Hildur Sverrisdóttir formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Seinni hálfleikur yfirstandandi þings hefst í dag. Óhætt er að segja að sá fyrri beri ekki með sér góð fyrirheit.
Forystufólk ríkisstjórnar virðist gefa lítið fyrir hlutverk Alþingis í lýðræðissamfélagi og jafnvel líta á aðkomu Alþingis um fyrirhugaðar lagabreytingar sem formsatriði. Þingsköp, hefðir og venjur eru lítilsvirtar. Lítið er um upplýsingagjöf, ítarefni eða samráð. Nóg er þó af blaðamannafundum og tilkynningum, svo mikið liggur á að láta verkin tala.
Þessu sama forystufólki verður tíðrætt um fjölda stjórnarmála sem lögð hafa verið fram á Alþingi. Eins og í svo mörgu öðru verður árangur þó seint metinn í magni heldur gæðum. Nokkur stjórnarmála eru þó ágæt og þá sérstaklega þau er snúa að orkumálum og málefnum útlendinga. Ríkisstjórnin hefur þar enda notið góðs af góðu búi fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins í þeim málaflokkum þar sem þau mál lágu þegar fyrir.
Gott bú finna stjórnarliðar víðar. Ný fjármálaáætlun ber með sér að fjárhagur ríkissjóðs er betri en vonir stóðu til – svo mjög að nú næst afgangur af rekstri ári fyrr en til stóð. Þrátt fyrir auknar tekjur er boðaður afgangur lítill enda tekjum veitt í ný verkefni ríkisstjórnarinnar. Ekkert má því út af bregða svo afgangurinn snúist í halla á ný. Það sem hjálpar ekki er að ógagnsæi undir yfirskini nýs verklags hylmir yfir hvernig ráðstafa eigi fjármunum innan málefnasviða og því hvernig ríkisstjórnin hyggist ná markmiðum sínum. Jafnvel fjármálaráð treysti sér ekki til að sinna lögbundnu eftirlitshlutverki sínu vegna þessa – ekki frekar en stjórnarandstaðan sem þó mátti þola mikla gagnrýni stjórnarliða fyrir að benda á þá staðreynd.
Viðvörunarljós blikka því í hálfleik. Hugarfarið virðist gerræðislegt og virðing fyrir ólíkum sjónarmiðum sáralítil. Það á að tvöfalda veiðigjald án þess að ráðast í nauðsynlegar greiningar á áhrifum á sjávarbyggðirnar og hina gríðarlegu afleiddu verðmætasköpun.
Einnig á að afnema samnýtingu skattþrepa hjá hjónum og sambúðarfólki. Ríkisstjórnin, sem lofaði alls engum skattahækkunum á venjulegt fólk, hefur því strax boðað skattahækkun á venjulegt fólk með beinum og óbeinum hætti. Á meðan virðist ríkisstjórnin ætla að drepa á dreif staðreyndum um hrun í hefðbundinni menntun barna, leggja áherslu á aðildarviðræður við ESB umfram varnarmál og mæta með skætingi áhöldum um trúnaðarbrest úr forsætisráðuneytinu.
Sama hvað tautar og raular í herbúðum stjórnarliða þá verður það skýrara með hverjum degi að þessi ríkisstjórn þarf bráðnauðsynlega á aðhaldi að halda. Í seinni hálfleik verður afar mikilvægt að mál ríkisstjórnarinnar fái vandaða þinglega meðferð, og þar með stjórnarandstöðu, frekar en að einblínt sé á að haka hroðvirknislega í box í nafni meintrar verkstjórnar.
Morgunblaðið, 28. apríl. 2025.

