Kominn tími á vaktaskipti í Vonarstræti

24. mars 2025

'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir alþingismaður:

Leikskólavandinn í Reykjavík – sem á endanum verður alltaf vandi foreldra og barna – er í raun sjálfskapað vandamál. Í fleiri ár hafa langþreyttir foreldrar staðið í baráttu fyrir plássum og setið uppi með ómælt álag og tekjutap. Baráttuandinn dofnar svo þegar barnið fær loksins pláss, oftast komið á þriðja ár, og nýir foreldrar lenda á biðlistanum. Í þessu skjóli hefur meirihlutinn í borginni skákað í fjölda ára og aldrei er tekið á vandanum.

Verkefni stjórnmálamanna er að tryggja grunnþjónustu og einfalda líf fólks. Meirihlutinn í borginni virðist ekki upptekinn af slíkum málum eða hversdegi borgarbúa. Þar hafa gæluverkefni verið ofar á forgangslista og vanræksla grunnverkefna viðvarandi. Allt undir forystu Samfylkingarinnar, sem setur börn á biðlista fyrir aftan blómapotta, bragga og eigin ofurlaun.

Það sama virðist vera upp á teningnum nú þegar sami flokkur er kominn í bílstjórasætið við stjórn ríkisins. Í stað þess að setja raunverulegar lausnir í forgang leggja þingmenn Samfylkingarinnar fram frumvarp um að leyfa systkinaforgang í leikskólum.

Gott og vel. Staðreyndin er þó sú að slíkt fyrirkomulag er þegar við lýði í fjölda sveitarfélaga – en borgarstjórn hefur einfaldlega ákveðið að nýta hann ekki. Þetta er í raun blekkingaleikur sem gerir lítið annað en kasta ryki í augu fjölskyldna – með meintum „lausnum“ sem þau vonast til að dreifi athyglinni frá afleitri stöðu sem þau bera sjálf ábyrgð á.

Barnafjölskyldur eiga betra skilið. Þess vegna legg ég fram frumvarp á Alþingi, sem getur verið hluti af lausnunum sem ráðast þarf í svo hægt sé að eignast börn í Reykjavík. Frumvarp sem kemur í veg fyrir að ráðamenn einstakra sveitarfélaga geti komið í veg fyrir að einkaaðilar sem þeim eru ekki þóknanlegir, t.d. fyrirtæki, reki leikskóla eða neiti að greiða með börnum sem sækja slíka skóla líkt og Reykjavíkurborg hefur gert. Það að sveitarfélög láti duttlunga og kreddur standa í vegi fyrir því að byggður sé leikskóli er ólíðandi. Og það sérstaklega þegar umrætt sveitarfélag er það sem verst hefur haldið á spöðunum í leikskólamálum.

Óbreytt staða sem meirihlutinn í Reykjavík neitar að horfast í augu við rýrir lífskjör fjölskyldna, sem að lokum flykkjast til annarra sveitarfélaga. Reykjavíkurborg á að tryggja Hjallastefnunni öruggt starfsumhverfi, einfalda rekstrarumhverfi sjálfstætt starfandi leikskóla, tryggja umhverfi dagforeldra sem hafa horfið á braut vegna óraunhæfra loforða og líta til kerfisbreytinga annarra sveitarfélaga. Það blasir við, en meirihlutinn sér ekki skóginn fyrir trjánum.

Samfylkingin hefur staðið vaktina í Ráðhúsinu alltof lengi og afleiðingarnar blasa við borgarbúum. Það er kominn tími á vaktaskipti í Vonarstræti.

Morgunblaðið, 21. mars.