Ragnar Sigurðsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð og formaður sveitarstjórnarráðs Sjálfstæðisflokksins:
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins, stærsta pólitíska samkoma landsins, er handan við hornið og eðlilega ríkir eftirvænting í röðum flokksmanna. Meginverkefni hans er að velja nýja forystu, skerpa á stefnu og þétta raðir fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.
Styrkur flokksins sést á þeim glæsilegu frambjóðendum sem gefa kost á sér til formennsku. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Guðrún Hafsteinsdóttir eru konur sem hafa gengið inn með gusti í íslenska pólitík. Að þeim báðum er sómi.
Langstærsti stjórnmálafundur landsins
Engin tilviljun er að allir fjölmiðlar fylgjast grannt með formannskjörinu. Það skiptir miklu þegar langstærsti stjórnmálafundur landsins velur forystu. Ég er stoltur af því að tilheyra stjórnmálaflokki þar sem raunveruleg samkeppni ríkir um formannsembætti og önnur trúnaðarstörf. Mikill áhugi á fundinum sýnir Sjálfstæðisflokkinn lifandi vettvang þeirra sem vilja láta til sín taka. Fólk sækist eftir þátttöku, því þar gefst einstakt tækifæri til að hafa áhrif á framtíð flokks og þjóðar. Í krafti lýðræðis er tekist á um menn og málefni en að endingu göngum við sameinuð frá fundi. Skiptar skoðanir auka kraft fremur en að draga úr, svo lengi sem kappið sundrar ekki.
Enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi getur státað af jafnöflugri þátttöku og brennandi áhuga á stefnumótun á landsfundi.
Formannsframbjóðendurnir hafa lagt kapp á að kynna sig og fyrir hvað þeir standa. Að sama skapi kynna stuðningsmenn af hvaða sökum þeir eru best til forystu fallnir. Eðlilega er tekist á um sjónarmið, og stöku sinnum hitnar í kolunum meðal landsfundargesta þegar tekist er á um skoðanir og reynt að sannfæra flokksmenn um kosti frambjóðenda.
Mikilvægasta verkefnið
Það má þó aldrei gleymast að mikilvægasta verkefnið hefst að loknum landsfundi: Að standa sameinuð að baki forystu flokksins – hver sem hún verður – og fylkja sér um sameiginlega stefnu og framtíðarsýn.
Gefa pólitískum andstæðingum Sjálfstæðisflokksins ekki færi á að gleðjast yfir sundrungu innan okkar raða. Það mein hæfir vinstriflokkunum.
Sameinaðir sjálfstæðismenn að landsfundi loknum snúa bökum saman og hefja það mikilvæga verkefni að vinna flokknum, stefnu hans og frambjóðendum fylgi í komandi sveitarstjórnarkosningum. Sjálfstæðisflokkurinn er langstærsti flokkur á sveitarstjórnarstigi og hefur flesta fulltrúa um allt land.
Sjálfstæðismenn þurfa að vinna borgina og komast í meirihluta, Reykvíkinga vegna. Sundurlyndisöfl hafa ráðið þar of lengi. Við Sjálfstæðismenn þurfum líka að halda sterkri stöðu í stórum sveitarfélögum og vinna ný vígi.
Látum ekki heilbrigð skoðanaskipti á landsfundi grafa undan styrk Sjálfstæðisflokksins. Með samstöðu, krafti og skýrri framtíðarsýn tryggjum við að sjálfstæðisstefnan móti áfram samfélagið til hins betra um ókomna tíð.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. febrúar 2025.