Ríkisstjórnin lætur orðin tala

10. mars 2025

'}}

Hildur Sverrisdóttir formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Það er að sjálf­sögðu fagnaðarefni að reynt sé að leita leiða til að hagræða í rík­is­rekstri. Tals­vert verra er þegar umbúðir hagræðing­ar­til­lagna rík­is­stjórn­ar­inn­ar eru efn­is­meiri en inni­haldið.

Við fyrstu sýn hljómaði 70 millj­arða sparnaður sem ágæt­is mark­mið. Svo kom í ljós að 70 millj­arðarn­ir eru heild­ar­sparnaður­inn sem á að nást á fimm árum. Það ger­ir ein­ung­is um 14 millj­arða á ári. Af 1.500 millj­arða út­gjaldapakka rík­is­ins á ári verður heild­ar­sam­hengið held­ur snaut­legt.

Það er af­skap­lega gott að spara tíkalla og hundraðkalla hér og þar, fara með dós­ir og flösk­ur á Sorpu og borða af­gang­ana úr ís­skápn­um, en mesti sparnaður­inn nú sem fyrr felst í því að standa gegn út­gjalda­aukn­ingu hvers kon­ar. Ef hag­kerfið held­ur áfram að stækka þá mun­ar mestu ef stjórn­völd­um og Alþingi tekst að halda út­gjalda­aukn­ing­unni í skefj­um. Eng­in slík áform er að finna í til­lög­un­um.

Til­lög­urn­ar eru kynnt­ar ým­ist frá al­menn­ingi eða þjóðinni þegar hið rétta er að af tíu þúsund til­lög­um sem al­menn­ing­ur sendi inn rötuðu ein­ung­is 0,6% í til­lög­ur hagræðing­ar­hóps á veg­um rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Fyr­ir­var­inn sem var ít­rekað sleg­inn af ráðherr­um rík­is­stjórn­ar­inn­ar var að þetta væru til­lög­ur hóps­ins og ættu eft­ir að fara í gegn­um alla póli­tíska rýni og ákv­arðana­töku. Þessi fyr­ir­vari gef­ur fyr­ir­heit um að all­ar lík­ur séu því miður á að enn minna verði úr til­lög­un­um.

Nú þegar hef­ur for­ystu­fólk í BHM og BSRB gagn­rýnt til­lög­urn­ar harka­lega og kallað þær stríðsyf­ir­lýs­ingu gegn vinn­andi fólki. Fólk í ný­sköp­un kvart­ar sár­an og for­seti Hæsta­rétt­ar gagn­rýndi til­lög­urn­ar af slík­um krafti að hætt var við að skera niður hjá æðsta dómsvaldi Íslands.

Marg­ar góðar til­lög­ur er þó að finna á 70 blaðsíðna glæru­sýn­ingu rík­is­stjórn­ar­inn­ar og ósk­andi að þær verði marg­ar að veru­leika. Í til­lög­un­um er meðal ann­ars að finna tíu mál sem hafa nú þegar verið lögð fram af þing­mönn­um Sjálf­stæðis­flokks­ins. Þar af fimm frá Diljá Mist Ein­ars­dótt­ur. Dæmi um til­lög­ur sem þegar liggja fyr­ir á Alþingi í þing­mál­um Sjálf­stæðis­flokks­ins er af­nám gull­húðunar, lækk­un styrkja til stjórn­mála­flokka, létt­ing jafn­launa­vott­un­ar, af­nám á sér­kjör­um op­in­berra starfs­manna og aukið fé­laga­frelsi á vinnu­markaði.

Hlut­fall blaðamanna­funda þess­ar­ar rík­is­stjórn­ar um hluti sem eru enn ein­göngu fugl­ar í skógi en ekki í hendi er strax orðið hærra en við höf­um áður séð frá fyrri rík­is­stjórn­um. Þing­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins munu ekki láta sitt eft­ir liggja bæði þegar og ef öll þessi mál ein­hvern dag­inn líta dags­ins ljós en vera ekki ein­ung­is á glan­s­pússuðum glærukynn­ing­um. En til þess að svo megi verða verður rík­is­stjórn­in að hætta að láta orðin tala og fara að láta verk­in tala.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. mars 2025.