11. maí 2025

Ríkisfjármál út af sporinu

Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður:

Vorið 2017 flutti fjár­málaráðherra Viðreisn­ar fyrstu þings­álykt­un­ar­til­lögu um fimm ára fjár­mála­áætl­un. Það voru mik­il tíma­mót. Þetta nýja verklag átti sér lang­an aðdrag­anda og var af­leiðing laga um op­in­ber fjár­mál sem Bjarni Bene­dikts­son mælti fyr­ir og Vig­dís Hauks­dótt­ir hafði fram­sögu um í þing­inu. Það kom síðan í hlut þeirr­ar fjár­laga­nefnd­ar að vinna þings­álykt­un­ina í þing­inu og hafði nefnd­in frum­kvæði að því að beina umræðu um ein­staka kafla henn­ar til viðkom­andi fag­nefnda þings­ins. Þáver­andi fjár­málaráðherra lagði sér­stak­an metnað í verk­efnið og taldi eins og þing­heim­ur að við vær­um að breyta vinnu­brögðum til hins betra.

Það varð líka allt annað yf­ir­bragð yfir umræðum um fjár­mál rík­is­ins. Umræðan dýpri, mark­viss­ari og gagn­legri. Meg­in­um­ræðan fór fram að vori í tengsl­um við fjár­mála­áætl­un, enda má segja að fjár­laga­frum­varp sé út­færð staðfest­ing á áform­um þings­álykt­un­ar um fjár­mála­áætl­un sem samþykkt er að vori.

Þáver­andi fjár­málaráðherra lagði sér­staka áherslu á að við þyrft­um að halda áfram að þróa nýtt vinnu­lag og hafði aug­ljós­an metnað fyr­ir verk­efn­inu. Breið samstaða hef­ur verið um þessi viðhorf ráðherr­ans þar til rík­is­stjórn Kristrún­ar Frosta­dótt­ur tók við völd­um. Þá voru öll þessi prinsipp brot­in – kald­hæðnin er að það var fjár­málaráðherra Viðreisn­ar sem sá um þá fram­kvæmd að brjóta upp þessi vönduðu vinnu­brögð. Viðreisn sem hef­ur gefið sig út fyr­ir ábyrga fjár­mála­stjórn! Gleymdi sér að vísu nokkuð við stjórn borg­ar­inn­ar en það verður ekki frá þeim tekið að fyrsti formaður Viðreisn­ar lagði metnað í þessi vinnu­brögð sem flokk­ur­inn er að mola niður núna.

Fjár­málaráð, sem á veita stjórn­völd­um hlut­lægt mat á stefnu­mörk­un í op­in­ber­um fjár­mál­um, lagði áherslu á það í álits­gerð sinni að ekki hefði verið farið eft­ir lög­um við fram­setn­ingu fjár­mála­stefnu og fjár­mála­áætl­un­ar.

Ný­mæli rík­is­stjórn­ar Kristrúnu Frosta­dótt­ur var að leggja fram svo rýr­ar upp­lýs­ing­ar í fjár­mála­áætl­un að ekki var hægt að ræða ein­staka mál út frá nein­um gögn­um og er það ekki ein­ung­is baga­legt fyr­ir þing og þjóð held­ur benti fjár­málaráð á að: „Þetta nýja verklag ger­ir fjár­málaráði erfiðara en áður að upp­fylla lög­bundið hlut­verk sitt.“

Það er stór­mál að færa vinnu­lagið ára­tugi aft­ur í tím­ann en fleira má nefna sem veld­ur áhyggj­um

1. For­send­ur áætl­un­ar­inn­ar eru mjög brot­hætt­ar og mjög bjart­sýn­ar. Dregn­ar eru fram tvær sviðsmynd­ir; bjart­sýn og svart­sýn. Vand­inn er að þær eru báðar bjart­sýn­ar. Fjár­málaráð bend­ir á þetta og bend­ir á að sú svart­sýna sé mun lík­legri og því beri stjórn­völd­um að hafa vaðið fyr­ir neðan sig í ljósi grunn­gilda um stöðug­leika og var­færni.

2. Tekju­áætlun rík­is­sjóðs hækk­ar tals­vert frá fyrri áætl­un án þess að „hækka álög­ur á ein­stak­linga eða draga úr verðmæta­sköp­un“. Þetta er auðvitað inn­an­tómt hjal og al­veg ljóst að hækka á skatta á fólki og fyr­ir­tæki en skatta­hækk­an­ir heita núna „leiðrétt­ing­ar“ og „fækk­un íviln­andi úrræða“. Nýyrði rík­is­stjórn­ar­inn­ar breyta því ekki að fólk og fyr­ir­tæki þurfa að borga meira í rík­iskass­ann.

3. Útgjöld aukast frá fyrri áætl­un. Af­gang­ur af rekstri hlýst ein­ung­is af bjart­sýnni tekju­áætlun.

4. Viðsnún­ing­ur­inn frá fyrri áætl­un er 11 ma. króna af 1500 ma. veltu.

5. Aðhald minnk­ar í nýrri áætl­un.

6. Skuld­ir munu ein­ung­is lækka ef hag­vöxt­ur eykst veru­lega. Fjár­málaráð bend­ir á hið aug­ljósa að það væri var­færn­is­legra og trú­verðugra að miða að lækk­un út­gjalda til að ná fram skulda­lækk­un.

7. Í áætl­un­inni eru ein­ung­is 80% rík­is­út­gjalda met­in og gert ráð fyr­ir 2% raun­aukn­ingu út­gjalda á hverju ári. Ef halda sig á við þá miklu aukn­ingu væri rétt að miða við 1,6% aukn­ingu vegna þess að 20% rík­is­út­gjalda eru ekki inni í áætl­un­inni.

8. Áætluð hagræðing verður nýtt í önn­ur út­gjöld en ekki til skulda­lækk­un­ar. Öllu sem hugs­an­lega spar­ast verður eytt í önn­ur út­gjöld.

9. Fjár­málaráð ger­ir ráð fyr­ir að mark­mið um skuldaviðmið ná­ist í fyrsta lagi 2037. Með öðrum orðum; þessi rík­is­stjórn ætl­ar ekki að ná því. Fjár­málaráð bend­ir á að for­send­ur eru mjög bjart­sýn­ar og ekki megi mikið út af bregða þannig að mark­miðið ná­ist ekki fyrr en 2042 eða jafn­vel 2072.

10. Boðaðar eru grund­vall­ar­breyt­ing­ar á al­manna­trygg­inga­kerf­inu sem eiga sér enga hliðstæðu í heim­in­um svo vitað sé. Það þýðir að bæt­ur munu halda í við launa­vísi­tölu nema ef laun eru lægri en verðlag. Þá hækka bæt­ur í takt við verðlag. Fjár­lagaráð bend­ir á að ekk­ert mat hef­ur verið lagt á af­leiðing­ar af svo stórri breyt­ingu en aug­ljóst er að fram koma nei­kvæðir hvat­ar.

11. Fara á í stór­ar tekju­afl­an­ir án þess að greina af­leiðing­arn­ar. Skatt­leggja á alla „ferðamenn“, inn­lenda sem út­lenda, og nýta fjár­mun­ina til að byggja upp innviði. Slíkt fyr­ir­komu­lag hef­ur aldrei gengið eft­ir og er Of­an­flóðasjóður lif­andi dæmi um það, en ríkið skuld­ar sjóðnum 17 millj­arða. Að auki hef­ur það skilað mikl­um ár­angri að útheimta þjón­ustu­gjöld fyr­ir bíla­stæði og sal­ern­is­gjöld á und­an­förn­um árum. Það er að láta þá sem nota borga. Þannig að hér er aug­ljós­lega um hreina skatt­heimtu að ræða.

12. Fjár­málaráð bend­ir á að auk­in skatt­heimta á sjáv­ar­út­veg­inn kalli á svör við ýms­um spurn­ing­um og þar skorti gagn­sæi. „Boðaðar breyt­ing­ar munu hafa áhrif á ólíka út­gerðarflokka með ólík­um hætti. Með boðuðum mót­vægisaðgerðum er sum­um út­gerðarflokk­um gert hærra und­ir höfði en öðrum. Slíkt vek­ur upp spurn­ing­ar hvort áformaður breyt­ing­ar séu hugsaðar til þess að há­marka þjóðhags­leg­an afrakst­ur af nýt­ingu sjáv­ar­auðlind­anna eða hvort einnig sé verið að líta til annarra þátta, s.s. byggðasjón­ar­miða eða annarra póli­tískra áherslna.“

Það fer ekki sam­an hljóð og mynd þegar kem­ur að verk­um rík­is­stjórn­ar, Sam­fylk­ing­ar, Viðreisn­ar og Flokks fólks­ins. Það er því mik­il­vægt að veita stjórn­inni mikið aðhald. Spor­in hræða og þau eru ný­byrjuð að ganga.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. maí 2025.