Takmarkið er tollalaust Ísland

23. apríl 2025

'}}

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins:

Íslendingar eiga að leggja áherslu á frjáls viðskipti við allar þjóðir. Ástæða er til að halda áfram að afnema tolla á Íslandi eða a.m.k. lækka þá.

Full ástæða er til að hafa áhyggjur af yfirvofandi tollastríði Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og hugsanlegum áhrifum þess á alþjóðaviðskipti og lífskjör víða um heim. Standi Trump við stórkarlalegar yfirlýsingar sínar, er ekki útilokað að slíkt tollastríð gæti leitt til heimskreppu.

Tollur er skattur, sem innheimtur er við innflutning á vöru. Tollar eru oft lagðir á til að vernda innlenda framleiðslu en þeir eru einnig tekjuöflunarleið fyrir viðkomandi ríkissjóð.

Úreltur merkantílismi

Hugmyndafræði Trumps á rætur að rekja til svonefndrar kaupauðgisstefnu (merkantílisma), sem var ríkjandi í Evrópu á 16. – 18. öld. Samkvæmt stefnunni áttu ríki að ná sem hagstæðustum viðskiptajöfnuði í utanríkisviðskiptum. Því átti að selja sem mest af vöru til erlendra ríkja en flytja sem minnst inn. Innflutningur var því takmarkaður með innflutningshöftum og verndartollum en þóknanlegur útflutningur efldur með styrkjum og fyrirgreiðslu.

Skoski hagfræðingurinn Adam Smith gagnrýndi kaupauðgisstefnuna í tímamótaritinu Auðlegð þjóðanna árið 1776. Hann færði rök fyrir því að milliríkjaviðskipti ættu að vera frjáls enda hefðu þau í för með sér víðtæka verkaskiptingu milli þjóða, sem væri öllum til hagsbóta. Tollar hefðu hamlandi áhrif á milliríkjaviðskipti og ynnu gegn því að vörur yrðu framleiddar þar sem það væri hagkvæmast.

Hugmyndir Smiths breiddust smám saman út og á nítjándu öld færði Jón Sigurðsson forseti sömu rök fyrir frjálsri verslun og verkaskiptingu í þágu Íslendinga. Þessi sjónarmið urðu viðurkennd meðal vestrænna hagfræðinga og það hefur lengi verið viðtekin skoðun að tollar hækki kostnað og dragi úr velferð. Frjáls milliríkjaviðskipti eru afar mikilvæg fyrir smáþjóð eins og Íslendinga, enda eigum við mun meira undir slíkum viðskiptum en stórþjóðir.

Góð reynsla Íslendinga

Um miðja síðustu öld voru tollar helsta tekjuöflunarleið íslenska ríkisins. Síðan hafa þeir lækkað mjög, ekki síst vegna aðildar Íslendinga að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, Fríverslunarsamtökum Evrópu og Evrópska efnahagssvæðinu, auk margra fríverslunarsamninga við einstök ríki. Árið 2014 námu tollar og önnur aðflutningsgjöld um 1% af heildarskatttekjum íslenska ríkisins. Árið 2025 er áætlað að þau skili um 6,4 milljörðum króna eða minna en hálfu prósenti af heildarskatttekjum.

Íslendingar hafa góða reynslu af tollalækkunum. Lágir tollar og greiðleg milliríkjaviðskipti eiga stóran þátt í góðum lífskjörum þjóðarinnar.

Að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins voru almenn vörugjöld afnumin 2015 og á árunum 2016-2017 voru allir tollar afnumdir að undanskyldum tollum á búvörur.

Afnám umræddra gjalda bætti lífskjör þar sem margar vörur lækkuðu í verði: skór, húsbúnaður, byggingarvörur, íþróttavörur, snyrtivörur og heimilistæki svo eitthvað sé nefnt.

Vinstri verndartollar

Tollur eru í raun óskilvirkur og kostnaðarsamur skattur, sem leggst þyngst á neytendur innflutningslandsins. Innleiðing fyrirhugaðra ofurtolla í Bandaríkjunum byggist á vinstri villu, sem mun hafa skattahækkanir í för með sér, standi Trump við stóru orðin. Framboð mun þá dragast saman og vörur hækka í verði. Til lengri tíma getur slík þróun leitt til minnkandi vöruframboðs, skertrar samkeppnisstöðu og versnandi lífskjara.

Viðbrögð Íslendinga

Við Íslendingar eigum ekki að bregðast við uggvænlegri þróun í heimsviðskiptum með refsitollum heldur með því að leggja enn frekari áherslu á frjáls viðskipti við sem flestar þjóðir. Í tollastríði er enginn sigurvegari og allra síst þær þjóðir, sem eru svo ógæfusamar að búa við ofurtolla.

Íslendingar borga enn háa tolla af innfluttum matvælum Ef tollar væru afnumdir eða a.m.k. lækkaðir, myndi það lækka matarverð verulega og bæta lífskjör þjóðarinnar. Samkvæmt nýlegri úttekt Viðskiptaráðs Íslands myndi afnám tolla lækka verð á matvörum um allt að 43%.

Það er því full ástæða til að halda áfram á þeirri braut að afnema tolla á Íslandi eða a.m.k. lækka þá. Engin aðgerð myndi duga betur í baráttunni við fátækt en að lækka matarkostnað heimilanna um tugi prósenta.