Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins:
Á nýliðnum landsfundi naut ég þess trausts að vera kjörin formaður Sjálfstæðisflokksins. Það er mér mikill heiður og ábyrgð sem ég tek við af auðmýkt og af festu. Ég heiti því að vinna af krafti, áræði og skýrri sýn með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.
Landsfundurinn var hinn stærsti i sögu flokksins. Nú er mikilvægt að sjálfstæðismenn standi saman, stétt með stétt, og fylki sér um skýra framtíðarsýn flokksins. Markmiðið er skýrt: Við ætlum að efla og stækka flokkinn á landsvísu, tryggja trausta stjórnun í sveitarfélögum um allt land og sýna að sjálfstæðisstefnan skilar árangri.
Sjálfstæðisflokkurinn á að vera fyrsti kostur allra þeirra sem trúa á frelsi, ábyrgð og framfarir. Við ætlum ekki að staðna – við ætlum að sækja fram. Við ætlum að tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn sé í forystu um þau mál sem skipta þjóðina mestu. Það gerum við með skýrri stefnu, sterkri forystu og kraftmikilli baráttu.
Forysta flokksins mun á næstu misserum ferðast um landið, hitta landsmenn, hlusta, ræða og vinna að því að festa stefnu okkar enn frekar í sessi. Við höfum sterka sögu að segja í sveitarstjórnarmálum – söguna af ábyrgum rekstri, betri þjónustu, öflugri innviðum og betra samfélagi. Árangurinn talar sínu máli.
Við viljum að foreldrar barna gangi að leikskólaplássi vísu, að skipulagsmál séu unnin af ábyrgð og festu, að vel sé farið með skattfé og að lífskjör fólks batni með skynsamlegum ákvörðunum og frjálsu framtaki.
Á grunni séreignastefnunnar munum við hér eftir sem hingað til beita okkur fyrir því að fólk geti eignast sitt eigið heimili. Það er hægt að gera svo miklu betur í þeim efnum fyrir unga fólkið og fjölskyldur þessa lands.
Nú er vor í lofti og við finnum fyrir kraftinum eftir öflugan landsfund. Við vitum að sjálfstæðisstefnan virkar og við ætlum að sýna það í verki. Við hefjum ferð okkar um landið í Garðabæ á laugardag og förum síðan um Austfirði, Norðurland og Vestfirði. Ég, ásamt félögum mínum í forystunni, hlakka til að hitta ykkur á næstu vikum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu, sunnudaginn 23. mars 2025