7. mars 2025

Hver bað um selalaug?

Eftir umrót á vettvangi borgarstjórnar síðastliðnar vikur hefur nú myndast meirihluti fimm vinstriflokka í Reykjavík. Ég óska nýjum meirihluta velfarnaðar og vona að borgarbúum verði unnið gagn næstu mánuði. Því er þó ekki að neita að samstarfið byggist á því mynstri sem mér hugnaðist síst. Ástæðurnar birtast glöggt í nýjum málefnasamningi, sem í stuttu máli er ófjármagnað, ókostnaðarmetið og ótímasett orðagjálfur.

Hugmyndir nýs meirihluta í húsnæðismálum snúa í meginatriðum að uppbyggingu á óhagnaðardrifnu eða félagslegu húsnæði – og nýrri hjólhýsabyggð. Takmörkuð áform um að byggja í borginni heilbrigðan húsnæðismarkað fyrir meginþorra fólks, sem ekki þarf niðurgreitt húsnæði.

Eina mælanlega markmið sáttmálans er uppbygging 10.000 óhagnaðardrifinna íbúða í Úlfarsárdal í samvinnu við verkalýðsfélögin – en aðspurð sagði nýr borgarstjóri uppbygginguna geta tekið allt að 40 ár!

Samgönguvandann þekkjum við öll. Hann er viðvarandi og hefur farið stigversnandi ár frá ári. Áherslur nýs meirihluta í samgöngumálum eru samhengislausar og ótímasettar og ljóst að áfram mun ríkja ófremdarástand í samgöngukerfum borgarinnar. Það kemur niður á okkur öllum.

Nýr meirihluti leggst gegn uppbyggingu leikskóla á vinnustöðum foreldra og tryggir um leið að biðlistar eftir leikskólaplássum styttist ekki. Á borgarstjórnarfundi í vikunni var staðfest að borgin myndi ekki heimila Alvotech fyrirhugaða uppbyggingu leikskóla í Reykjavík. Það eru veruleg vonbrigði. Hér skortir skapandi hugsun og lausnamiðaða nálgun á þann viðvarandi leikskóla- og daggæsluvanda sem hefur íþyngt mörg hundruð fjölskyldum árlega um langt skeið.

Nýr meirihluti lýsir því yfir að fara skuli vel með opinbert fé en ber svo fram hverja útgjaldatillöguna á fætur annarri – eins og þá hugmynd að koma upp óumbeðinni 100 milljóna króna selalaug í Húsdýragarðinum. Hvergi er að finna aðgerðir í þágu atvinnulífs, en nýjan meirihluta virðist skorta grundvallarskilning á þeim veruleika að án kröftugrar verðmætasköpunar verður ekki unnt að standa undir allri velferðinni sem þær boða.

Málefnasamningurinn gefur því miður ekki góð fyrirheit fyrir framhaldið. Höfuðborgin hefði þurft kraftmikinn og framkvæmdaglaðan meirihluta sem hefði látið hendur standa fram úr ermum og ekki látið kreddur þvælast fyrir skynsemi og raunhæfum lausnum.

Við sjálfstæðismenn erum reiðubúin í verkefnið, hér eftir sem hingað til.

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur

Greinin birtist fyrst á Vísi 6. mars 2025.