Geldinganes er framtíðin

24. mars 2025

'}}

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Geldinganes var meginefni borgarstjórnarfundar sl. þriðjudag, 18. marz 2025. Fyrir fundinum lágu tillögur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um að hafist verði handa við skipulagningu framtíðaríbúðasvæðis í Geldinganesi. Æskilegt er að slík vinna verði unnin í nánum tengslum við skipulag Sundabrautar, sem mun þvera nesið.

Er þetta í þriðja sinn á kjörtímabilinu, sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til í borgarstjórn að hafist verði handa við skipulagningu íbúðasvæðis á Geldinganesi. Í október 2022 og marz 2024 var sama tillaga felld með atkvæðum meirihluta Framsóknarflokks, Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna.

Ánægjuleg stefnubreyting Framsóknar

Nú tekur Framsóknarflokkurinn upp stefnu Sjálfstæðisflokksins með tillöguflutningi sínum, sem er ánægjulegt. Í þetta sinn felldi vinstri meirihlutinn ekki tillöguna heldur vísaði henni til umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur til umfjöllunar.

Flokkur fólksins (FF) hefur áður stutt tillögur Sjálfstæðisflokksins um uppbyggingu á Geldinganesi án fyrirvara. Nú brá svo við að borgarfulltrúi FF treysti sér ekki lengur til þess en kaus að vísa tillögunni til nefndar. Flokkurinn er því þegar farinn að gefa afslátt af fyrri stefnumálum sínum í samstarfi við nýjan vinstri meirihluta.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins munu fylgja málinu fast eftir á vettvangi umhverfis- og skipulagsráðs. Í umræðum um málið í borgarstjórn hefur hvað eftir annað komið í ljós að sumir borgarfulltrúar vinstri flokkanna eru mjög andsnúnir uppbyggingu á Geldinganesi og vilja frekar nýta svæðið til grjótnáms og skógræktar.

Unga fólkið þarf íbúðir

Það sjónarmið hefur einnig komið fram hjá fulltrúum vinstri meirihlutans að ekki megi byggja upp Geldinganes á sama tíma og Keldnaland þar sem fjármagna eigi stóran hluta svonefnds samgöngusáttmála með sölu lóða í síðarnefnda hverfinu. Það á semsagt að halda lóðaverðinu uppi með takmörkuðu framboði til að hið opinbera græði sem mest á sölu lóða til almennings!

Húsnæðisstefna vinstri meirihlutans, sem byggist á slíkum lóðaskorti og okri, bitnar á öllum sem hyggja á íbúðarkaup, ekki síst ungu fólki sem þráir að komast í eigin húsnæði. Lóðaskortur stuðlar að háu lóðaverði, sem leiðir af sér hátt húsnæðisverð. Í febrúar 2025 ákvað vinstri meirihlutinn að gera kaupendum nýrra íbúða enn erfiðara fyrir með því að hækka gatnagerðargjöld í borginni um allt að 90%. Húsnæðisvandinn verður ekki leystur á meðan byggingarmál eru föst í slíkum vítahring vinstri stefnu.

Aðgerða er þörf vegna hins mikla húsnæðisvanda, sem við er að glíma á höfuðborgarsvæðinu. Tugþúsundir nýrra íbúða vantar til viðbótar þeim, sem þegar eru í byggingu eða skipulagi. Reykjavíkurborg þarf að stórauka lóðaframboð og standa þannig að sölu lóða að verð íbúða lækki frá því sem nú er. Smáskammtalækningar duga ekki lengur með takmörkuðu framboði dýrra íbúða á þéttingarsvæðum, sem venjulegt launafólk hefur ekki efni á.

Gott byggingarland

Geldinganesi er 220 hektarar að flatarmáli og þar má koma fyrir 7-10 þúsund manna byggð auk atvinnusvæðis. Best væri að vinna samhliða að skipulagi Sundabrautar og Geldinganess enda er brautin forsenda íbúðabyggðar þar.

Í skipulagsvinnunni má  hafa til hliðsjónar verðlaunatillögur úr skipulagssamkeppni um nýtt hverfi á Geldinganesi frá árinu 1990. Tillögurnar hafa elst vel og ekki ætti að taka langan tíma að gera á þeim æskilegar breytingar og uppfærslur. Raunhæft er að viðeigandi breytingar á aðalskipulagi verði lagðar fyrir borgarstjórn eigi síðar en vorið 2026.

Miðað við umræður í borgarstjórn er þó líklegt að hugmyndir um nýtt hverfi í Geldinganesi muni áfram mæta andstöðu meðal borgarfulltrúa vinstri flokkanna. Í borgarstjórnarkosningum að ári verður því kosið um þá stefnu Sjálfstæðisflokksins að stórauka lóðaframboð, m.a. með byggð í Geldinganesi, í því skyni að gera sem flestum Reykvíkingum kleift að eignast húsnæði á viðráðanlegu verði.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. mars 2025.