Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins:
Á afmælisdegi lýðveldisins minnumst við og þökkum fyrir ævi og störf Jóns Sigurðssonar, fyrrum forseta Alþingis. Það var ekki fyrir hendingu að lýðveldið var stofnað á afmælisdegi hans, svo djúp skref markaði hann í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. En Jón var hvorki sá fyrsti né sá síðasti sem helgaði sig þeim málstað. Sjálfstæðisbaráttunni lýkur aldrei og öll leggjum við hönd á plóg, meðvitað eða ómeðvitað, á degi hverjum.
Þetta á við um alþingismenn eins og aðra. Alþingismenn sverja sérstakan eið að stjórnarskránni og er þeim skylt að vinna sitt starf samkvæmt bestu sannfæringu í þágu þjóðar. Ramminn utan um störf þingmanna er þingsköpin og er þeim m.a. ætlað að tryggja framgang mála og að meirihluti þingsins taki tillit til minnihlutans við afgreiðslu þeirra.
Þetta fyrirkomulag helgast af því að lýðræðið nær ekki hámarki sínu og endamarki við kosningar þar sem sigurvegaranum er veitt einhvers konar alræðisvald. Lýðræðið er flóknara og vandaðra en svo. Minnihluti kjósenda hefur sinn málsvara og vald meirihlutans er temprað af reglum, hefðum og venjum.
Það gerist stundum í kjölfar kosninga að nýir stjórnarherrar fyllast kappi sem í verstu tilfellum getur jaðrað við dramb. Biðin eftir áhrifum getur stundum orðið svo löng að dómgreindin bilar þegar í ríkisstjórn er komið. Þá reynir á Alþingi og starfsreglur þess. Við slíkar aðstæður er það skylda stjórnarandstöðunnar að koma í veg fyrir verstu slysin, tryggja að mál séu vel unnin, búið sé að greina afleiðingar og leitað hafi verið eftir skoðunum þeirra sem málið snertir. Stundum þarf að tryggja að tillögumennirnir sjálfir hafi lágmarksskilning á eigin tillögugerð.
Í virku lýðræði er það skylda minnihlutans að veita stöðugt aðhald og svo viðnám þegar meirihlutinn reynir að knýja fram óvönduð mál. Þingsköpin gera einmitt ráð fyrir slíku, það er byggt inn í okkar lýðræðislega fyrirkomulag.
Þegar stjórnarandstaðan sinnir þessari skyldu eru jafnan gerð hróp að henni og hún sökuð um málþóf. Þá er rétt að hafa í huga að það er ástæða fyrir því að þingsköp gera ráð fyrir að stjórnarandstaðan geti beitt slíku vopni.
Gangverk lýðveldis er viðkvæmt og það er hugsun að baki hverri fjöður og tannhjóli. Þrískipting ríkisvalds, sjálfstæði dómstóla og þingsköpin eru meðal þess sem tryggir að lýðræðið virki sem best. Þjóðríki þar sem kjörinn meirihluti hafnar aðhaldi í krafti atkvæða þykja sjaldnast til fyrirmyndar. Stjórnskipan lýðveldisins okkar hefur reynst farsæl í 81 ár og við ættum að varast að hrófla við henni eða setja fordæmi sem geta grafið undan henni. Stjórnarandstaða hefur sitt hlutverk og ber að sinna því. Annað væri svik við þjóðina – og ekki síður lýðveldið Ísland sem heldur upp á afmælið sitt í dag.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. júní 2025

