Borgarlína um Suðurlandsbraut

11. maí 2025

'}}

Friðjón R. Friðjónsson borgarfulltrúi:

Það er full ástæða til að staldra við þegar helm­inga á að götu sem um 25 þúsund bíl­ar aka dag­lega um. Það er þó ein­mitt það sem stefn­ir í sam­kvæmt skipu­lagi fyr­ir Borg­ar­línu á kafl­an­um frá Kringlu­mýr­ar­braut að Skeifu. Sam­kvæmt taln­ing­um Reykja­vík­ur­borg­ar síðustu ár aka þar sam­tals 22 til 27 þúsund bíl­ar dag­lega. Þó að við get­um flest verið sam­mála um að bæta þurfi al­menn­ings­sam­göng­ur þarf skyn­semi að ráða för í skipu­lags- og sam­göngu­mál­um borg­ar­inn­ar.

Í upp­hafi árs gafst al­menn­ingi kost­ur á að skila inn at­huga­semd­um til Skipu­lags­stofn­un­ar vegna fyrstu lotu Borg­ar­línu í skjali sem nefn­ist Ramma­hluti Aðal­skipu­lags Reykja­vík­ur 2040, Borg­ar­lín­an. Þá mót­mæltu fjöl­mörg fyr­ir­tæki við Suður­lands­braut og Lág­múla og fólk lýsti áhyggj­um vegna áforma Reykja­vík­ur­borg­ar við skipu­lag göt­unn­ar vegna Borg­ar­línu. Nokk­ur atriði ber þar hæst.

Stór­fækk­un bíla­stæða

Ekki verður annað séð af teikn­ing­um og þversniðum en að bíla­stæðum við fyr­ir­tæk­in við Suður­lands­braut verði fækkað veru­lega. Mynd­ræn fram­setn­ing skipu­lags­yf­ir­valda sýn­ir að öll stæði sem eru í borg­ar­landi verða tek­in og það rými sem verður eft­ir neyðir fyr­ir­tæk­in til að helm­inga þau bíla­stæði sem eft­ir eru. Því má áætla að allt að 70% allra bíla­stæða við fyr­ir­tæk­in við Suður­lands­braut hverfi á braut ef mynd­ræn fram­setn­ing er rétt og stend­ur óbreytt. Það yrði veru­legt högg fyr­ir fyr­ir­tæk­in sem hafa byggt upp starf­semi sína við göt­una. Högg sem Reykja­vík­ur­borg hef­ur hvorki efni á né rétt til að veita sjálfri sér.

Vinstri beygja og skert aðgengi

Þá hef­ur miðju­setn­ing og af­mörk­un Borg­ar­línu í för með sér að vinstri beygja á leið vest­ur um Suður­lands­braut verður ómögu­leg, vand­séð er hvernig þeir sem koma ak­andi í vesturátt eigi að geta nálg­ast fyr­ir­tæki við göt­una. Það skýrist von­andi þegar nán­ara deili­skipu­lag Borg­ar­línu á svæðinu verður aug­lýst. En það er ljóst að það verður að leysa áður en lengra er haldið.

Um­ferð inn í íbúðar­hverfi

Loks veld­ur það mikl­um áhyggj­um þegar um­ferðaræð sem ann­ar 25 þúsund bíl­um á dag þreng­ist þannig að hún af­kast­ar helm­ingi færri öku­tækj­um. Þessi öku­tæki hverfa ekki, Borg­ar­lín­an gleyp­ir ekki alla bíl­ana, henni er ekki ætlað það hlut­verk. Hætt­ast er við að um­ferð leiti inn í hverf­in. Að um­ferð auk­ist um Háa­leit­is­braut, Lang­holts­veg, Laug­ar­ás­veg, þræði Skeif­una og Múl­ana. Að bíl­arn­ir kvísl­ist um háræðar gatna­kerf­is­ins þvert á vilja íbúa og þvert á stefnu­mörk­un borg­ar­yf­ir­valda. Þetta blas­ir svo við að sorg­legt er að sjá að fólk stefn­ir á þessa niður­stöðu með opn­um aug­um.

Borg­ar­lína sem leið, ekki mark­mið

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn styður átak í al­menn­ings­sam­göng­um, það er fyr­ir löngu ljóst að bæta þarf strætó og fjölga sérak­rein­um. En bót­in sem við nefn­um nú Borg­ar­línu má ekki fara sömu leið og þétt­ing­ar­stefna borg­ar­yf­ir­valda sem fékk þann dóm í vik­unni hjá verka­lýðsforkólfi lág­launa­fólks að vera „snarruglaða þétt­ing­ar-dogma“. Borg­ar­lín­an er þannig ekki mark­mið í sjálfu sér, hún er leið til að bæta al­menn­ings­sam­göng­ur á höfuðborg­ar­svæðinu. En það má ekki vera á kostnað fólks og fyr­ir­tækja í borg­inni.

Enn á eft­ir að kynna til­lög­ur að breyt­ing­um á deili­skipu­lagi fyr­ir Borg­ar­línu um Suður­lands­braut, en það verður eitt stærsta prófið sem skipu­lags­yf­ir­völd standa frammi fyr­ir varðandi Borg­ar­línu­verk­efnið. Á að nálg­ast verk­efnið af sann­trúaðri þrákelkni eða af sann­girni og raun­sæi, í sam­tali við íbúa og fyr­ir­tæki?

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. maí 2025.