Friðjón R. Friðjónsson borgarfulltrúi:
Það er full ástæða til að staldra við þegar helminga á að götu sem um 25 þúsund bílar aka daglega um. Það er þó einmitt það sem stefnir í samkvæmt skipulagi fyrir Borgarlínu á kaflanum frá Kringlumýrarbraut að Skeifu. Samkvæmt talningum Reykjavíkurborgar síðustu ár aka þar samtals 22 til 27 þúsund bílar daglega. Þó að við getum flest verið sammála um að bæta þurfi almenningssamgöngur þarf skynsemi að ráða för í skipulags- og samgöngumálum borgarinnar.
Í upphafi árs gafst almenningi kostur á að skila inn athugasemdum til Skipulagsstofnunar vegna fyrstu lotu Borgarlínu í skjali sem nefnist Rammahluti Aðalskipulags Reykjavíkur 2040, Borgarlínan. Þá mótmæltu fjölmörg fyrirtæki við Suðurlandsbraut og Lágmúla og fólk lýsti áhyggjum vegna áforma Reykjavíkurborgar við skipulag götunnar vegna Borgarlínu. Nokkur atriði ber þar hæst.
Stórfækkun bílastæða
Ekki verður annað séð af teikningum og þversniðum en að bílastæðum við fyrirtækin við Suðurlandsbraut verði fækkað verulega. Myndræn framsetning skipulagsyfirvalda sýnir að öll stæði sem eru í borgarlandi verða tekin og það rými sem verður eftir neyðir fyrirtækin til að helminga þau bílastæði sem eftir eru. Því má áætla að allt að 70% allra bílastæða við fyrirtækin við Suðurlandsbraut hverfi á braut ef myndræn framsetning er rétt og stendur óbreytt. Það yrði verulegt högg fyrir fyrirtækin sem hafa byggt upp starfsemi sína við götuna. Högg sem Reykjavíkurborg hefur hvorki efni á né rétt til að veita sjálfri sér.
Vinstri beygja og skert aðgengi
Þá hefur miðjusetning og afmörkun Borgarlínu í för með sér að vinstri beygja á leið vestur um Suðurlandsbraut verður ómöguleg, vandséð er hvernig þeir sem koma akandi í vesturátt eigi að geta nálgast fyrirtæki við götuna. Það skýrist vonandi þegar nánara deiliskipulag Borgarlínu á svæðinu verður auglýst. En það er ljóst að það verður að leysa áður en lengra er haldið.
Umferð inn í íbúðarhverfi
Loks veldur það miklum áhyggjum þegar umferðaræð sem annar 25 þúsund bílum á dag þrengist þannig að hún afkastar helmingi færri ökutækjum. Þessi ökutæki hverfa ekki, Borgarlínan gleypir ekki alla bílana, henni er ekki ætlað það hlutverk. Hættast er við að umferð leiti inn í hverfin. Að umferð aukist um Háaleitisbraut, Langholtsveg, Laugarásveg, þræði Skeifuna og Múlana. Að bílarnir kvíslist um háræðar gatnakerfisins þvert á vilja íbúa og þvert á stefnumörkun borgaryfirvalda. Þetta blasir svo við að sorglegt er að sjá að fólk stefnir á þessa niðurstöðu með opnum augum.
Borgarlína sem leið, ekki markmið
Sjálfstæðisflokkurinn styður átak í almenningssamgöngum, það er fyrir löngu ljóst að bæta þarf strætó og fjölga sérakreinum. En bótin sem við nefnum nú Borgarlínu má ekki fara sömu leið og þéttingarstefna borgaryfirvalda sem fékk þann dóm í vikunni hjá verkalýðsforkólfi láglaunafólks að vera „snarruglaða þéttingar-dogma“. Borgarlínan er þannig ekki markmið í sjálfu sér, hún er leið til að bæta almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. En það má ekki vera á kostnað fólks og fyrirtækja í borginni.
Enn á eftir að kynna tillögur að breytingum á deiliskipulagi fyrir Borgarlínu um Suðurlandsbraut, en það verður eitt stærsta prófið sem skipulagsyfirvöld standa frammi fyrir varðandi Borgarlínuverkefnið. Á að nálgast verkefnið af sanntrúaðri þrákelkni eða af sanngirni og raunsæi, í samtali við íbúa og fyrirtæki?
Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. maí 2025.