Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hélt sína síðustu ræðu sem varaformaður flokksins á landsfundi í dag og er óhætt að segja að hún hafi farið á kostum. Þórdís hélt magnaða ræðu þar sem hún fór yfir sviðið og var einnig á persónulegu nótunum. Þórdís kveður nú sem varaformaður á sama tíma og samferðamaður hennar Bjarni Benediktsson hætti sem formaður.
,,Ég lofaði sjálfri mér, fyrir mörgum árum síðan, að ég myndi beita mér sem áhrifamanneskja í flokknum í því að í forystu hans væri pláss fyrir margar sterkar konur. Ég sá mig sannarlega fyrir mér sem formaður Sjálfstæðisflokksins. En við erum hér á þessum fundi að velja okkur nýjan formann, val á milli tveggja öflugra, ólíkra forystumanna, á milli tveggja kvenna. Og ég er stolt að hafa átt minn þátt í því að við erum loksins, eftir 95 ár að kjósa konu sem formann Sjálfstæðisflokksins," sagði Þórdís Kolbrún undir miklu lófataki í Laugardalshöll.
Hún ræddi um fjölskyldu sína; föður sinn bifvélavirkjann, móður sína sjúkraliðann og bræður sína sem hafa veitt henni mikinn innblástur í gegnum tíðina, bæði í leik og starfi. ,,Pabbi er bifvélavirki. Hann byrjaði að vinna í Járnblendiverksmiðjunni þegar hún opnaði. Vann mikið og vann sig upp. Hann stofnaði svo eigið þjónustufyrirtæki upp úr aldamótum. Það er áhætta og álag að bera ábyrgð á rekstri, sinna viðskiptavinum vel og bera ábyrgð á lífsafkomu fólksins sem maður hefur fengið til liðs við sig. Bæði mamma og pabbi - hvort á sinn hátt - hafa ekki skorast undan því að hafa fyrir hlutunum. Ef maður vill njóta raunverulegs frelsis þá getur maður ekki ætlast til þæginda. Né að aðrir sjái um það fyrir mann," sagði Þórdís.
Ræða Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur í heild sinni
Kæru vinir.
Tíminn líður og hann líður hratt.
Þau tæplega tuttugu ár sem ég hef starfað í Sjálfstæðisflokknum hafa verið fljót að líða.
Kannski af því þau hafa verið bæði viðburðarík og brjálæðislega skemmtileg.
En kannski vegna þess að það er í eðli okkar mannfólksins að finnast tíminn vera ótrúlega fljótur að líða þegar maður lítur til baka.
***
Ég lofaði sjálfri mér, fyrir mörgum árum síðan, að ég myndi beita mér sem áhrifamanneskja í flokknum í því að í forystu hans væri pláss fyrir margar sterkar konur. Ég sá mig sannarlega fyrir mér sem formaður Sjálfstæðisflokksins. En við erum hér á þessum fundi að velja okkur nýjan formann, val á milli tveggja öflugra, ólíkra forystumanna, á milli tveggja kvenna. Og ég er stolt að hafa átt minn þátt í því að við erum loksins, eftir 95 ár að kjósa konu sem formann Sjálfstæðisflokksins.
***
Kæru vinir.
Ég kem ekki frá flokkspólitísku heimili eins og ég hef áður sagt ykkur
– en ég ólst upp við sterk og skýr gildi.
Bæði mamma og pabbi – hvort á sinn hátt – hafa ekki skorast undan því að hafa fyrir hlutunum.
Mamma hefur helgað starfsævi sína því að sinna sjúkum – sjúkraliðastarfið er krefjandi.
Það þarf að taka vaktirnar hvort sem maður er sjálfur upplagður eða ekki. Það þarf að sinna öllum vel, hvort sem sjúklingarnir eru þægilegir eða erfiðir.
Til þess að hjálpa og styðja aðra – aldrei til þess að upphefja sjálfan sig.
Heldur að gera skyldu sína, þjóna öðrum, lina þjáningar – gera gagn.
***
Pabbi er bifvélavirki. Hann byrjaði að vinna í Járnblendiverksmiðjunni þegar hún opnaði. Vann mikið og vann sig upp.
Hann stofnaði svo eigið þjónustufyrirtæki upp úr aldamótum. Það er áhætta og álag að bera ábyrgð á rekstri, sinna viðskiptavinum vel og bera ábyrgð á lífsafkomu fólksins sem maður hefur fengið til liðs við sig.
Ef maður vill njóta raunverulegs frelsis þá getur maður ekki ætlast til þæginda. Né að aðrir sjái um það fyrir mann.
***
Og ég hef líka lært margt af bræðrum mínum
– einn er sjúkraflutningamaður, annar er flugmaður og hinn er einhvers konar fjármálamógúll
– allir ótrúlega duglegir, greindir, útsjónarsamir, hvetjandi, skemmtilegir – og góðir við systur sína.
Þeir eru vinir mínir og ég ber mikla virðingu fyrir þeim.
***
Sonur minn var átta mánaða þegar ég hóf störf fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem kosningastjóri og í framhaldinu framkvæmdastjóri þingflokksins. Hann verður 13 ára í sumar og er hérna í salnum, stoltur af mömmu sinni. Áhugasamari um stjórnmálin en meðalkjósandi og spyr ótrúlegra spurninga um samfélagið okkar og umheiminn, elsku hjartakallinn minn.
Dóttir mín verður níu ára í haust. Hún var 10 daga gömul þegar ég var kjörin á alþingi. Hún var 11 vikna þegar ég varð ráðherra, sendandi brjóstamjólk með ráðherrabílnum heim til þeirra feðgina. Hún þekkir ekki annað, sjálfstæða, hugrakka stelpan mín, sem er glöð að fá meiri tíma með mömmu sinni.
Þau eru hamingjusöm, örugg. Og búa í einu farsælasta samfélagi veraldar.
Samfélagi, sem Sjálfstæðisflokkurinn á mjög stóran þátt í að hafa búið til.
***
En mín helsta jarðtenging er eiginmaður minn – kletturinn úr Grindavík sem aldrei bregst, segir það sem hann hugsar, yfirvegað þó – stunum þannig að það er næstum því pirrandi. Deilir ástríðu minni fyrir frelsinu – og lætur ekkert koma sér úr jafnvægi.
Víðslesinn og klár – og stendur með konunni sinni þótt hún sé ekki sú auðveldasta eða einfaldasta.
***
Jájá, ég er örlítið væmin að vera að tala hér um fjölskylduna mína –
en þar sem ég stend nú hér í síðasta skipti í þessu hlutverki þá segi ég bara á góðri íslensku – þetta er það sem mig langar að segja núna;
Deal with it.
***
Þetta skiptir nefnilega allt máli. Það er úr þessu umhverfi sem lífsviðhorf mitt hefur mótast og það er þetta umhverfi sem leiddi mig út á þá hálu braut að taka þátt í stjórnmálastarfi fyrir þessum tæplega tuttugu árum.
Ég vissi fyrir hvað ég stóð og það hefur ekki breyst.
***
Ástæðan fyrir því að ég fór að taka þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins er að hann endurspeglar best nákvæmlega þessi lífsviðhorf og gildi.
Og þótt ég hafi engan þekkt í flokknum þá fannst mér strax að ég þar væri ég á réttum stað. Ég fann að ég var velkomin.
Hér er alls konar fólk – og hér geta allir sem vilja og leggja sig fram haft áhrif.
Og ólíkt því sem andstæðingar flokksins vilja halda fram, þá fá hér allir tækifæri.
Jú – hér er fólk sem tilheyrir fjölskyldum sem hafa átt þátt í starfi flokksins í margar kynslóðir.
Og já – Sjálfstæðisflokkurinn þarf ekki að fara í felur með þá staðreynd að við hlustum eftir þörfum atvinnulífsins og skiljum mikilvægi verðmætasköpunar.
En fyrst og fremst er þetta venjulegt og gott fólk – fólk sem skilur og lifir í samræmi við þau sömu gildi sem ég ólst upp við .
Fólk hefur ákveðið að taka þátt í móta samfélagið sitt, leggja góðum málefnum lið – vinna í þágu frelsisins. Fólk sem vill fá tækifæri – vill gera gagn.
***
Sjálfstæðisflokkurinn stendur á grunni sterkustu og mikilvægustu gilda fyrir manneskjuna sjálfa.
Þótt ég hafi ekki alist upp í Sjálfstæðisflokknum þá hef ég alltaf verið sjálfstæð.
Og fyrir mér skiptir frelsið öllu.
Að vera frjáls til þess að hugsa, til þess að tjá mig.
Til þess að fara þangað sem ég vil, til þess að læra það sem ég vil, til þess að kynnast nýju fólki, til þess að móta mínar eigin skoðanir.
Og til þess að vera óútreiknanleg – meira að segja til þess að vera skrítinn nörd.
Frelsið – raunverulegt frelsi – er kjarninn í öllu því sem ég hef viljað standa fyrir sem stjórnmálamaður og sem manneskja.
Sjálfstæðisflokkurinn verður fyrst og fremst að standa fyrir það markmið að gefa manneskjunni tækifæri til að vera frjáls – að hún njóti frelsis til að lifa sínu lífi til fullnustu, frelsi til að hugsa, gagnrýna, ráða sér sjálf og skapa.
Frelsi til að nýta krafta sína, afla sér menntunar og stofna fyrirtæki.
Frelsi til að leita réttar síns fyrir sjálfstæðum dómstólum. Frelsi til að komast af með aðstoð samfélagsins, sumar meira en aðrar, því það gera sterk samfélög.
***
Frelsið er yndislegt – við syngjum það og við meinum það.
Ég verð ekki oft reið – en þegar ég horfi upp á tilraunir til þess að kúga fólk, steypa það í sama mót, skipta sér af einkalífi þeirra, reyna að stjórna því hvað það hugsar, hvað það segir – eða vera með meiningar um hvern það elskar – þá brjálast ég inn-an í mér eins og Svanhildur Hólm segir.
Eru þetta ekki svoldið það lím sem bindur okkur saman hér í þessum sal?
Kannist þið ekki mörg við þessar tilfinningar?
Er það ekki – þegar öllu er á botninn hvolft – ástin á frelsinu og óbeit á hvers konar kúgun sem sameinar okkur?
***
Það er kjarninn.
Frelsið er kjarninn.
Allt annað er útfærsluatriði.
***
Kæru vinir.
Tíminn er fljótur að líða.
Ég stend hér í dag eftir að hafa stuðning ykkar til þess að gegna embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins í sjö ár.
Fengið tækifæri til þess að gegna embættum utanríkisráðherra, fjármálaráðherra, dómsmálaráðherra og ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Mér hefur verið treyst til að hafa forystu um verkefni í samfélaginu sem hafa gert okkur sterkari og ég hef aldrei farið fram á annað en að vera dæmd af verkum mínum. Ekkert af þessu hefði ég getað gert án umboðs frá ykkur. Án trausts, stuðnings og samvinnu.
Af öllu hjarta; takk fyrir traustið.
***
Og ég er stolt af því að hafa staðið vaktina í næstum sjö ár með Bjarna Benediktssyni í forystu flokksins. Hann hefur verið vinur í gleði og í raun. Skynsamur og yfirvegaður liðsmaður, alltaf léttur, eiginlega óþolandi léttur alltaf, útsjónarsamur með stórt hjarta.
***
Og varðandi tímann – hafið þið tekið eftir því að hraði tímans er ekki alltaf sá sami?
Og kannski er þetta í fyrsta skipti sem vitnað er í Lenín úr þessari pontu – en þar sem ég er ekki að smala atkvæðum þá ætla ég að leyfa mér það.
Stundum líða áratugir þar sem ekkert gerist, og svo eru vikur þar sem áratugir líða – er haft eftir honum.
Kæru Sjálfstæðismenn.
Við gætum verið að lifa slíka tíma í heimssögunni – og slíkir tímar gera miklar kröfur til okkar sem gegnum ábyrgðarstöðum í samfélaginu.
Allir þeir sem vilja njóta frelsis þurfa að hafa fyrir því.
Og allar þjóðir sem vilja vera fullvalda og sjálfstæðar þurfa að vanda sig.
Þegar ég stóð í herbergi sonar míns, seint að kvöldi, að undirbúa stuðning við bandamenn sem vildu senda gömul vopn til Úkraínu tveimur sólarhringum eftir innrás Rússa hugsaði ég að svona ætti tíminn ekki að fara með okkur.
Ég upplifði strax og sterkt að uppvaxtarár og framtíð þeirra kynslóðar yrði allt öðruvísi en minnar.
Ég hét sjálfri mér því að vanda mig, taka ábyrgð minni alvarlega og ég vissi að þessi nýi veruleiki myndi kalla á nýjar ákvarðanir og breytingar.
Að það yrði áskorun að koma því leiðar, jafnvel í flokknum okkar, og í samfélaginu okkar – okkar sem höfum lært frá blautu barnsbeini að við séum …svo langt frá heimsins vígaslóð.
Vonandi verður það þannig áfram – en þeir sem leyfa sér að láta von koma í veg fyrir varkárni eru að vanrækja skyldur sínar.
***
Kæru Sjálfstæðismenn
Tími alvörunnar er runninn upp.
Tími þegar leiðtogar þurf að vera undirbúnir til þess að taka stórar ákvarðanir með hraði, en fljótfærni getur verið banvæn.
Tími þegar við þurfum að gæta að sjálfstæði okkar, en þurfum meira en nokkru sinni fyrr á samvinnu við aðrar þjóðir að halda.
Tími þar sem þörf er á meiri stjórnmálum og minni pólitík.
Tími þar sem við þurfum að hafa það algjörlega á hreinu að frelsið og sjálfstæðið er meira virði heldur en allur heimsins auður.
Já – við gætum verið að upplifa tíma þar sem það skiptir máli að hafa þessa forgansröðun á hreinu.
Það getur þurft að fórna þægindum fyrir frelsið – og við gætum þurft að færa efnahagslegar fórnir fyrir frelsið. Það er raunveruleiki sem við þurfum að vera tilbúin að skilja.
En kæru vinir – óþægindi og fjárhagslegar fórnir kunna á komandi árum að verða algjörir smámunir í samhengi hlutanna.
Því forsenda frelsis er blessaður friðurinn.
Út um alla Evrópu standa vinir okkar frammi fyrir miklu ískyggilegri valkostum – og þá er ég ekki bara að tala um hetjurnar sem verja Úkraínu – ekki bara vini okkar í Eystrasaltstríkjunum sem óttast kúgunarvald Rússlands – heldur líka okkar allra nánustu fjölskyldu í alþjóðasamfélaginu – Danmörk, Norðmenn, Svía og sérstaklega Finna.
Spurningin sem fólk í þessum löndum þarf að spyrja sig snýst ekki um fjárhagslegar fórnir eða þægindi.
Hún er einföld – en hrikaleg.
Er ég tilbúin til þess að deyja til þess að verja frelsi mitt, sjálfstæði þjóðarinnar og framtíð barnanna minna?
Sem betur fer er afskaplega ólíklegt að Íslendingar þurfi að standa frammi fyrir öðrum eins hörmungarkostum. Til þess erum við of heppin.
En það minnsta sem við getum gert er að sýna stuðning og virðingu – í verki – því gleymum því ekki að bandamenn okkar hafa margir lofað að færa aðrar eins fórnir fyrir frelsi Íslands eins og sínar eigin þjóðir.
Kæru Sjálfstæðismenn.
Það á alls ekki vera forgangsmál fyrir Ísland að reyna að sleppa billega ef til þess kemur að verja þurfi frelsi og frið í heiminum með hrikalegum fórnum. Þvert á móti eigum við að leggja okkur fram um að vera verðugir bandamann, góðir og traustir vinir og leita allra leiða til þess að styðja það sem er satt – og rétt – og gott í þessum heimi.
***
Sjálfstæðisflokkurinn þarf meira en nokkru sinni fyrr að rísa undir því hlutverki sínu að vera akkeri í íslenskum stjórnmálum og samfélagi
– að taka hlutverk sitt alvarlega, kunna að fóta sig í ólgusjó, skilja bæði samfélagið okkar og umheiminn
– að fara ekki á taugum
– að halda sínu striki, veita forystu og falla ekki í þann pytt að festast í hvers kyns kreddum eða eltast við tímabundnar geðshræringar í von um stundarfylgi
– horfa á stóru myndina en tapa sér ekki í dægurþrasi.
Nú er tími þar sem við þurfum að vita fyrir hvað við stöndum – og í mínum huga er það skýrt.
Við stöndum fyrir frelsi og við stöndum með frelsinu. Sá sem æskir frelsis þarf að sýna með gerðum sínum að hann eigi frelsið skilið.
Við eigum bandalagsþjóðir í þeirri baráttu – og við förum ekki í felur með hvar við stöndum. Þvert á móti. Við leitum allra leiða til þess að vera verðugir bandamenn og leggja okkar af mörkum.
Við erum eyja – en ekki eyland – og eins og Bjarni Benediktsson eldri sagði fyrir rúmum sjötíu árum þá er það beinlínis „fásinna að láta sem svo að baráttan milli frelsis og kúgunar, lýðræðis og áþjánar komi okkur ekki við.“
Kæru vinir. Ég segi þetta með djúpri sorg í hjarta – og ég vildi óska þess að ég þyrfti ekki að segja það. Núverandi stjórnvöld í Bandaríkjunum eru ekki málsvarar raunverulegs frelsis.
Þau eru að leika sér að eldinum, og eru jafnvel þegar farin að brenna niður mikilvæga þætti af þeirri heimsmynd sem er grundvöllur friðar og frelsis fyrir okkur, fyrir Evrópu og fyrir Bandaríkin sjálf.
Ég hef trú á Bandaríkjunum og ég hef trú á Bandaríkjamönnum – en látið ekki blekkjast. Það sem er að gerast þar núna er ekki gott fyrir heiminn, ekki gott fyrir Evrópu, ekki gott fyrir Ísland og ekki gott fyrir Bandaríkin sjálf. Það mun vonandi ekki líða langur tími þar til Bandaríkin skipta um kúrs – því þau stefna svo sannarlega í ranga átt núna.
Og ég er handviss um að sagan muni fara óblíðum höndum um þau sem láta blekkjast af því sem við erum að horfa upp á.
***
Kæru vinir.
Megi Ísland áfram fá að búa við öryggi, frelsi og frið.
Megi Sjálfstæðismönnum bera gæfu til að standa fremstir í að tryggja að svo megi verða. Og bregðast við af ábyrgð, alvöru, kjark og hugrekki ef á reynir.
Megum við áfram vera raunverulega frjáls, og halda áfram að njóta þeirrar einstöku gæfu að fá að búa í farsælu, öruggu og réttlátu samfélagi – í þessu himneska landi sem við eigum saman.
Takk fyrir – og takk fyrir mig.