2. maí 2025

Á þriðja hundrað manns í vöfflukaffi Verkalýðsráðs

Vel á þriðja hundrað manns mættu í árlegt vöfflukaffi Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins í gær, 1. maí. Kjörnir fulltrúar, stóðu vaktina við vöfflujárnin og sáu til þess að allir fengju volga vöfflu með sultu og rjóma. Sérstakur gestur og ræðumaður var Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins.

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur ávallt lagt áherslu á það sem við köllum stétt með stétt. Að fólk úr ólíkum hópum vinni saman að sameiginlegum markmiðum, á grundvelli virðingar, jafnra tækifæra og gagnkvæmrar ábyrðar. Að réttindi launafólks til sanngjarna launa, öruggs og heilbrigðs starfsumhverfis séu ekki andstaða við atvinnufrelsi og frumkvæði. Þvert á móti er það svo, að þegar þessi atriði öll haldast í hendur, verða til öflug fyrirtæki og heilbrigt samfélag þar sem allir geti notið árangursins. Hagsmunir launafólks og atvinnurekenda eru þeir sömu, því gangi atvinnulífinu vel, þá endurspeglast það í kjörum almennings. Á milli atvinnulífs og launafólks verði því að liggja þráður sem byggður er á trausti og virðingu. Takist það, þá gengur öllum betur," sagði hún.

Verkalýðsráð Sjálfstæðisflokksins þakkar öllum þeim sem litu við og áttu með okkur góða og gefandi stund.