Ingveldur Anna Sigurðardóttir varaþingmaður:
Með lögum skal land byggja en með ólögum eyða sagði Njáll á Bergþórshvoli. Orð að sönnu – og eiga við enn þann dag í dag. Þingmenn sem sitja á Alþingi, með löggjafarvaldið að vopni, eiga að sjá til þess að lög sem samþykkt eru stuðli að byggð í landinu, skapi ný störf og stuðli að verðmætasköpun um allt land.
Verðmætin verða ekki til af sjálfu sér. Regluverkið má ekki kæfa hugmyndina né koma í veg fyrir að verðmætin sem hún skapar seljist. Til þess er mikilvægt að samspil ríkisins og einstaklingsframtaksins sé í góðu jafnvægi. Ríkið á ekki að vera fyrir, t.d. með íþyngjandi eftirliti, og á ekki að leggja á of háa skatta.
Frumskógur regluverksins
Regluverkið á Íslandi er nú þegar yfirgengilegt á marga vegu. Fyrirtækin, fólkið í landinu og jafnvel dýrin þurfa að vera í stöðugri aðlögun að breyttum reglum. Breytingar sem oftar en ekki snúa að því að gera regluverkið meira íþyngjandi en ella. Einstaklingar veigra sér í auknum mæli við að vera sjálfstætt starfandi, stofna fyrirtæki eða gerast frumkvöðlar. Það ætti að vera ríkisstjórninni forgangsmál að grisja í frumskógi regluverksins og hleypa súrefni í atvinnulífið. Þannig munu fleiri greiða meiri skatta til ríkisins enda verða til fleiri, fjölbreyttari og verðmætari störf.
Skattahækkanir
Umræðan í kringum skattahækkanir er oft og tíðum sorgleg. Atvinnugreinar sem gengur vel og hafa byggt upp landið, eins og sjávarútvegur og ferðaþjónustan, sitja undir stöðugum hótunum frá ríkisstjórninni um auknar álögur, skatta og gjöld. Af því að þær hafa, að mati stjórnarliða, einfaldlega efni á því að leggja meira til. En hversu langt er hægt að ganga í þeim efnum? Hver eru þolmörkin? Er markmiðið einungis að slá sig til skattariddara en skeyta engu um áhrif aukinnar skattheimtu á verðmætasköpun í landinu? Það er staðreynd að skattavegferðin mun bitna á fjárfestingu, nýsköpun, störfum og frekari framþróun íslenskra atvinnugreina.
Ríkið best til þess fallið að deila gæðunum
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að nú standi til að rjúfa kyrrstöðuna og vinna að aukinni verðmætasköpun í atvinnulífinu. Ekki verður séð að ráðherrar hafið unnið ötullega í átt að þessu markmiði. Undirrituð sér þess raunar engin merki. Eina sem komið hefur á dagskrá þingsins eru hin ýmsu lagafrumvörp sem fela í sér aukna reglusetningu, íþyngjandi skilyrði og hærri álögur. Öflugt atvinnulíf er forsenda þess að fólk geti búið um land allt, látið hugmyndir sínar verða að veruleika og þar með skapað störf og verðmæti hringinn í kringum landið.
Það er ábyrgðarhluti að sitja á Alþingi og vera í forsvari fyrir þá vegferð sem Ísland er á, vegferð sem nú felst í því að skattleggja og reglusetja – og þá helst upp í rjáfur. Núverandi ríkisstjórn telur sig best til þess fallna að deila gæðunum og lýsir yfir vantrausti á atvinnurekendur, vinnandi fólk og íbúa í landinu.
Orð Njáls eiga því enn þann dag við í dag: „Með lögum skal land byggja en með ólögum eyða.“
Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. maí 2025.