Frasar og froðusnakk

7. mars 2025

'}}

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Aðgerðaáætlun nýs meirihluta Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna er rýr í roðinu og gefur litla hugmynd um hvernig borginni verður stjórnað þá fjórtán mánuði, sem eru til kosninga.

Nokkur eftirvænting ríkti á fundi borgarstjórnar 4. marz 2025 þegar meirihlutinn lagði fram aðgerðaáætlun sína til umræðna og afgreiðslu. Fljótlega kom þó í ljós að borgarfulltrúar nýs meirihluta hafa hvorki sameiginlega sýn á það hver séu brýnustu viðfangsefni borgarmála, né hvernig eigi að takast á við þau.

Fátt er um ferskar hugmyndir eða andagift í áætluninni en þeim mun meira um frasa og froðusnakk. Tillögur eru um ýmsa hluti, sem nú þegar eru til vinnslu, en á að skoða, finna leiðir, leita hugmynda, athuga, endurskoða, greina, kortleggja og jafnvel endurskipuleggja.

Litlar sem engar hugmyndir um raunverulega rekstrarhagræðingu er að finna í aðgerðaáætluninni. Ekki er t.d. minnst á hugmyndir um frekari útboð á þjónustu í hagræðingarskyni, sem þó hafa verið til skoðunar í borgarkerfinu. Ekki er að sjá að nein tillaga meirihlutans hafi verið kostnaðarmetin, hvað þá fjármögnuð.

Hugmyndaskortur í húsnæðismálum

Í aðgerðaáætluninni er ekki að finna skýra sýn á lausn hins gífurlega húsnæðisvanda, sem við er að etja í borginni. Sá vandi verður ekki leystur á einu ári en stíga mætti mikilvæg skref með því að hefja sem fyrst úthlutun almennra lóða fyrir þúsundir íbúða í Úlfarsárdal, Keldnalandi og á Kjalarnesi.

Nýi meirihlutinn stefnir að frekari kerfisvæðingu í húsnæðismálum í stað einfaldra lausna fyrir venjulegt fólk, sem vill koma sér þaki yfir höfuðið af eigin rammleik og án þess að þiggja niðurgreiðslur frá hinu opinbera.

Í tillögu um að vinna eigi gegn lóðabraski í Reykjavík, felst viðurkenning á því að húsnæðismálum í borginni hefur verið stefnt í mikið óefni undir stjórn vinstri flokkanna. Undir forystu Samfylkingarinnar hefur verið innleidd húsnæðisstefna, sem byggist á takmörkuðu lóðaframboði og hefur knúið fram miklar verðhækkanir á húsnæði. Afleiðingin er sú að fjöldi borgarbúa hefur litla möguleika á að eignast íbúð. Ekki verður annað séð en að nýr meirihluti hyggist halda sig við stefnu Samfylkingarinnar í húsnæðismálum og halda húsnæðisverði háu með öllum ráðum.

Ráðaleysi í samgöngum

Nýr meirihluti virðist hafa litla hugmynd um hvernig bæta megi almenna umferð eða almenningssamgöngur í Reykjavík. Hvorki er minnst á Sundabraut né úrbætur á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar, sem eru þó mjög brýnar framkvæmdir.

Í plagginu eru þó þarfar tillögur um bætta stýringu umferðarljósa, og endurskoðun reglna um bílastæði og íbúakort. Allt eru það tillögur, sem fluttar hafa verið af borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins en var vísað til skoðunar í rangölum borgarkerfisins af fráfarandi meirihluta.

Nýjum hugmyndum hafnað

Í plagginu kemur fram enn ein viljayfirlýsingin um að fjölga eigi leikskólarýmum, en án trúverðugra lausna. Meirihlutinn leggst gegn áhugaverðum hugmyndum um að fjölga dagvistar- og leikskólarýmum með auknu samstarfi við fyrirtæki. Ekki er minnst á eflingu dagforeldrakerfisins, sem ljóst er að gæti skilað miklum árangri.

Ekki kemur fram í áætluninni hvernig unnt sé að bæta almenna menntun í grunnskólum borgarinnar, sem mikil þörf er á, þar sem stór hluti nemenda hefur hvorki grunnfærni í lestri og stærðfræði, eftir tíu ár í grunnskóla. Orðin árangur og þekking koma hvergi fram í menntamálakafla áætlunarinnar.

Í áætluninni kemur ekki fram hvernig taka eigi á ýmsum brýnum málum, t.d. fjármálum borgarinnar, húsnæðismálum, dagvistarmálum, samgöngumálum og menntamálum. Ekki er minnst á mikilvægi verðmætasköpunar eða uppbyggingu í þágu atvinnulífsins.

Aðgerðaáætlun nýs vinstri meirihluta í Reykjavík er ekki gott leiðarljós fyrir starf borgarstjórnar fram að kosningum. Hún ber með sér kreddur, flækjur og harðari vinstri lausnir, án mælanlegra markmiða. Þar vantar stefnumál, sem bæta myndu líf almennra Reykvíkinga til muna.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. mars 2025.