Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Nýr meirihluti fimm vinstriflokka hefur tekið við völdum í ráðhúsi Reykjavíkur. Þessi meirihluti hefur þó minnihluta atkvæða Reykvíkinga að baki sér.
Samstarfsyfirlýsing meirihlutans er óljós og loðin um helstu atriði borgarmála og verður hann auðvitað helst dæmdur af verkum sínum eða verkleysi.
Stjórnkerfi Reykjavíkurborgar hefur verið í lamasessi frá 7. febrúar eða í þrjár vikur vegna meirihlutaskipta. Hefðbundin fundahöld nefnda og ráða borgarinnar eru ekki hafin að nýju þrátt fyrir mörg aðkallandi verkefni og að nú sé tæp vika liðin frá myndun nýs meirihluta.
Eina verk nýja meirihlutans fram að þessu hefur verið að samþykkja stjórnkerfisbreytingar í óðagoti með því að leggja niður tólf ráð, sem hafa það meginhlutverk að sinna samráði við ólíka hópa borgarbúa.
Níu íbúaráð, sem sinnt hafa samráði við íbúa í hverfum borgarinnar, hafa þannig verið lögð niður fyrirvaralaust og án nokkurra skýringa. Sex fulltrúar hafa setið í hverju íbúaráði: þrír kjörnir af borgarstjórn, einn tilnefndur af viðkomandi íbúasamtökum, einn af foreldrafélögum í viðkomandi hverfi og einn slembivalinn. Óljóst er hvernig staðið verður að samráði milli Reykjavíkurborgar og þeirra samtaka sem eiga formlega aðild að íbúaráðunum og virðist nýi meirihlutinn ekki hafa neinar hugmyndir um það.
Notendaráð lögð niður
Fjölmenningarráð Reykjavíkur, öldungaráð Reykjavíkur og aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks verða einnig lögð niður samkvæmt fyrirætlunum nýs meirihluta.
Þessi ráð hafa um árabil verið mikilvægur samráðsvettvangur borgarstjórnar og viðkomandi notendahópa, þ.e. félaga eldri borgara, samtaka fólks af erlendum uppruna og samtaka fatlaðra. Þessir hópar hafa tilnefnt fulltrúa sína í þessi ráð og þannig öðlast mikilvægan aðgang að kjörnum fulltrúum og stjórnkerfi Reykjavíkurborgar. Óljóst er hvernig borgarstjórn mun haga samráði við þessa hópa í framtíðinni en meirihlutinn hyggst leggja áðurnefnd ráð niður í núverandi mynd og fela mannréttindanefnd hlutverk þeirra.
Fjölmargar spurningar hafa vaknað um áhrif umræddra stjórnkerfisbreytinga. Óljóst er hvort breytingarnar standist ákvæði laga um málefni aldraðra, sem kveða á um að í hverju sveitarfélagi skuli starfa öldungaráð með fulltrúum frá félagi eldri borgara og heilsugæslu. Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga er einnig kveðið á um skyldu sveitarfélags til að starfrækja samstarfsvettvang með þremur fulltrúum frá hagsmunasamtökum fatlaðs fólks. Slíkum spurningum hefði auðvitað þurft að svara áður en breytingarnar voru samþykktar.
Flaustursleg vinnubrögð
Þessi fyrstu verk nýja meirihlutans einkennast af óðagoti og óvönduðum vinnubrögðum. Boðað var til aukafundar í borgarstjórn með aðeins sólarhringsfyrirvara þegar eðlilegur fyrirvari er tveir sólarhringar. Á fundinum voru lagðar fram og samþykktar tillögur að verulegum stjórnkerfisbreytingum án þess að þær hlytu eðlilega málsmeðferð. Tillögum Sjálfstæðisflokksins um vandaða málsmeðferð var hafnað. Fulltrúar meirihlutans svöruðu ekki spurningum um lögmæti breytinganna og áhrif þeirra á stjórnkerfið. Málsmeðferðin fullnægir ekki skilyrðum um vandaða stjórnsýslu og lýðræðislegar umræður. Slík vinnubrögð hljóta að kalla á viðbrögð frá samtökum þeirra hópa sem tilnefnt hafa fulltrúa í þau ráð sem nýr meirihluti kýs nú að leggja niður, þ.e. íbúasamtökum, foreldrafélögum, eldri borgurum, samtökum fatlaðra og fólki af erlendum uppruna.
Fall á fyrsta prófi
Það er grundvallaratriði í stjórnsýslu að allar tillögur um stjórnkerfisbreytingar hljóti vandaða málsmeðferð. Í því felst m.a. að slíkar tillögur séu kynntar með nægilegum fyrirvara til að ráðrúm gefist til að skoða þær og rýna hugsanleg áhrif þeirra á viðkomandi málaflokka, sem og stjórnkerfið í heild. Einnig er kveðið á um ríka samráðsskyldu gagnvart þeim sem fyrirhugaðar breytingar kunna að varða áður en endanleg ákvörðun er tekin.
Nýr meirihluti fór ekki eftir slíkum grundvallarreglum í stjórnsýslu við þær stjórnkerfisbreytingar sem hann knúði í gegn á síðasta fundi borgarstjórnar.
Vinstri meirihlutinn féll því á fyrsta prófinu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. febrúar 2025.