Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:
Ég heimsótti Mílanó í fyrsta sinn sumarið 2023. Borgin er sannarlega hrífandi, hefur allt það klassíska sem fólk sækir svo gjarnan í á Ítalíu – ekki síst matinn og listina. En borgin er líka nútímaleg og hefur annan brag og anda yfir sér en aðrir staðir sem ég hef heimsótt í landinu. Í Mílanó er að finna eitt þekktasta verk Leonardo Da Vinci, Síðustu kvöldmáltíðina. Verkið er að finna á vegg inni í klaustri í borginni. Ég einsetti mér því auðvitað að heimsækja listaverkið. Þegar við ferðalangarnir komum að klaustrinu urðum við fyrir miklum vonbrigðum. Aðgangur að verkinu er takmarkaður og aðeins hleypt inn í klaustrið í litlum hópum sem hver hefur ákveðinn tíma til að virða verkið fyrir sér. Aðgangsmiðar voru því löngu uppseldir og ljóst að við næðum ekki að líta verkið augum í ferðinni. Aðgangsstýring að þjóðargersemum er þó ekki viðfangsefni þessa pistils.
Verk Da Vincis er af síðustu kvöldmáltíð Jesú Krists með lærisveinum sínum. Heilög máltíð sem var daginn sem við köllum skírdag og minnumst þess að Jesú þvoði fætur lærisveinanna. Á myndinni má sjá undrun og hneykslan lærisveinanna eftir að Jesú greinir þeim frá svikunum sem eru í vændum.
„Sannlega segi ég ykkur: Einn af ykkur mun svíkja mig.“ (Matt. 26:21).
Í dag er einmitt skírdagur og þekkingarleysi fólks á páskunum gömul saga og enn frekar ný. Ég hef þá a.m.k. lagt mitt af mörkum og rifjað upp hluta sögunnar með þeim sem þetta lesa.
Sannarlega væri betri bragur á því að þeir sem hér búa þekktu megininntak páskahátíðarinnar. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað lagt fram frumvarp, síðast undir forystu Birgis Þórarinssonar, um að auka veg kristinfræðikennslu í grunnskólum. Áhersla á kristna trú umfram önnur trúarbrögð helgast enda af menningu okkar og tengslum hennar við trúna.
Hvað sem því líður stendur páskahátíð nú yfir – helgasta hátíð kristinna manna. Frídagarnir og kyrrðin, góður matur og samvera með fjölskyldunni sem við njótum svo mörg þessa dagana. Föstudagurinn langi sem fylgir skírdegi er vissulega sorgardagur, dagurinn þegar ritningin rættist og Kristi var hafnað og afneitað og hann dæmdur til að deyja á krossi. En páskarnir eru gleðihátíð. Gleði yfir upprisu Jesú þegar vonin, trúin og kærleikurinn sigruðu. Það er við hæfi að við bregðum á leik með börnunum, glöð og spennt fyrir misgóðum ratleikjum og langþráðum samverustundum. En minnumst líka tilefnisins, mitt í kjötsvimanum og páskaeggjaofátinu. Minnumst boðskaps páskanna um upprisu og eilíft líf.
„Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi.“ (Jóh. 11:25)
Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. apríl 2025.