Hildur Sverrisdóttir formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Það er að sjálfsögðu fagnaðarefni að reynt sé að leita leiða til að hagræða í ríkisrekstri. Talsvert verra er þegar umbúðir hagræðingartillagna ríkisstjórnarinnar eru efnismeiri en innihaldið.
Við fyrstu sýn hljómaði 70 milljarða sparnaður sem ágætis markmið. Svo kom í ljós að 70 milljarðarnir eru heildarsparnaðurinn sem á að nást á fimm árum. Það gerir einungis um 14 milljarða á ári. Af 1.500 milljarða útgjaldapakka ríkisins á ári verður heildarsamhengið heldur snautlegt.
Það er afskaplega gott að spara tíkalla og hundraðkalla hér og þar, fara með dósir og flöskur á Sorpu og borða afgangana úr ísskápnum, en mesti sparnaðurinn nú sem fyrr felst í því að standa gegn útgjaldaaukningu hvers konar. Ef hagkerfið heldur áfram að stækka þá munar mestu ef stjórnvöldum og Alþingi tekst að halda útgjaldaaukningunni í skefjum. Engin slík áform er að finna í tillögunum.
Tillögurnar eru kynntar ýmist frá almenningi eða þjóðinni þegar hið rétta er að af tíu þúsund tillögum sem almenningur sendi inn rötuðu einungis 0,6% í tillögur hagræðingarhóps á vegum ríkisstjórnarinnar. Fyrirvarinn sem var ítrekað sleginn af ráðherrum ríkisstjórnarinnar var að þetta væru tillögur hópsins og ættu eftir að fara í gegnum alla pólitíska rýni og ákvarðanatöku. Þessi fyrirvari gefur fyrirheit um að allar líkur séu því miður á að enn minna verði úr tillögunum.
Nú þegar hefur forystufólk í BHM og BSRB gagnrýnt tillögurnar harkalega og kallað þær stríðsyfirlýsingu gegn vinnandi fólki. Fólk í nýsköpun kvartar sáran og forseti Hæstaréttar gagnrýndi tillögurnar af slíkum krafti að hætt var við að skera niður hjá æðsta dómsvaldi Íslands.
Margar góðar tillögur er þó að finna á 70 blaðsíðna glærusýningu ríkisstjórnarinnar og óskandi að þær verði margar að veruleika. Í tillögunum er meðal annars að finna tíu mál sem hafa nú þegar verið lögð fram af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Þar af fimm frá Diljá Mist Einarsdóttur. Dæmi um tillögur sem þegar liggja fyrir á Alþingi í þingmálum Sjálfstæðisflokksins er afnám gullhúðunar, lækkun styrkja til stjórnmálaflokka, létting jafnlaunavottunar, afnám á sérkjörum opinberra starfsmanna og aukið félagafrelsi á vinnumarkaði.
Hlutfall blaðamannafunda þessarar ríkisstjórnar um hluti sem eru enn eingöngu fuglar í skógi en ekki í hendi er strax orðið hærra en við höfum áður séð frá fyrri ríkisstjórnum. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins munu ekki láta sitt eftir liggja bæði þegar og ef öll þessi mál einhvern daginn líta dagsins ljós en vera ekki einungis á glanspússuðum glærukynningum. En til þess að svo megi verða verður ríkisstjórnin að hætta að láta orðin tala og fara að láta verkin tala.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. mars 2025.