Kosningar og afgreiðsla á tillögum standa upp úr í dag

2. mars 2025

'}}

Runninn er upp sunnudagur á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2025 en í dag verður kosin ný forysta í flokknum. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Guðrún Hafsteinsdóttir fluttu báðar frábærar framboðsræður í gær og það sama gerðu þau Diljá Mist Einarsdóttir og Jens Garðar Helgason sem bjóða sig fram til varaformanns. Vilhjálmur Árnason er enn einn í framboði til ritara.

Kosning til formanns hefst kl. 11.30 og er búist við að nýr formaður Sjálfstæðisflokksins verði tilkynntur tæplega 13.00 í dag en eftir kosningu á formanni verður haldið til kosninga um varaformanns og svo ritara. Eftir kosningarnar verður gert hádegisverðarhlé áður en formenn landssambanda halda sínar ræður og nýr formaður lokar svo landsfundi með ávarpi sínu.

Það er þó ekki bara kosið í þessu embætti heldur lýkur kl. 11.00 í dag kosningum í stjórnir málefnanefnda en eins og kom fram í gær er gríðarlegur áhugi á sætum í þeim og miðstjórn þar sem 22 Sjálfstæðismenn berjast um sex sæti sem í boði eru í miðstjórn í gegnum landsfund.

Við minnum á að úrslitin verða í beinni útsendingu í streymi hér á vefnum sem og á Facebook og öðrum fréttamiðlum þannig enginn á að missa af þessari sögulegu stund þegar að fyrsta konan verður kosin formaður Sjálfstæðisflokksins.