Aðalfundur Samtaka eldri sjálfstæðismanna fór fram föstudaginn 11. apríl sl. í Valhöll. Á fundinum var kosin stjórn og fulltrúar í flokksráð Sjálfstæðiflokksins. Þá sendi fundurinn frá sér ályktun sem finna neðar í fréttinni.
Stjórn samtakanna er óbreytt frá síðasta ári. Formaður er Bessí Jóhannsdóttir. Varaformaður er Ingibjörg H. Sverrisdóttir. Aðrir stjórnarmenn eru; Drífa Hjartardóttir, Hafsteinn Valsson, Guðjón Guðmundsson, Finnbogi Björnsson, Guðmundur Hallvarðsson og Leifur A. Ísaksson.
Aðalfundur SES 2025 sendi frá sér ályktun. Í henni segir að skerðing vegna greiðslna frá Tryggingastofnun til eldriborgara sem í dag er 45% beri að lækka. Aðalfundurinn ályktar að draga þurfi úr skerðingu ellilífeyris vegna lífeyristekna og annarra tekna hvaðan sem þær koma. Sama eigi að gilda um lífeyrisgreiðslur sem ekki hafi fylgt hækkun launavísitölu. Þá segir í ályktuninni að allir sem fari á hjúkrunarheimili eigi að greiða sömu upphæð fyrir dvölina. Virða beri jafnræðisreglu Stjórnarskrár Íslands í þeim efnum.
Aðalfundur SES ályktar að mikilvægt sé að virða og efla séreignastefnuna, sem sé einn af hornsteinum sjálfstæðisstefnunnar. Þá vill fundurinn að stefnt sé að því að persónuafsláttur hækki við 67 ára aldur og aftur við 75 ára aldur. Þá beri að leggja niður erfðafjárskatt, enda sé þar um tvísköttun að ræða.
Aðalfundurinn gerir kröfu um að tvísköttun vegna áunnins lífeyris frá lífeyrissjóðum fram til 1989 verði strax hætt og að ríki eigi að endurgreiða of tekna skatta. Fundurinn lýsir yfir stuðningi við framkomna þingsályktunartillögu um sama efni.
Samtök eldri sjálfstæðismanna telja mikilvægt að horfa til fjölbreytni í uppbyggingu hjúkrunarheimila. Þar skuli sérstaklega haft í huga skipulag deilda fyrir heilabilaða þannig að mannréttindi þeirra séu virt. Endurhæfingu og tómstundum verði markaður rammi í starfseminni og íbúar eiga að geta verið virkir og átt góð samskipti. Fundurinn ályktar jafnframt að auka þurfi skilvirkni og samþættingu heimahjúkrunar, félagslegrar tómstundaiðju, heilsutengdra forvarna, sálgæslu og annars sem aukið geti félagslega virkni þeirra sem kjósa að halda heimili.
Þá ályktar aðalfundur SES að starfslok verði sveigjanleg og fólki gert kleift að halda fullu starfi eða hlutastarfi miðað við áhuga og færni, þannig að starfslok verði valkvæð.