Vilhjálmur Árnason, ritari Sjálfstæðisflokksins, fór með skýrslu ritara kl. 10.30 í stóra salnum í Laugardalshöll í dag á 45. landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Vilhjálmur ver að ljúka sínu fyrsta kjörtímabili, ef þannig má að orði komast, í þessari ábyrgðarstöðu flokksins en hann er einn í framboði um ritarann, enn sem komið er.
Suðurnesjamaðurinn fagnaði því hversu margir sækja fundinn í ár og talaði um kraftinn sem býr í flokknum, en viðurkenndi þó að hann saknaði margra félaga sem fengu ekki sæti á þessum fundi vegna mikillar eftirspurnar. ,,Við verðum að finna leiðir til að leyfa sem flestum flokksfélögum að upplifa þessa hátíð sem landsfundur er," sagði Vilhjálmur og bætti við:
,,Það liggja einmitt fyrir þessum á landsfundi ýmsar tillögur því tengdu og hefur málið meðal annars verið rætt í miðstjórn flokksins. Á undanförnum landsfundum hefur verið smátt og smátt verið fjölga þeim sem eru sjálfkjörnir á Landsfund með því að allir frambjóðendur í aðalsætum bæði í Alþingis- og sveitastjórnarkosningum eru sjálfkjörnir, síðan var formönnum allra félaga bætt við og þeim sem hafa verið kjörnir í sveitastjórnir í 12 ár eða meira svo dæmi séu nefnd."
Vilhjálmur fór svo aðeins á persónulegu nóturnar þegar hann talaði um mikið umbreytingarskeið, bæði í pólitíkinni og hans persónulega lífi, sem hefur átt sér stað síðan að hann tók við stöðu ritara. Ekki bara var ríkisstjórnin sprengd og flokkurinn kominn í stjórnarandstöðu heldur þá hafa jarðhræringar á Reykjanesinu haft mikil áhrif á heimabæ hans, Grindavík.
,,Þegar ég bauð mig fram sem ritara á síðasta landsfundi sagði ég ykkur að eitt það skemmtilegasta sem ég gerði væri að ferðast um og kynnast fólki um allt land," sagði Vilhjálmur er hann hóf að ræða flokksstarfið sem hann er hrifinn af. Hann er afskaplega duglegur að ferðast um landið og ræða við Sjálfstæðismenn. Hann bjóst við því að fá allskonar ábendingar um hvað mætti betur fara hér og þar en svo var ekki. Sjálfstæðismönnum langaði bara að ræða pólitík.
,,Fyrst um sinn heyrði ég nú bara ekki á það minnst og svo kom það einu sinni og einu sinni. Það sem sameinar okkur sem þessa öflugu heild sem við erum er hugsjónin, við erum öll hugsjónafólk sem brennum fyrir að gera samfélagið okkar betra. Það var það sem fólki þyrsti í að tala um, PÓLITÍK. Ég skildi það vel og tók því fagnandi. Ég heyrði um leið mikið ákall til okkar forystunnar og allra kjörinna fulltrúa flokksins, að við myndum tala skýrar og láta fólk finna að við værum að berjast fyrir okkar málum, okkar stefnu okkar gildum.," sagði Vilhjálmur.
Hann talaði um kraftinn í flokknum og hvernig þyrfti að virkja hann til að koma okkur aftur í forystu í landinu og þá þakkaði hann Bjarna Benediktssyni, fráfarandi formanni, sín störf sem og Þórdísi Kolbrúnu sem stíga nú bæði frá borði sem formaður og varaformaður. Vilhjálmur lauk skýrslu sinni á kraftmiklum orðum sem fylltu landsfundargesti eldmóði og gerðu þá klára fyrir það sem eftir lifir fundar, orð til að taka með sér inn í baráttuna.
,,Við skulum nýta tímann vel í stjórnarandstöðu með því að setja okkar áherslur skýrt á dagskrá, fá fólk aftur til liðs við okkur, fá fólk með okkur í baráttuna fyrir betra samfélagi með sjálfstæðisstefnuna á lofti. Það gerum við með því að liggja ekki á skoðunum okkar og vera dugleg að segja frá því flotta starfi sem við erum öll að vinna um allt land. Kæru vinir, ég hlakka til að sjá kraft Sjálfstæðisflokksins berast um landið með flokksfélögunum og sólina rísa úr sæ," sagði Vilhjálmur Árnason í skýrslu sinni.
Skýrsla Vilhjálms Árnasonar í heild sinni:
Kæru landsfundarfulltrúar – þvílíka hátíðin – það er svo gaman að vera með ykkur hér í dag.
En mikið sakna ég þeirra fjölmörgu félaga okkar sem vildu vera hér í dag en fengu ekki úthlutað landsfundarsæti. Við verðum að finna leiðir til að leyfa sem flestum flokksfélögum að upplifa þessa hátíð sem landsfundur er.
Það liggja einmitt fyrir þessum á landsfundi ýmsar tillögur því tengdu og hefur málið meðal annars verið rætt í miðstjórn flokksins. Á undanförnum landsfundum hefur verið smátt og smátt verið fjölga þeim sem eru sjálfkjörnir á Landsfund með því að allir frambjóðendur í aðalsætum bæði í Alþingis- og sveitastjórnarkosningum eru sjálfkjörnir, síðan var formönnum allra félaga bætt við og þeim sem hafa verið kjörnir í sveitastjórnir í 12 ár eða meira svo dæmi séu nefnd.
Ég tel því mikilvægt að við stígum áfram skref í þessa átt á þessum landsfundi og hefjum strax undirbúning að enn stærri breytingum sem opna landsfund enn frekar fyrir áhugasömum flokksfélögum og gefur fleirum möguleika á að taka þátt í kosningum og málefnastarfi á Landsfundi. Við erum lýðræðisflokkur og verðum að þróast sem slíkur.
Þessi tímamót sem við stöndum á nú gefa okkur tækifæri til að taka samtalið um skipulagsbreytingar sem opna landsfundinn fyrir fleiri flokksfélögum og þá um leið hleypt enn fleirum að kjöri forystunnar. Ræða þarf hvort málefnastarfið ætti að vera skipt upp í fleiri minni nefndir eða hvernig við getum gert það að enn meiri málstofum á milli landsfunda.
Alltaf þurfum við samt að hafa í huga. Landsfundinn og þann kraft sem við finnum öll svo skýrt hér þarf að varðveita. Landsfundurinn og það sem honum tengist hefur kveikt gríðarlegt líf innan flokksins, yfirtekið fjölmiðlana – afhent okkur ákveðið dagskrárvald þannig að við erum öfunduð af öðrum stjórnmálaflokkum. Ég er sannfærður um að krafturinn og upplifun fólks af landsfundi hafi sannfært marga fyrir lífstíð um að þeir væru á réttum stað í takt við hjartað.
Það er óhætt að segja að margt og mikið hafi verið í gangi á pólitíska sviðinu þau rúmu tvö ár sem ég hef verið ritari Sjálfstæðisflokksins. Þetta hefur verið fjölbreyttur og skemmtilegur tími en um leið krefjandi líka. Bæði í stjórnmálunum og í mínu persónulega lífi. Það hefur verið ómetanlegt að finna kraftinn og stuðninginn innan flokksins í öllum þeim verkefnum sem koma upp, þið fólkið sem eruð Sjálfstæðisflokkurinn eruð miklu öflugri en þið áttið ykkur á. Takk fyrir ykkur!
Þegar ég bauð mig fram sem ritara á síðasta landsfundi sagði ég ykkur að eitt það skemmtilegasta sem ég gerði væri að ferðast um og kynnast fólki um allt land og fá að kynnast því sem fólkið í landinu er að takast á við í sínu daglega lífi. Hef ég því lagt áherslu á að fara sem víðast og hitta ykkur fólkið í flokknum, vera í góðum samskiptum og alltaf með opna línu til mín. Til dæmis þá sótti ég mitt þriðja kjördæmisþing Norðausturkjördæmis í röð á dögunum.
Þar voru komnir saman yfir 80 flokksmenn fullir eldmóðs til að láta gott af sér leiða til samfélagsins í gegnum félagsstarf Sjálfstæðisflokksins með sjálfstæðisstefnuna að vopni. Regluleg samskipti við fólkið í flokknum og stöðugt samtal er nauðsynlegt til að finna hjartsláttinn í flokknum, finnur maður þá fljótt taktinn í þjóðfélaginu, sem er dýrmæt reynsla fyrir okkur kjörnu fulltrúana.
Ég fann það fljótt þegar ég fór um að hitta stjórnir sjálfstæðisfélaganna, mæta á opna fundi og eiga samtal við flokksfélagana hvað það var sem lá fólki helst á hjarta. Ég átti von á að nú fengi ritarinn lesturinn um allt sem þyrfti að gera betur í skipulaginu, hvaða viðburði þyrfti að halda og hvernig fundasköpin ættu að vera. Svona þessa þætti sem margir tengja helst við orðið innra starf.
Fyrst um sinn heyrði ég nú bara ekki á það minnst og svo kom það einu sinni og einu sinni. Það sem sameinar okkur sem þessa öflugu heild sem við erum er hugsjónin, við erum öll hugsjónafólk sem brennum fyrir að gera samfélagið okkar betra. Það var það sem fólki þyrsti í að tala um, PÓLITÍK. Ég skildi það vel og tók því fagnandi. Ég heyrði um leið mikið ákall til okkar forystunnar og allra kjörinna fulltrúa flokksins, að við myndum tala skýrar og láta fólk finna að við værum að berjast fyrir okkar málum, okkar stefnu okkar gildum.
Þjóðfélagsumræðan breyttist mikið eftir efnahagshrunið, tortryggnin í samfélaginu jókst á sama tíma að samfélagsmiðlar komu inn á sviðið og umræðuvettvangurinn breyttist. Þarna má segja að við höfum aðeins hikstað, leyft öðrum að skilgreina okkur og það tók tíma að fóta sig i nýjum heimi umræðunnar.
Framtakssamt fólk innan flokksins hefur nú heldur betur leyst úr þessum málum, félagar innan sjálfstæðisfélaganna um allt land hafa efnt til fjölbreyttra viðburða til að ræða hugsjónina, kjörnir fulltrúar hafa mótað sínar leiðir til að miðla málum og má ég nefna okkar öflugu hlaðvarpsfélaga sem eru hér á fundinum og standa fyrir hlaðvörpum eins og þjóðmál, Spursmál, Komið Gott, Ein pæling og Stöngin Inn svo nokkur séu nefnd. Framtak allra þessa góðu flokksfélaga okkar hefur umbreytt hugmyndafræðilegri þjóðmálaumræðu og held ég að við ættum að þakka þeim kærlega fyrir þetta dýrmæta framlag með góðu lófaklappi.
En, það er einmitt skýr pólitísk umræða þar sem hugmyndafræðin er í forgrunni sem skapar mesta lífið í flokknum okkar. Þegar það eru pólitísk átök um málefnin í samfélaginu og einnig þegar við erum að velja okkur pólitíska forystu hvort sem það er í prófkjörum eða hér á landsfundinum þá er innra starfið okkar hvað öflugast. Verkefnið okkar allra er því skýrt. Sameinumst um að tala hátt og skýrt um okkar pólitísku stefnu og þá verður gaman, það þarf nefnilega alltaf að vera gaman.
Ég nefndi að við þyrftum að koma saman sem ein rödd. Hef ég því lagt mikla áherslu á að kjörnir fulltrúar flokksins í sveitarstjórnum og á Alþingi séu fulltrúar flokksins á tveimur jafnréttháum stjórnsýslustigum sem koma mun sterkari fram sem talsmenn flokksins sem ein heild undir heitinu kjörnir fulltrúar flokksins. Höfum við því búið okkar til umræðuvettvang, verið settir á fót reglulegir samráðsfundir og markvist reynt að auka samskipti innan hópsins þvert á kjördæmi og sveitarfélög.
Þetta á líka við formenn félaga og alla sem sinna trúnaðarstörfum innan flokksins. Pælið í mannauðnum sem við búum yfir og ef við erum tilbúin í að standa við bakið á hvort öðru í okkar verkefnum hvað við myndum þá stóra og sterka heild. Margir eru farnir að huga að sveitastjórnarkosningunum eftir rúmt ár. Þess má sjá merki í málefnavinnunni hér þar sem jafnvel kjörnir fulltrúar taka sig saman um að setja á dagskrá mál sem skipta máli heima í sveitarfélögunum og bæði stjórnsýslustigin geta haft áhrif á. t.a.m. samgöngumál, íþrótta- og skólamál svo eitthvað sé nefnt.
Ragnar formaður sveitastjórnarráðsins og Þórður framkvæmdastjóri og starfsfólkið okkar í Valhöll ásamt þingflokksformanninum og starfsfólkið okkar í þingflokknum hafa verið mjög virk í þessu starfi með okkur í forystunni. Þetta þurfum við að byggja enn frekar upp.
Ég vil leyfa mér að segja að flokksstarfið okkar sé öflugt og fjölbreytt. Starfið oft misvirkt eftir tímum og svæðum. Ég hef starfað lengi innan flokksins mun lengur en ég lít út fyrir að vera gamall. En eftir að hafa verið á Alþingi í 12 ár, farið í 5 hringferðir með flokknum og fylgst með starfinu úr sæti ritara hefur maður séð enn betur hversu megnug þið fólkið í flokknum er. Að halda úti öllu þessu reglulega flokksstarfi, félagsheimilum um land allt, standa að öllum prófkjörum, kosningabaráttum, kjördæmisráðum, aðalfundum og félagsfundum, undirbúa landsfund og lengi mætti telja. Þetta er ómetanlegt.
Kristrún Frostadóttir kom í pontu á Alþingi einu sinni og sagðist hafa haldið átta fundi um land og rætt um heilbrigðismál. Ég veitti henni þá andsvar og óskaði henni til hamingju með fundina en benti henni á að Sjálfstæðisflokkurinn hélt tíu fundi á laugardeginum þar sem öll helstu mál samfélagsins hafa verið rædd. Allir föstu laugardagsfundirnir eru magnað fyrirbæri, þar hefur oft verið í boði að koma til fundar við hálfa ríkisstjórnina, forsvarsmenn mikilvægra stofnanna samfélagsins, kjörna fulltrúa ,fulltrúa atvinnulífsins og marga aðra sem eru að leggja sitt af mörkum við að gera samfélagið okkar betra.
Það er hægt að halda lengi áfram, páskaeggjaleit, árshátíðir, kótilettukvöld, málefnafundir, þorrablót, bæjarmálafundir, metnaðarfull blaðaútgáfa sem hefur oft varið í áratugi. Svona gæti ég haldið endalaust áfram þið þekkið þetta enda fólkið sem standið fyrir þessu öllu saman.
Svo koma alltaf upp áskoranir innan flokksstarfsins, ekki allir sáttir, meirihlutaviðræður, vandamál í meirihlutasamstarfi, umsýsla með málefni félaganna og húsnæðismál þeirra. Þá höfum við í forystunni og ekki síst Þórður og hans fólk í Valhöll verið tilbúin að gera það sem við getum til að aðstoða.
Ég vil þakka Þórði Þórarinssyni og hans öfluga starfsfólki kærlega fyrir frábært samstarf s.l. ár, þau hafa alltaf verið boðin og búin til að aðstoða, veita upplýsingar og grípa verkefnin. Það er ekki hægt að telja símtölin, fundina og tölvupóstana bara núna síðustu daga og vikur sem hafa farið í gegnum Valhöll til að tryggja að allt gangi upp hjá hátt í 200 flokkseiningum, fjöldi miðstjórnarfunda, öll málefnavinan og undirbúningurinn fyrir þennan landsfund. Innilegar þakkir til þeirra.
Það hefur verið gott, heiðarlegt og traust samstarf okkar í forystunni. Ég mun sakna Bjarna og Þórdísar mikið sem tóku tuðinu í ritaranum alltaf vel, voru alltaf meðvituð um stöðuna og ákallið í flokknum. Það hefur verið heiður og mikill skóli að fá að starfa með öflugasta stjórnmálaforingja landsins, læra af hans fagmennsku, yfirvegun og réttsýni. Alltaf á vaktinni að við færum ekki út af sporinu út af smá ágjöf sem gengi yfir. Það skipti máli að vera traust og skynsöm, að við sýnum ábyrgð og mætum áskorunum. Ég fæ að starfa áfram með Þórdísi í þinginu en Bjarni tekur sér nú frí frá pólitíska sviðinu. Ég þakka þeim báðum og fjölskyldum þeirra innilega fyrir sýn frábæru störf fyrir Sjálfstæðisflokkinn og þjóðina alla.
Kæru landsfundargestir
Öll höfum við svo metnað til að gera betur í dag en í gær. Halda áfram að efla starfið, halda áfram að þróa nýjar leiðir til að koma skilaboðum okkar út til fólksins. Að við séum sá borgaralegi flokkur sem meirihluti landsmanna á að getað fundið sýnum hugsjónum stað. Að við séum flokkur allra stétta sem vill tryggja að allir hafi sömu tækifæri, tækifæri til að taka ábyrgð, njóta frelsis til athafna og leggja á sig til að tryggja velferð og hag fjölskyldu sinnar.
Horfið bara í kringum ykkur hér í salnum og sjáið hver við raunverulega erum. Þverskurður á íslensku samfélagi og sameinumst í að vilja ná árangri fyrir alla og ætlum við að byggja framtíð þeirra á traustum grunni.
Við skulum nýta tímann vel í stjórnarandstöðu með því að setja okkar áherslur skýrt á dagskrá, fá fólk aftur til liðs við okkur, fá fólk með okkur í baráttuna fyrir betra samfélagi með sjálfstæðisstefnuna á lofti. Það gerum við með því að liggja ekki á skoðunum okkar og vera dugleg að segja frá því flotta starfi sem við erum öll að vinna um allt land. Kæru vinir, ég hlakka til að sjá kraft Sjálfstæðisflokksins berast um landið með flokksfélögunum og sólina rísa úr sæ.