Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins er gestur Tómasar Þórs Þórðarsonar í Pólitíkinni þessa vikuna. Þáttinn má finna hér.
Í þættinum ræðir Tómas við hana um kjör hennar til formanns Sjálfstæðisflokksins á nýliðnum landsfundi, um uppvöxt og æsku hennar og hennar framtíðarsýn fyrir flokkinn.
„Ég skal alveg viðurkenna að þetta hafa alveg verið óraunverulegir dagar. Forveri minn, Bjarni Benediktsson, búinn að vera lengi. Búinn að vara 16 ár formaður. Við erum með kynslóð fólks sem þekkir ekkert annað en að Bjarni sé að stýra Sjálfstæðisflokknum. Þetta er stórt starf. Ábyrgðarmikið starf og það er allt að síast inn hægt og rólega. Ég er að ná mjúkri lendingu,“ segir Guðrún um tilfinningarnar sem fylgja því að hafa verið kjörin formaður Sjálfstæðisflokksins á nýliðnum landsfundi.
„Ég hef nýtt tímann til þess að ræða við fólk og tekið því rólega og svo fer fólk að sjá hægt og rólega mínar áherslur, einhverjar breytingar kannski,“ segir hún.
Ætlaði sér að verða fréttamaður en ekki þingmaður
Guðrún segir að hún hafi alltaf verið mannblendin frá æsku og tekið þátt í ýmiskonar félagsstarfi. Þar hafi hún gjarnan verið valin til forystu, hvort sem var í vinahópnum, nemendafélagi, Íslendingafélagi erlendis og víðar. Að ónefndu formennsku í Samtökum iðnaðarins og varaformennsku í Samtökum atvinnulífsins.
Þá var hún ung farin að fylgjast með fréttum og hafa áhuga á samfélagsmálum, bæði hérlendis og erlendis. Hún hafi sem dæmi ætlað sér að verða fréttamaður þegar hún var táningur og á lokaári í grunnskóla valið að fara í starfskynningu á Ríkisútvarpið og Morgunblaðið. Þá hafi hún lært það í uppeldinu að til að sjá hluti gerast þurfi fólk að taka frumkvæði og framkvæma.
Guðrún fór ung að hjálpa til í kringum kosningar, bera út blöð, sitja í kjördeild og hefur um langt árabil verið í bakvarðasveitinni í sínum heimabæ, Hveragerði, þar sem bæði faðir hennar og systir voru um árabil leiðtogar í sveitarstjórnarpólitíkinni. Hún ætlaði sér þó aldrei að verða alþingismaður.
„Mér þótti það ekki neitt rosalega spennandi. Mjög átakamiðað og afkastalítið fannst mér. Ég er náttúrulega alin upp á færibandi og hugsa allt út frá færiböndum og hvað kemur mikið út af því. Auðvitað koma margar vikur og stundum mánuðir þar sem kemur lítið út af færibandinu á Alþingi. Svo kemur hellingur í desember og hellingur í júní. Ég ætlaði mér ekki á þing. Síðan gerist eitthvað. Ég fer að vinna fyrir Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins og þá ertu komin í ákveðna atvinnupólitík. Þú ert í hagsmunabaráttu fyrir iðnað í landinu og atvinnulífið,“ segir hún.
Eftir að hún hafi svo hætt í stjórn SA árið 2020 hafi margir, ekki síst úr kjördæminu, farið að hvetja hana í framboð. Á endanum hafi hún farið að máta sig inn á vettvang landsmálanna og svo tekið þátt í prófkjöri 2021 í Suðurkjördæmi og tekið sæti á Alþingi sem oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og var svo síðar dómsmálaráðherra áður en hún var kjörin formaður Sjálfstæðisflokksins.
Guðrún ræðir formannskosningabaráttuna og segir að hún og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hafi talað saman og lagt sig báðar fram um að vanda sig og setja hagmuni flokksins fyrst og síðan þeirra. Hún segist bera mikla virðingu fyrir Áslaugu Örnu og að hún finni að hún eigi öflugan liðsmann og bandamann í henni eftir landsfundinn.
„Landsfundurinn var frábær. Tvær konur að keppa um þetta embætti. Aldrei gerst áður í sögu flokksins. Við vildum báðar að þessi barátta væri með þeim hætti að við gætum gengið stoltar frá borði – alveg sama hvernig færi. Ég held að við séum báðar mjög stoltar af því,“ segir hún.
Vill byggja aftur upp traust til Sjálfstæðisflokksins
Þegar talið barst að framtíð Sjálfstæðisflokksins undir hennar forystu segir hún að hún sé að finna sig í stjórnarandstöðunni. Einungis tveir í þingflokki Sjálfstæðisflokksins hafi áður verið í stjórnarandstöðu árið 2013 þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók að nýju sæti í ríkisstjórn.
„Við erum öll svolítið að finna okkar fjöl. Ég held að kannski munum við gefa okkur þetta vorþing. Líka taktinn með öðrum stjórnarandstöðuflokkum,“ segir hún.
Hún segist hafa verið skýr með það í aðdraganda landsfundar að fylgi Sjálfstæðisflokksins í síðustu kosningum sé óásættanlegt, bæði fyrir sig og alla sjálfstæðismenn.
„Það segir okkur að ef við höfum tapað miklu fylgi er það vegna þess að fólk vill ekki kjósa okkur lengur. Ef að fólk vill ekki kjósa okkur er það vegna þess að það treystir okkur ekki til góðra verka. Það verður fyrst og síðast verkefni mitt að byggja aftur upp traust til Sjálfstæðisflokksins,“ segir hún.
Í því samhengi vill hún stórefla málefnastarfið, skoða breytingar á stjórnskipulagi flokksins m.a. varðandi val flokksmanna á forystu og eins hvernig hægt sé að tengja betur félögin hringinn í kringum landið við Valhöll. Þá nefnir hún einnig að búa til betri samfellu í starfinu milli kjörinna fulltrúa, hvort sem er á sveitarstjórnarstiginu eða á Alþingi.
Ferðast um landið næstu mánuði til að hitta fólk
Guðrún ásamt öðrum í forystu flokksins verður á hringferð um landið næstu mánuði.
„Þessi hringferð verður nokkuð löng. Hún varar núna í einhverja mánuði þar sem ég vil heimsækja alla byggðarkjarna og sérstaklega þar sem við erum með félög. Hitta trúnaðarmenn en líka að hitta fólkið í landinu. Fá að kynna mig og kynna það sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir. En ég vil líka að við stígum aðeins skref til baka og finnum aftur grunngildi okkar sjálfstæðismanna. Finnum aftur grunnstefnuna okkar vegna þess að hún stendur enn algjörlega fyrir sínu þó hún sé að verða hundrað ára,“ segir hún en hringferðin hófst formlega síðasta laugardag og stendur enn yfir.
Guðrún vill einnig breikka Sjálfstæðisflokkinn.
„Ég vil ná til breiðari hóps og þar er ég að vísa til þess að þegar ég gekk til fylgis við Sjálfstæðisflokkinn þá var þetta flokkur sem var kallaður „Stétt með stétt“. Ég vil fara aftur þangað. Ég tel að grunngildi flokksins og stefna flokksins sé með þeim hætti að mun stærri hópur heldur en kaus okkur í nóvember eigi að finna sitt hjarta slá með okkur,“ segir hún.
Hún segir að flokkurinn hafi skaðast af síðasta ríkisstjórnarsamstarfi og nú sé það nýrrar forystu að endurnýja erindi flokksins og hún hlakki mikið til þess.
„Sjálfstæðisflokkurinn hefur allt lýðveldistímabilið verið lang sterkasta og öflugasta stjórnmálaafl á Íslandi og á vakt Sjálfstæðisflokksins hefur okkur tekist að byggja Ísland úr vosbúð yfir í velsæld. Það gerist ekki að sjálfu sér. Það gerist vegna þess að fólk hefur valið Sjálfstæðisflokkinn sem hefur haft öfluga einstaklinga til að vinna að framfaramálum fyrir þjóðina. Það ætlum við að gera áfram og ég trúi því einlæglega að Íslandi farnist best þegar Sjálfstæðisflokkurinn er að stýra landinu. Ég hlakka til þegar við komumst aftur í Stjórnarráðið,“ segir hún að lokum.
Þáttinn má finna hér á spilaranum fyrir neðan: