Samráðsnefndum slátrað í Reykjavík

28. febrúar 2025

'}}

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Nýr meiri­hluti fimm vinstri­flokka hef­ur tekið við völd­um í ráðhúsi Reykja­vík­ur. Þessi meiri­hluti hef­ur þó minni­hluta at­kvæða Reyk­vík­inga að baki sér.

Sam­starfs­yf­ir­lýs­ing meiri­hlut­ans er óljós og loðin um helstu atriði borg­ar­mála og verður hann auðvitað helst dæmd­ur af verk­um sín­um eða verk­leysi.

Stjórn­kerfi Reykja­vík­ur­borg­ar hef­ur verið í lamasessi frá 7. fe­brú­ar eða í þrjár vik­ur vegna meiri­hluta­skipta. Hefðbund­in funda­höld nefnda og ráða borg­ar­inn­ar eru ekki haf­in að nýju þrátt fyr­ir mörg aðkallandi verk­efni og að nú sé tæp vika liðin frá mynd­un nýs meiri­hluta.

Eina verk nýja meiri­hlut­ans fram að þessu hef­ur verið að samþykkja stjórn­kerf­is­breyt­ing­ar í óðag­oti með því að leggja niður tólf ráð, sem hafa það meg­in­hlut­verk að sinna sam­ráði við ólíka hópa borg­ar­búa.

Níu íbúaráð, sem sinnt hafa sam­ráði við íbúa í hverf­um borg­ar­inn­ar, hafa þannig verið lögð niður fyr­ir­vara­laust og án nokk­urra skýr­inga. Sex full­trú­ar hafa setið í hverju íbúaráði: þrír kjörn­ir af borg­ar­stjórn, einn til­nefnd­ur af viðkom­andi íbúa­sam­tök­um, einn af for­eldra­fé­lög­um í viðkom­andi hverfi og einn slembival­inn. Óljóst er hvernig staðið verður að sam­ráði milli Reykja­vík­ur­borg­ar og þeirra sam­taka sem eiga form­lega aðild að íbúaráðunum og virðist nýi meiri­hlut­inn ekki hafa nein­ar hug­mynd­ir um það.

Not­endaráð lögð niður

Fjöl­menn­ing­ar­ráð Reykja­vík­ur, öld­ungaráð Reykja­vík­ur og aðgeng­is- og sam­ráðsnefnd í mál­efn­um fatlaðs fólks verða einnig lögð niður sam­kvæmt fyr­ir­ætl­un­um nýs meiri­hluta.

Þessi ráð hafa um ára­bil verið mik­il­væg­ur sam­ráðsvett­vang­ur borg­ar­stjórn­ar og viðkom­andi not­enda­hópa, þ.e. fé­laga eldri borg­ara, sam­taka fólks af er­lend­um upp­runa og sam­taka fatlaðra. Þess­ir hóp­ar hafa til­nefnt full­trúa sína í þessi ráð og þannig öðlast mik­il­væg­an aðgang að kjörn­um full­trú­um og stjórn­kerfi Reykja­vík­ur­borg­ar. Óljóst er hvernig borg­ar­stjórn mun haga sam­ráði við þessa hópa í framtíðinni en meiri­hlut­inn hyggst leggja áður­nefnd ráð niður í nú­ver­andi mynd og fela mann­rétt­inda­nefnd hlut­verk þeirra.

Fjöl­marg­ar spurn­ing­ar hafa vaknað um áhrif um­ræddra stjórn­kerf­is­breyt­inga. Óljóst er hvort breyt­ing­arn­ar stand­ist ákvæði laga um mál­efni aldraðra, sem kveða á um að í hverju sveit­ar­fé­lagi skuli starfa öld­ungaráð með full­trú­um frá fé­lagi eldri borg­ara og heilsu­gæslu. Í lög­um um fé­lagsþjón­ustu sveit­ar­fé­laga er einnig kveðið á um skyldu sveit­ar­fé­lags til að starf­rækja sam­starfs­vett­vang með þrem­ur full­trú­um frá hags­muna­sam­tök­um fatlaðs fólks. Slík­um spurn­ing­um hefði auðvitað þurft að svara áður en breyt­ing­arn­ar voru samþykkt­ar.

Flaust­urs­leg vinnu­brögð

Þessi fyrstu verk nýja meiri­hlut­ans ein­kenn­ast af óðag­oti og óvönduðum vinnu­brögðum. Boðað var til auka­fund­ar í borg­ar­stjórn með aðeins sól­ar­hrings­fyr­ir­vara þegar eðli­leg­ur fyr­ir­vari er tveir sól­ar­hring­ar. Á fund­in­um voru lagðar fram og samþykkt­ar til­lög­ur að veru­leg­um stjórn­kerf­is­breyt­ing­um án þess að þær hlytu eðli­lega málsmeðferð. Til­lög­um Sjálf­stæðis­flokks­ins um vandaða málsmeðferð var hafnað. Full­trú­ar meiri­hlut­ans svöruðu ekki spurn­ing­um um lög­mæti breyt­ing­anna og áhrif þeirra á stjórn­kerfið. Málsmeðferðin full­næg­ir ekki skil­yrðum um vandaða stjórn­sýslu og lýðræðis­leg­ar umræður. Slík vinnu­brögð hljóta að kalla á viðbrögð frá sam­tök­um þeirra hópa sem til­nefnt hafa full­trúa í þau ráð sem nýr meiri­hluti kýs nú að leggja niður, þ.e. íbúa­sam­tök­um, for­eldra­fé­lög­um, eldri borg­ur­um, sam­tök­um fatlaðra og fólki af er­lend­um upp­runa.

Fall á fyrsta prófi

Það er grund­vall­ar­atriði í stjórn­sýslu að all­ar til­lög­ur um stjórn­kerf­is­breyt­ing­ar hljóti vandaða málsmeðferð. Í því felst m.a. að slík­ar til­lög­ur séu kynnt­ar með nægi­leg­um fyr­ir­vara til að ráðrúm gef­ist til að skoða þær og rýna hugs­an­leg áhrif þeirra á viðkom­andi mála­flokka, sem og stjórn­kerfið í heild. Einnig er kveðið á um ríka sam­ráðsskyldu gagn­vart þeim sem fyr­ir­hugaðar breyt­ing­ar kunna að varða áður en end­an­leg ákvörðun er tek­in.

Nýr meiri­hluti fór ekki eft­ir slík­um grund­vall­ar­regl­um í stjórn­sýslu við þær stjórn­kerf­is­breyt­ing­ar sem hann knúði í gegn á síðasta fundi borg­ar­stjórn­ar.

Vinstri meiri­hlut­inn féll því á fyrsta próf­inu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. febrúar 2025.

Close menu