Ábyrgðarlaust áhlaup á atvinnulífið

3. apríl 2025

'}}

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins:

Atvinnuvegaráðherra hefur kynnt áform um verulega hækkun veiðigjalda. Um er að ræða stórfellda breytingu á rekstrarskilyrðum einnar mikilvægustu atvinnugreinar þjóðarinnar. Engu að síður virðast tillögurnar hafa verið unnar í flýti, án nauðsynlegs samráðs og án faglegs undirbúnings.

Ekki liggur fyrir heildstæð greining á áhrifum hækkunarinnar. Hver verða áhrifin á byggðaþróun? Á atvinnulíf í sjávarbyggðum? Á vinnumarkaðinn? Á skatttekjur ríkissjóðs af greininni allri? Hver eru raunveruleg nettóáhrif á afkomu ríkissjóðs? Ráðherrann sá ekki ástæðu til að meta neitt af þessu.

Í óundirbúnum fyrirspurnartíma Alþingis á mánudag spurði ég ráðherrann hvort hann teldi forsvaranlegt að leggja fram tillögur um rúmlega tuttugu og sex milljarða króna í auknar álögur á þremur árum – án þess að vita hver áhrifin yrðu á ríkissjóð og atvinnustig? Ekki var svarað efnislega. Í staðinn fengum við hefðbundna ræðu um stórútgerðina og óljósar aðdróttanir í garð Sjálfstæðisflokksins.

Þetta er kunnuglegt handrit frá flokki sem segist standa með atvinnulífinu á tyllidögum. Þegar stjórnvöld geta ekki svarað spurningum um vinnubrögð og efnisatriði er reynt að beina athyglinni annað. En spurning mín snerist hvorki um stórútgerð né réttmæti veiðigjalda sem slíkra. Hún snerist um ábyrgð. Um faglega málsmeðferð. Um það hvort stjórnvöld ætluðu sér virkilega að leggja tugmilljarða álögur á atvinnugrein – án þess að nokkur hefði reiknað út hvort það borgaði sig yfir höfuð eða hvaða áhrif þær álögur hefðu á atvinnugreinina og sjávarbyggðir. Það er ekki bara ósanngjarnt. Það er óábyrgt.

Ráðherra má trúa því að breytingarnar séu sanngjarnar – en þær eru ekki ásættanlegar ef enginn hefur metið afleiðingar þeirra. Ef einhver hluti sjávarútvegsins er rekinn með miklum hagnaði gefur það stjórnvöldum ekki afslátt af því að vinna málin faglega. Þvert á móti er enn ríkari ástæða til að sýna að það sé verið að taka upplýsta og rökstudda ákvörðun um eins íþyngjandi skattahækkun og raun ber vitni.

Það er nefnilega svo, þrátt fyrir orðhengilshátt og jafnvel flótta ráðherrans frá eðli þessarar aðgerðar, að um boðaða skattahækkun er að ræða. Fögur fyrirheit ríkisstjórnarinnar í aðdraganda og eftir kosningar um að ekki eigi að hækka skatta standast enga skoðun. Það er nefnilega svo að hin svokallaða „leiðrétting“ ríkisstjórnarinnar er nefnilega skattahækkun.

Hlutverk ráðherra er ekki að haga gjaldtöku eftir hentugleika eða stemningu dagsins – heldur að byggja upp trausta, fyrirsjáanlega og faglega stjórnsýslu. Það er grundvöllur trausts og stöðugleika.

Nú stendur eftir spurningin: Var málið svo brýnt að ekki mátti rýna í afleiðingar þess? Eða var tilgangurinn einungis sá að slá pólitískar keilur – óháð því hver greiðir reikninginn?

Ef ráðherra getur ekki svarað því með hreinum hætti – þá liggur ekki aðeins ábyrgðin ljós fyrir, heldur blasir við að stjórnvöld séu reiðubúin að fórna trausti, vönduðum vinnubrögðum og almannafé fyrir stundarhagnað í pólitískri umræðu. Það er óverjandi.

Morgunblaðið, 2.apríl 2025.