Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Götulýsingu hefur verið ábótavant í mörgum hverfum Reykjavíkur undanfarna vetur vegna ónógs viðhalds og tíðra bilana. Mörg dæmi eru um að ljósastaurar hafi verið óvirkir vikum og jafnvel mánuðum saman. Slík óvirkni veldur óþægindum og jafnvel hættu.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa fengið fjölda kvartana um óvirka götulampa og í kjölfarið lagt fram tillögur um viðgerðir og úrbætur. Svo margar hafa kvartanirnar verið að augljóst er að ekki er um óhappatilviljun að ræða heldur er eitthvað að í sjálfu kerfinu.
Mikilvægt öryggismál
Götulýsing er með elstu sameiginlegum verkefnum Reykvíkinga. Eitt helsta hlutverk hennar er að auka umferðaröryggi vegfarenda. Borgin mun verja um 196 milljónum króna til gatnalýsingar á árinu 2025. Árið 2022 lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að lýsingartími í borginni yrði lengdur og var það gert í ársbyrjun 2023.
Nýlega var fjallað um málið í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur að ósk sjálfstæðismanna. Þar fengust skýringar á því af hverju þetta ástand hefur skapast og greint var frá umbótastarfi.
Perulampar eru mun gjarnari á að bila en led-ljós. Led-væðingin er hluti af alþjóðlegri þróun og hefur því dregið úr framleiðslu á perum af eldri gerðum og orðið erfiðara að afla þeirra. Skortur á lýsingu, t.d. við Hringbraut og Vesturlandsveg í vetur, var vegna þess að perur fengjust ekki hjá birgjum.
Þrálátar bilanir í götulömpum í vetur eru einnig skýrðar með því að götuljósastrengir séu víða orðnir gamlir. Erfitt getur verið að finna bilun í gömlum strengjum og geta jarðvinnuframkvæmdir í nágrenni einnig valdið ljósleysi.
Þessar skýringar eiga eflaust við rök að styðjast en þó hefur lýsingarskortur einnig verið hvimleiður í hverfum þar sem led-ljós eru komin til sögunnar, t.d. í hinni nýju Vogabyggð sem og í ákveðnum götum í Vesturbænum.
Eftirliti ábótavant
Reykjavíkurborg hefur tekið að sér allan rekstur gatnalýsingu af Orku náttúrunnar, dóttufyrirtæki Orkuveitunnar. Eftirliti með óvirkum ljósastaurum er ekki lengur sinnt með reglubundnu eftirliti þar sem það þótti dýrt og óskilvirkt.
Þekkt er að Rafmagnsveita Reykjavíkur sinnti gatnalýsingu áður fyrr af miklum metnaði. Reglubundið eftirlit var með götulömpum vegna peruskipta u.þ.b. aðra hverja viku. Ef ábending um sprungna peru barst frá borgara, var brugðist við innan sólarhrings. Með nútíma tækni er líklega hægt að sinna slíku eftirliti með minni kostnaði og fyrirhöfn en áður.
Verktakar sjá um viðhald á götulömpum en starfsmenn Reykjavíkurborgar sinna hlutverki eftirlitsaðila. Margar ábendingar berast frá borgurum um óvirka götulýsingu. Ég hef þó fengið kvartanir um að ítrekaðar ábendingar, sem sendar eru á ábendingavef borgarinnar, beri seint eða ekki árangur.
Led-væðing götulýsingar
Frá árinu 2019 hefur verið unnið að því að led-væða gatnalýsingu í Reykjavík. 74% af götulömpum borgarinnar hafa nú verið Led-væddir en 26% eru svokallaðir perulampar af eldri gerð (kvikasilfur, natríum o.fl.)
Verkefnið, sem er bæði metnaðarfullt og kostnaðarsamt, felst í því að skipta út eldri búnaði fyrir led-lýsingu. Rekstur led-lampa er hins vegar miklu ódýrari en hinna gömlu perulampa og fjárfestingin borgar sig því á skömmum tíma. Árið 2018 var reiknað með að endurgreiðslutími led-lampa yrði 6-7 ár en nú er talið að hann sé innan við fjögur ár.
Kvartanir hafa borist um að led-lampar gefi daufari lýsingu en gamla tæknin. Þær ábendingar þarf að skoða betur en um stillingaratriði gæti verið að ræða.
Ljóst er að bæta þarf fyrirkomulag gatnalýsingar í Reykjavík, sem hefur verið ábótavant í mörgum hverfum. Vonir standa til þess að ástandið batni eftir því sem fleiri götulampar verða led-væddir. Ekki má þó slá slöku við varðandi rekstur og viðhald þeirra götulampa, sem byggjast á eldri tækni enda gegna þeir enn mikilvægu hlutverki í borginni. Einnig þarf að standa betur að endurnýjun götuljósastrengja en nú er gert enda virðast þeir víða vera úr sér gengnir og berskjaldaðir fyrir bilunum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. mars 2025.