsins og hins opinbera þar sem Íslendingar standa flestum öðrum þjóðum fyllilega á sporði. Á fimmtán ára tímabili hefur þjóðin hins vegar staðið í stað hvað varðar efnahagslega frammistöðu og gefið eftir þegar litið er til samfélagslegra innviða.

Mikil skilvirkni atvinnulífs

Helsti styrkur Íslendinga liggur í góðri skilvirkni atvinnulífsins. Þar erum við í 10. sæti og hækkum um þrjú á milli ára. Þjóðin er í efsta sæti varðandi góða stjórnarhætti fyrirtækja og framarlega þegar kemur að samfélagslegri umgjörð, viðhorfi og gildismati, sem og grunninnviðum og tæknilegum innviðum

Íslendingar eru í 18. sæti hvað varðar skilvirkni hins opinbera og falla um eitt sæti á milli ára. Samfélagsleg umgjörð þykir næstbest á Íslandi samkvæmt úttektinni en unnt er að gera betur að ýmsu leyti, t.d. í skattastefnu og opinberum fjármálum.

Staða samfélagslegra innviða hefur löngum verið einn helsti styrkur Íslendinga í úttekt IMD. Þar er þjóðin nú í 12. sæti, sem er óbreytt staða á milli ára. Helstu framfarir í þessum flokki felast í tæknilegum innviðum.

Bæta þarf efnahaginn

  • Íslendingar eru í 52. sæti hvað varðar efnahagslega frammistöðu og hækka um eitt sæti á milli ára. Þarna erum við eftirbátur flestra nágrannaþjóða okkar, sem er auðvitað miður. Erum við í 40. sæti þegar kemur að innlendum efnahag, 59. sæti varðandi verðlag, 60. sæti í alþjóðlegri fjárfestingu og 63. sæti í alþjóðaviðskiptum. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að við erum í áttunda sæti við mat á atvinnustigi.Mæling IMD gefur góðar vísbendingar um helstu tækifærin til umbóta í atvinnulífi og opinberum rekstri. Við þurfum að nýta þessar vísbendingar til að auka samkeppnishæfni þjóðarinnar og bæta þar með lífskjör hennar. Viðskiptaráð bendir á skynsamlegar leiðir í þessu skyni.·      Ríki og sveitarfélög þurfa að hætta hallarekstri og skila afgangi af rekstri hins opinbera. Þannig yrði unnt að lækka skuldir og minnka vaxtagreiðslur. Slíkar umbætur í opinberum fjármálum myndu leiða til lægri verðbólgu og vaxta.

    ·      Samdráttur í opinberum útgjöldum og lækkun skatta hefðu jákvæð áhrif á verðmætasköpun með aukinni fjárfestingu og framleiðslu í hagkerfinu.

    ·      Með afnámi viðskiptahindrana og umbótum í samkeppnismálum gætu stjórnvöld stuðlað að auknu vörurúrvali og lægra vöruverði en nú er.

    ·      Liðka þarf fyrir erlendri fjárfestingu í hagkerfinu með einfaldari regluverki og eftirliti.

Hvað gerir ríkisstjórnin?

Stærstur hluti mælingar IMD miðast við gögn frá árinu 2024. Athyglisvert verður að sjá hvaða áhrif aðgerðir nýrrar ríkisstjórnar hafa á samkeppnishæfni þjóðarinnar. Það tekur langan tíma að byggja upp samkeppnishæfni þjóða en hins vegar er hægt að glutra niður góðri stöðu á skömmum tíma ef ekki er vel haldið á málum. Vonandi skila verk stjórnarinnar þeim árangri að samkeppnishæfni landsins haldi áfram að aukast, sem kæmi öllum Íslendingum til góða.