Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Ef einhver nútíma viðburður gæti staðist samanburð við Alþingi til forna, væri það líklega helst landsfundur Sjálfstæðisflokksins. Um tvö þúsund manns úr öllum sýslum og landshornum sækja þetta stærsta stjórnmálamót landsins og má reikna með að svipaður fjöldi hafi sótt Alþingi þegar það var fyrrum haldið á Þingvöllum. Rætt er og ályktað um alvörumál, kosið til embætta og nefnda á milli þess sem fulltrúar skemmta sér saman, efla gömul kynni og stofna til nýrra. Er jafnvel ekki óþekkt að pústrar verði með mönnum eins og á hinu forna Alþingi. Fullar sættir takast síðan að morgni enda ekki í anda samkomunnar að erfa slíkt.
Alþingi til forna var eitt helsta sáttar- og sameiningarafl Íslendinga, sem hafði mikla pólitíska, félagslega og menningarlega þýðingu. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins gegnir svipuðu hlutverki fyrir flokksmenn. Þeir koma hvaðanæva að af landinu, skeggræða stjórnmál, skemmta sér og ráða sameiginlegum málum til lykta.
Óvenju mikill áhugi var fyrir landsfundi flokksins 28. febrúar – 2. marz 2025 þar sem ljóst var að ný forysta yrði kjörin. Glæsilegir frambjóðendur sóttust eftir helstu embættum og var því úr vöndu að ráða fyrir flokksmenn. Úrslit í formannskjöri urðu þau að Guðrún Hafsteinsdóttir var kjörin formaður með 931 atkvæði, en Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hlaut 912 atkvæði. Jens Garðar Helgason hlaut örugga kosningu til varaformanns.
Samhugur og samstaða
Jákvæðni og samstöðuandi einkenndu landsfundinn þrátt fyrir harða baráttu um embætti. Síðasta skipun fráfarandi formanns var sú að allir sjálfstæðismenn skyldu standa saman að loknum fundi, óháð því hvernig kosningarnar færu. Var ekki annað að sjá en að þessu boði væri hlýtt. Frambjóðendur til formanns og varaformanns þökkuðu hver öðrum fyrir drengilega baráttu. Og ánægjulegt var að sjá fjölmarga stuðningsmenn þeirra formanns- og varaformannsefna, sem náðu ekki kjöri að þessu sinni, stíga fram eftir að úrslit voru tilkynnt og óska sigurvegurunum heils hugar til hamingju.
Brýn verkefni bíða
Brýn verkefni bíða nýrrar forystu. Endurskoða verður skipulag og innra starf flokksins ef hann á að ná fyrri stöðu sinni sem stærsti stjórnmálaflokkur landsins. Þrálátt fylgistap kosningar eftir kosningar er óviðunandi og kallar á allsherjar naflaskoðun. Meta þarf hvort nægilega vel sé staðið að kosningabaráttu flokksins og auka samstarf og samvirkni milli skipulagsheilda hans, t.d. þingflokks, sveitarstjórnarmanna, sjálfstæðisfélaganna og starfsliðs Valhallar.
Skerpa þarf málefnaáherslur og auka umræður um hugmyndafræði á vettvangi flokksins, sem hafa verið of litlar undanfarin ár. Ræða þarf fyrir hvað flokkurinn vilji standa og hvernig hann geti sem best endurnýjað samband sitt við fjölda kjósenda.
Meiri eða minni ríkisafskipti?
Sem fyrr snúast hinar pólitísku átakalínur um það hvort auka eigi opinber afskipti eða draga úr þeim. Skattbyrði Íslendinga er orðin afar þung og hin næstmesta meðal OECD-ríkjanna. Skattgreiðendur eru að sligast undan kostnaði við opinberar fjárfestingar, sem og dýrt og flókið stofnanakerfi.
Sjálfstæðisflokkurinn verður að setja hag skattgreiðenda í öndvegi að nýju í stað þess að elta eyðslumál vinstri flokkanna. Flokkurinn þarf t.d. að taka skýra afstöðu gegn hugmyndum um 130-200 milljarða króna borgarlínu, sem fjármagna á með nýjum álögum á íbúa höfuðborgarsvæðisins. Hægt væri að ná markmiðum um öflugar almenningssamgöngur með margfalt ódýrari og fljótlegri hætti með því að efla núverandi strætisvagnakerfi.
Sjálfstæðisflokknum varð stærsta stjórnmálahreyfing þjóðarinnar og hélt þeirri stöðu um langa hríð með því að framfylgja þeirri grundvallarstefnu að hafa álögur á almenning hóflegar og fara vel með skattfé. Flokkurinn ávann sér þannig trúverðugleika, sem brjóstvörn skattgreiðenda gegn vinstri flokkum, sem börðust aftur á móti fyrir útþenslu hins opinbera og stóraukinni skattheimtu.
Besta leiðin til að efla Sjálfstæðisflokkinn er að leggja aukna áherslu á þessi góðu grunngildi ásamt almennu umbótastarfi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. mars 2025.