Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins:
Árstími hinna stöku frídaga er runninn upp. Í dag fögnum við sumri, fyrsta maí ber upp á fimmtudag í næstu viku, og uppstigningardagur verður síðan fimmtudaginn 29. maí.
Eftir alla áðurnefnda frídaga kemur föstudagur, sem kalla má klemmudag þar sem hann er virkur vinnudagur á milli frídags og helgar.
Víða erlendis, til dæmis í Bretlandi og Bandaríkjunum, hafa slíkir frídagar verið færðir að helgum og þannig skapaðar þriggja daga fríhelgar. Fyrir launafólk verður þannig meira úr fríinu, starfsánægjan eykst og afköstin aukast. Þar sem slíkt fyrirkomulag hefur verið gert erlendis, dettur engum í hug að hverfa til gamla fyrirkomulagsins með því að gera frídagana staka á ný.
Stakir frídagar slíta vinnuvikuna í sundur og valda þannig margvíslegu óhagræði. Á mörgum vinnustöðum er starfið skipulagt í fimm daga lotum. Það dregur því úr framleiðni þegar lotan er slitin í sundur vegna staks frídags á fimmtudegi. Oft tekur því varla að hefja nýja lotu á föstudegi eftir stakan frídag og getur þá lítið orðið úr verki. Samtök atvinnurekenda hafa lengi verið hlynnt því að stakir frídagar verði færðir að helgum. Fækkun klemmudaga myndi þannig stuðla að aukinni framleiðni og verðmætasköpunar, sem eflir allra hag.
Fjölgum frídögum verkalýðsins
Ólíkt fimmtudagsfrídögunum færist fyrsti maí á milli vikudaga þannig að almennt launafólk fær ekki frí þegar hann lendir á helgi. Nú lendir fyrsti maí á fimmtudegi, á næsta ári verður hann á föstudegi og skapar þannig kærkomna þriggja daga helgi. Árin 2027 og 2028 fellur 1. maí hins vegar á helgi þegar almennt launafólk er hvort eð er í fríi.
Það væri snjallræði að fjölga frídögum verkalýðsins með því að færa fríið vegna 1. maí að helgi og festa hann þar. Hann fengi þá sama sess og frídagur verzlunarmanna fyrsta mánudag í ágúst, sem er einn vinsælasti frídagur landsmanna. Með slíkri breytingu fjölgaði frídögum verkalýðsins um tvo á hverju sjö daga tímabili eða um 40%. Það munar um minna á tímum þegar beinar krónutöluhækkanir eru harðsóttar vegna baráttunnar við verðbólguna.
Fjölgun þriggja daga helga gerði launafólki kleift að gera meira úr fríinu en ella. Margir myndu nota tækifærið til að ferðast en aðrir verja tímanum heima við með fjölskyldu og vinum.
Séríslenskt tregðulögmál?
Erfitt er að skilja af hverju aðilar vinnumarkaðarins hafa ekki fyrir löngu samið um slíka kjarabót. Vera má að hið séríslenska tregðulögmál sé þar að verki.
Allir þekkja hvað hvítasunnuhelgin og verslunarmannahelgin eru vinsælar vegna þess að þá er þriggja daga frí frá brauðstritinu. Með tilflutningi fleiri frídaga yrði þessum þriggja daga helgum fjölgað, sem myndi auka gildi viðkomandi hátíða.
Í staðinn fyrir stakan frídag sumardaginn fyrsta, fengjum við þriggja daga sumarkomuhelgi. Í staðinn fyrir stakan frídag fyrsta maí (og ekki þegar hann fellur á helgi), fengjum við þriggja daga verkalýðshelgi. Og í staðinn fyrir frí á uppstigningardag, fengjum við uppstigningarhelgi. Með langri helgi myndu skapast tækifæri til að glæða viðkomandi hátíðarhöld meira lífi en nú er og auka þannig þátttöku almennings í þeim.
Þessi góða hugmynd hefur oft verið rædd á Alþingi og í borgarstjórn, oftast við ágætar undirtektir og fáir hafa mælt gegn henni. En það þarf að taka af skarið. Slík breyting verður varla gerð nema í tengslum við kjarasamninga og væntanlega þyrfti einnig lagabreytingu til. Hér er því kærkomið tækifæri fyrir Alþingi, ríkisstjórn og aðila vinnumarkaðarins til að sýna að þau geta tekið höndum saman og komið slíku þjóðþrifamáli í framkvæmd.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. apríl 2024.