Jens Garðar nýr varaformaður Sjálfstæðisflokksins

2. mars 2025

'}}

Jens Garðar Helgason er nýr varaformaður Sjálfstæðisflokksins en hann hafði betur í kosningu gegn Diljá Mist Einarsdóttur á 45. landsfundi Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöll í dag.

Alls skiluðu 1.750 manns atkvæðaseðli í kosningunni og hlaut Jens Garðar 928 atkvæði eða 53,2 prósent gildra atkvæða. Það var Birgir Ármannsson sem kynnti úrslitin rétt eins og í formannsslagnum og brutust út mikil fagnaðarlæti.

Diljá Mist hlaut 758 atkvæði eða 43,4% prósent gildra atkvæða og fékk hún einnig mikið lófatak frá spenntum landsfundargestum. Auðir og ógildir seðlar voru fjórir og þá hlaut einn annar eitt atkvæði.

Jens Garðar Helgason er því réttkjörinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins en hann tekur við embættinu af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur sem sóttist ekki eftir endurkjöri.

Jens Garðar, eða Jenni eins og hann er kallaður, er 48 ára gamall eskfirðingur og oddviti Sjálfstæðisflokksins í norðaustur kjördæmi. Hann var í bæjarstjórn Fjarðabyggðar 2006–2019, formaður bæjarráðs 2010–2018 en árið 2010 leiddi hann Sjálfstæðisflokkinn í Fjarðabyggð til sögulegs sigurs þar sem 64 ára valdatíð vinstri manna lauk. Hann situr nú á þingi.