Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins og alþingismaður:
Páskarnir eru tími íhugunar, vonar og endurnýjunar – tími þegar við lítum bæði inn á við og fram á við. Endurnýjun þýðir ekki að við yfirgefum það sem hefur reynst okkur vel, heldur að við vöxum, aðlögumst og styrkjum það sem skiptir mestu máli. Í pólitík þýðir það að byggja á traustum grunni – frelsi einstaklingsins, ábyrgð í ríkisfjármálum, skynsemi í lagasetningu og trú á verðmætasköpun – og sækja fram með skýrri sýn.
Á Alþingi hefur Sjálfstæðisflokkurinn áfram talað skýrt og af ábyrgð um þau mál sem mestu skipta. Við höfum varað við áhrifum þeirra breytinga sem ríkisstjórnin hyggst gera á samsköttun. Breytingum sem fela í sér verulegar skattahækkanir á fjölskyldur í landinu, þvert á kosningaloforð ríkisstjórnarflokkanna um annað. Þá hefur flokkurinn beint sjónum sínum að fyrirhuguðum breytingum á veiðigjöldum, þar sem hækkun var lögð fram án mats á áhrifum og án samráðs við atvinnulífið og sjávarbyggðir í landinu. Slík vinnubrögð grafa undan trausti og eru ekki til þess fallin að skapa sátt um málaflokkinn.
Í ljósi umræðunnar um málefni útlendinga undanfarna daga er vert að minna á þann árangur sem náðst hefur á síðustu misserum. Með breytingum Sjálfstæðisflokksins á lögum um útlendinga hefur verið dregið úr misnotkun og ósanngjarnri byrði á kerfið – með því að fella niður séríslenskar málsmeðferðarreglur og færa framkvæmdina nær því sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Stór skref voru tekin til að draga úr útgjöldum til málaflokksins og aðstreymi umsókna. Þetta voru ekki einfaldar ákvarðanir, en nauðsynlegar ef tryggja á burðugra og sanngjarnara kerfi til lengri tíma.
Á alþjóðavettvangi ríkir óvissa. Tollastríð, sveiflur á mörkuðum og alþjóðleg átök varpa skugga á þróun heimsviðskipta. Við sjáum hvernig viðskiptastefna er í auknum mæli notuð sem vopn. Þess vegna skiptir utanríkisstefna Sjálfstæðisflokksins máli og þess vegna er lykilatriði að Ísland haldi tryggð við opna alþjóðasamvinnu og gildi frjálsra viðskipta. Viðskipti við umheiminn hafa verið forsenda þess að Ísland geti haldið uppi lífsgæðum sínum, skapað ný störf og tryggt samkeppnishæfni í síbreytilegum heimi.
Það er á okkar ábyrgð að verja þann grundvöll. Að láta ekki hugmyndir um sívaxandi ríkisumsvif, þyngri álögur og óábyrgan málatilbúnað grafa undan því sem hefur komið Íslandi meðal ríkja í fremstu röð.
Um þessar mundir eru blikur á lofti – en líka tækifæri. Sjálfstæðisstefnan býður upp á leið fram á við: í krafti fólksins, í krafti verðmætasköpunar og í krafti traustra gilda.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. apríl 2025.