27. maí 2025

Gegn betri vitund

Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins:

Fyr­ir rík­is­stjórn­inni fara tveir hag­fræðing­ar. Alla jafna væru það ágæt tíðindi enda seg­ist rík­is­stjórn­in leggja áherslu á stöðug­leika í efna­hags­lífi, aukna verðmæta­sköp­un og bætt lífs­kjör sem er eitt­hvað sem hag­fræðing­ar hafa í há­veg­um. Öllu verra er þegar dýr­mætri þekk­ingu virðist af ein­hverj­um ástæðum kastað á glæ, eins og ráðherr­arn­ir tveir virðast hafa gert í tengsl­um við fyr­ir­ætlan­ir sín­ar um stór­fellda hækk­un veiðigjalda.

Ann­ar þess­ara hag­fræðinga, for­sæt­is­ráðherra, lét þau orð falla í ræðustól Alþing­is um það efni að það væri „hag­fræðilega þekkt for­senda að þegar kem­ur að auðlindar­entu þá hafi dreif­ing henn­ar ekki áhrif á hvernig fyr­ir­tæk­in ákveða að skipta sín­um fram­leiðsluþátt­um vegna þess að þetta er hrein renta“. Það má vel vera að í lokuðum heimi hag­fræðinn­ar sé það svo, fræðilega séð – þetta er ekki sér­svið und­ir­ritaðrar. En það vill svo til að hinn hag­fræðing­ur rík­is­stjórn­ar­inn­ar, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, hef­ur skilið eft­ir sig ritrýnd­ar fræðigrein­ar til glöggv­un­ar í þess­um efn­um í raun­heim­um sem er ekki hægt að skilja á ann­an veg en að orð for­sæt­is­ráðherra stand­ist illa skoðun. Í einni slíkri seg­ir til að mynda að mat á auðlindar­entu sé ætíð byggt á for­send­um en ekki staðreynd­um og gæti því verið bæði ein­faldað og gallað. Einnig að veiðigjald sé ódýr og ómark­viss leið að settu marki. Að lok­um seg­ir svo að þegar nýt­ing­ar­rétt­ur­inn hafi gengið kaup­um og söl­um hafi þegar verið greitt fyr­ir aðgang að auðlind­inni og ekk­ert rými sé í rekstr­in­um til að greiða skatta af rent­unni því hún hafi öll runnið til fyrri eig­enda. Með öðrum orðum sé sem sagt mjög erfitt, ef ekki ómögu­legt, að leggja mat á auðlindar­entu. Af yf­ir­lýs­ing­um stjórn­ar­liða um áhrifa­leysi stór­felldr­ar skatta­hækk­un­ar verður þó vart dreg­in önn­ur álykt­un en að þeir telji sig hafa gert ná­kvæm­lega það. Slíkt af­rek hlýt­ur þá að verðskulda Nó­bels­verðlaun í hag­fræði.

Burt­séð frá hag­fræðileg­um helj­ar­stökk­um sem notuð eru sem ryk í augu al­menn­ings er raun­veru­leiki máls­ins al­var­leg­ur. Fleiri eiga allt sitt und­ir þeirri ein­stöku verðmæta­sköp­un sem á sér stað í og í kring­um ís­lensk­an sjáv­ar­út­veg en marg­an kann að gruna. Þetta eru ekki aðeins út­gerðirn­ar, sjó­menn og fisk­verka­fólk í landi held­ur einnig ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tæki, iðnfyr­ir­tæki og önn­ur stoðþjón­usta og þau sveit­ar­fé­lög sem byggja til­vist sína á þeirri starf­semi. Þetta annaðhvort vita stjórn­ar­liðar mæta vel en kjósa að skella skolla­eyr­um við eða neita að kynna sér staðreynd­ir. Í öllu falli þver­taka stjórn­ar­liðar fyr­ir öll mögu­leg nei­kvæð áhrif áformanna á at­vinnu­líf og verðmæta­sköp­un í land­inu. Hvernig má það vera þegar hag­fræðing­arn­ir í rík­is­stjórn­inni hafa varað við ein­mitt þessu? Er allt falt fyr­ir stund­ar­vin­sæld­ir rík­is­stjórn­ar­inn­ar?

Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. maí 2025.