Guðrún Hafsteinsdóttir nýr formaður Sjálfstæðisflokksins

2. mars 2025

'}}

Guðrún Hafsteinsdóttir er nýr formaður Sjálfstæðisflokksins en hún hafði betur í hnífjafnri kosningu gegn Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur á 45. landsfundi Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöll í dag.

Alls skiluðu 1.858 manns atkvæðaseðli í kosningunni og hlaut Guðrún 931 atkvæði eða 50,11 prósent. Það var Birgir Ármannsson sem kynnti úrslitin og urðu mikil fagnaðarlæti í salnum. Áslaug Arna hlaut 912 atkvæði eða 49,09 prósent og fékk hún einnig mikið lófatak frá stappfullri Laugardalshöllinni. Auðir og ógildir seðlar voru fjórir og þá hlutu aðrir fimmtán atkvæði.

Guðrún Hafsteinsdóttir er því réttkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins, sá tíundi í sögunni og fyrsta konan, en hún tekur við embættinu af Bjarna Benediktssyni sem kveður nú sem formaður eftir 16 ára valdatíð.

Guðrún Hafsteinsdóttir er 55 ára gamall Hvergerðingur sem hefur stýrt Kjörís um árabil en hún komst á þing sem fyrsti þingmaður suðurkjördæmis í Alþingiskosningunum 2021 og sat hluta af kjörtímabilinu sem dómsmálaráðherra.