Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var kjörinn ritari Sjálfstæðisflokksins á 45. landsfundi flokksins í Laugardalshöll í dag en hann var einn í framboði til embættisins sem hann hefur sinnt frá kosningu á síðasta landsfundi. Hann verður því áfram í forystu Sjálfstæðisflokksins ásamt nýjum formanni, Guðrúnu Hafsteinsdóttur, og nýjum varaformanni, Jens Garðari Helgasyni.
Sjá frétt: Guðrún Hafsteinsdóttir nýr formaður Sjálfstæðisflokksins
Sjá frétt: Jens Garðar Helgason nýr varaformaður Sjálfstæðisflokksins
Vilhjálmur hlaut 573 þeirra 808 atkvæða sem bárust en það gerir 74,8 prósent gildra atkvæða. Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem hafði ekki gefið kost á sér í ritarann, fékk engu að síður 63 atkvæði og þá fékk Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogsbæ, 56 atkvæði eða 7,3 prósent gildra atkvæða.
Aðrir hlutu samtals 74 atkvæði en auðir og ógildir seðlar voru 43. Vilhjálmur Árnason er því réttkjörinn ritari Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur Árnason er 41 árs gamall Grindvíkingur sem hefur verið þingmaður suðurkjördæmis fyrir Sjálfstæðisflokksins síðan 2013. Hann er í dag formaður Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.