Guðrún Hafsteinsdóttir var kjörin formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi hinn 2. mars 2025. Guðrún skrifaði þar með söguna en hún er fyrsta konan til að gegna embætti formanns í sögu flokksins sem spannar 96 ár. Guðrún og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir þingmaður og fyrrverandi ráðherra áttust við í æsispennandi kosningabaráttu, sem fór vel fram.
Guðrún hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu, bæði sem stjórnandi í rekstri og sem leiðtogi í samtökum atvinnurekenda. Hún hefur starfað sem markaðsstjóri Kjöríss og framkvæmdastjóri sama fyrirtækis. Auk þess hefur hún setið í stjórn og verið formaður stjórna fjölda fyrirtækja, lífeyrissjóða og félagssamtaka. Þar á meðal verið í stjórn og formaður stjórnar Samtaka iðnaðarins, og í stjórn, framkvæmdastjórn auk þess sem hún hefur verið varaformaður Samtaka atvinnulífsins.
Guðrún hefur verið alþingismaður Suðurkjördæmis fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá árinu 2021. Hún var dómsmálaráðherra 2023–2024. Hún hefur setið í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins, velferðarnefnd, allsherjar- og menntamálanefnd og Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
Guðrún er fædd á Selfossi 9. febrúar 1970. Dóttir Hafsteins Kristinssonar heitins, mjólkurverkfræðings og stofnanda Kjöríss, og Laufeyjar S. Valdimarsdóttur húsmóður. Guðrún býr með Hans Kristjáni Einarssyni Hagerup gullsmið. Börn Guðrúnar og Davíðs Jóhanns Davíðssonar eru Hafsteinn, Dagný Lísa og Haukur. Stjúpsynir hennar, synir Hans Kristjáns, eru Hans Patrekur, Elís Per og Nökkvi Már.