Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir alþingismaður:
Skattar verða ekki hækkaðir á almenning.“
Þessi setning, og aðrar keimlíkar, voru meðal þeirra skilaboða sem núverandi ríkisstjórnarflokkar sendu kjósendum fyrir kosningar. Fögur fyrirheit í aðdraganda kosninga.
Það er snúin staða ef aldrei stóð til að efna gefin loforð. Andspænis þeim vanda hafa valdamenn tvo kosti; að gangast við því að innistæðulaus loforð voru gefin, eða, það sem nú er orðin þjóðaríþrótt ríkisstjórnarinnar, að skilgreina loforðið upp á nýtt. Nú er reynt að hylma yfir raunverulegar fyrirætlanir með orðaleikjum. Skattahækkanir eru nú „leiðréttingar“ og „almenningur“ ekki lengur allir landsmenn – aðeins sumir. Það er engu líkara en það hafi verið ein af hagræðingartillögunum að hagræða sannleikanum.
Sannleikurinn er hins vegar sagna bestur. Nú hefur ríkisstjórnin kynnt hvorki meira né minna en þrjár tillögur að skattahækkunum.
Í fyrsta lagi hyggst ríkisstjórnin auka skattbyrði fjölskyldufólks um allt land, fólks sem rekið hefur sitt heimili sem eina heild í samvinnu sín á milli, með niðurfellingu samsköttunar. Breytingin er kynnt sem skref í átt til jafnréttis en er í reynd skattahækkun sem bitnar verst á barnafjölskyldum.
Í öðru lagi liggur fyrir Alþingi frumvarp sem felur í sér að sveitarfélögin verði í reynd neydd til að hækka útsvar. Leggi sveitarfélög ekki á hámarksútsvar hyggst ríkið skerða framlög til þeirra úr Jöfnunarsjóði. Auðsýnilega er ekki um annað að ræða en hótun í garð þeirra sveitarfélaga sem sýnt hafa ábyrgð í rekstri. Tekið er fyrir möguleika sveitarfélaga til þess að skila ávinningi góðs rekstrar til íbúa í formi lægra útsvars. Hér er seilst lengra ofan í vasa íbúa vel rekinna sveitarfélaga. Útsvarshækkun er skattahækkun á alla, enda greiðir meginþorri launafólks hærra útsvar en tekjuskatt til ríkisins.
Í þriðja lagi hyggst ríkisstjórnin stórhækka veiðigjöld á sjávarútveg, undir yfirskini leiðréttingar og réttlætis. Þessi skattahækkun mun draga úr samkeppnishæfni útflutningsgreinarinnar, ógna störfum í minni byggðum og auka óvissu. Þegar álögur aukast á fyrirtæki hefur það keðjuverkandi áhrif á laun, fjárfestingu og lífskjör fólksins í landinu.
Þótt ríkisstjórnin reyni eftir fremsta megni að fela skattahækkanir með orðaleikjum ætti engum að dyljast að hún lítur á fólkið og fyrirtækin í landinu sem óþrjótandi tekjulind – vasa sem hægt er að seilast sífellt dýpra og dýpra ofan í.
Ríkisstjórn sem kallar skattahækkanir „leiðréttingar“ er ekki að leiðrétta nokkurn skapaðan hlut – hún er að villa um fyrir fólki og víkjast undan eigin ábyrgð. Það á að segja hlutina eins og þeir eru. Skattar verða hækkaðir – bara með öðrum orðum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. apríl 2025.