10. júní 2025

Margsaga samstöðustjórn

Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins:

Í stefnuræðu sinni á yf­ir­stand­andi þingi sagði for­sæt­is­ráðherra að það væri „full ein­ing“ í rík­is­stjórn­inni um „öll þau mál sem birt­ast í þing­mála­skrá“. Stjórn­ar­liðar hafa síðan ít­rekað sagst vera meira sam­stiga en geng­ur og ger­ist og því yrðu verk­in lát­in tala.

Ýmis­legt bend­ir þó til hins gagn­stæða enda hafa verk­in alls ekki talað held­ur í ýmsu þagað þunnu hljóði.

Í stefnuræðu sagði for­sæt­is­ráðherra að þær tíu þúsund til­lög­ur sem bár­ust rík­is­stjórn­inni um hag­sýni í rík­is­rekstri væru þegar farn­ar að skila ár­angri „með því að seytla um stjórn­kerfið og sam­fé­lagið allt“. Nú við þinglok eru þess­ar hagræðing­ar­til­lög­ur nær hvergi sjá­an­leg­ar. Auðvelt er að giska á hverju það sæt­ir.

For­sæt­is­ráðherra kynnti með stolti þegar fjár­auki um áherslu­mál rík­is­stjórn­ar­inn­ar var af­greidd­ur úr rík­is­stjórn. Mánuður leið án þess að nokkuð bólaði á því frum­varpi sem er fyrst sett á dag­skrá þing­fund­ar í dag, 10. júní. Af því verður ekki annað ráðið en að frum­varpið hafi setið fast í þing­flokk­um stjórn­ar­liða all­an þenn­an tíma.

Fé­lags­málaráðherra lagði fram frum­varp um að binda þróun al­manna­trygg­inga við launa­vísi­tölu. Við meðferð máls­ins barst minn­is­blað frá fjár­málaráðuneyt­inu þar sem fram koma áhyggj­ur um sjálf­virkni­væðingu rík­is­út­gjalda og sjálf­bærni op­in­berra fjár­mála. Það er vert að nefna að ekk­ert er til sem heit­ir „álit fjár­málaráðuneyt­is­ins“. Allt sem þaðan kem­ur er í nafni og á ábyrgð fjár­málaráðherra – þess sem sit­ur í sömu rík­is­stjórn og ráðherr­ann sem lagði frum­varpið fram.

Ann­ar flækju­fót­ur er frum­varp at­vinnu­vegaráðherra um strand­veiðar þar sem fram kem­ur að skoða þurfi minnk­un á leyfi­leg­um dagskammti til að tryggja 48 daga veiðar. Þingmaður Flokks fólks­ins stíg­ur þá fram og seg­ir um mis­tök ráðuneyt­is­ins að ræða – slíkt komi ekki til greina. Sem er áhuga­vert í ljósi þess að frum­varp­inu var dreift og rætt í þingsal án þess að þessi orð í frum­varpi ráðherra hafi þar verið dreg­in til baka.

Það blas­ir við að sam­stöðudans stjórn­ar­meiri­hlut­ans er sér­lega stirður á milli Flokks fólks­ins og Viðreisn­ar. Á meðan hef­ur Sam­fylk­ing­in tekið svo marga snún­inga á stefnu sinni að henni virðist það létt að halla sér í þá átt sem vind­ur­inn blæs hent­ug­ast þann dag­inn.

Al­gjör viðsnún­ing­ur stjórn­ar­liða í mál­um eins og til að mynda bók­un 35, leigu­bíla­mál­inu, ESB og söl­unni á Íslands­banka hef­ur vakið at­hygli sem og samþykkt út­lend­inga­mála fyrri rík­is­stjórn­ar, mála sem þing­menn Sam­fylk­ing­ar og Viðreisn­ar höfðu svo gott sem bann­fært á síðasta þingi.

Verk­stjórn og vinnu­brögðum rík­is­stjórn­ar­inn­ar hef­ur verið svo ábóta­vant að það er úti­lokað að öll mál­in séu tæk til loka­af­greiðslu á þessu þingi. Það verður því áskor­un fyr­ir rík­is­stjórn­ina að for­gangsraða mál­um sín­um fyr­ir þinglok.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. júní 2025