Með verðmætasköpun skal land byggja

11. maí 2025

'}}

Ingveldur Anna Sigurðardóttir varaþingmaður:

Með lög­um skal land byggja en með ólög­um eyða sagði Njáll á Bergþórs­hvoli. Orð að sönnu – og eiga við enn þann dag í dag. Þing­menn sem sitja á Alþingi, með lög­gjaf­ar­valdið að vopni, eiga að sjá til þess að lög sem samþykkt eru stuðli að byggð í land­inu, skapi ný störf og stuðli að verðmæta­sköp­un um allt land.

Verðmæt­in verða ekki til af sjálfu sér. Reglu­verkið má ekki kæfa hug­mynd­ina né koma í veg fyr­ir að verðmæt­in sem hún skap­ar selj­ist. Til þess er mik­il­vægt að sam­spil rík­is­ins og ein­stak­lings­fram­taks­ins sé í góðu jafn­vægi. Ríkið á ekki að vera fyr­ir, t.d. með íþyngj­andi eft­ir­liti, og á ekki að leggja á of háa skatta.

Frum­skóg­ur reglu­verks­ins

Reglu­verkið á Íslandi er nú þegar yf­ir­gengi­legt á marga vegu. Fyr­ir­tæk­in, fólkið í land­inu og jafn­vel dýr­in þurfa að vera í stöðugri aðlög­un að breytt­um regl­um. Breyt­ing­ar sem oft­ar en ekki snúa að því að gera reglu­verkið meira íþyngj­andi en ella. Ein­stak­ling­ar veigra sér í aukn­um mæli við að vera sjálf­stætt starf­andi, stofna fyr­ir­tæki eða ger­ast frum­kvöðlar. Það ætti að vera rík­is­stjórn­inni for­gangs­mál að grisja í frum­skógi reglu­verks­ins og hleypa súr­efni í at­vinnu­lífið. Þannig munu fleiri greiða meiri skatta til rík­is­ins enda verða til fleiri, fjöl­breytt­ari og verðmæt­ari störf.

Skatta­hækk­an­ir

Umræðan í kring­um skatta­hækk­an­ir er oft og tíðum sorg­leg. At­vinnu­grein­ar sem geng­ur vel og hafa byggt upp landið, eins og sjáv­ar­út­veg­ur og ferðaþjón­ust­an, sitja und­ir stöðugum hót­un­um frá rík­is­stjórn­inni um aukn­ar álög­ur, skatta og gjöld. Af því að þær hafa, að mati stjórn­ar­liða, ein­fald­lega efni á því að leggja meira til. En hversu langt er hægt að ganga í þeim efn­um? Hver eru þol­mörk­in? Er mark­miðið ein­ung­is að slá sig til skatt­aridd­ara en skeyta engu um áhrif auk­inn­ar skatt­heimtu á verðmæta­sköp­un í land­inu? Það er staðreynd að skatta­veg­ferðin mun bitna á fjár­fest­ingu, ný­sköp­un, störf­um og frek­ari framþróun ís­lenskra at­vinnu­greina.

Ríkið best til þess fallið að deila gæðunum

Í stefnu­yf­ir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar­inn­ar seg­ir að nú standi til að rjúfa kyrr­stöðuna og vinna að auk­inni verðmæta­sköp­un í at­vinnu­líf­inu. Ekki verður séð að ráðherr­ar hafið unnið öt­ul­lega í átt að þessu mark­miði. Und­ir­rituð sér þess raun­ar eng­in merki. Eina sem komið hef­ur á dag­skrá þings­ins eru hin ýmsu laga­frum­vörp sem fela í sér aukna reglu­setn­ingu, íþyngj­andi skil­yrði og hærri álög­ur. Öflugt at­vinnu­líf er for­senda þess að fólk geti búið um land allt, látið hug­mynd­ir sín­ar verða að veru­leika og þar með skapað störf og verðmæti hring­inn í kring­um landið.

Það er ábyrgðar­hluti að sitja á Alþingi og vera í for­svari fyr­ir þá veg­ferð sem Ísland er á, veg­ferð sem nú felst í því að skatt­leggja og reglu­setja – og þá helst upp í rjáf­ur. Nú­ver­andi rík­is­stjórn tel­ur sig best til þess fallna að deila gæðunum og lýs­ir yfir van­trausti á at­vinnu­rek­end­ur, vinn­andi fólk og íbúa í land­inu.

Orð Njáls eiga því enn þann dag við í dag: „Með lög­um skal land byggja en með ólög­um eyða.“

Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. maí 2025.