Mælum árangur

28. febrúar 2025

'}}

Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður:

Í vik­unni lagði mennta- og barna­málaráðherra fram frum­varp um náms­mat í grunn­skól­um. Málið er unnið í tíð síðustu rík­is­stjórn­ar og óhætt að full­yrða að um mik­il­vægt mál sé að ræða. Gott er að vita til þess að ný rík­is­stjórn vinn­ur áfram með góð og þýðing­ar­mik­il mál fyrri stjórn­ar. Fell­ur það nú í hlut þings­ins að tryggja að laga­breyt­ing­in sem lögð er til skili til­ætluðum ár­angri.

Und­ir­rituð, bæði sem þingmaður og áhuga­mann­eskja um skóla­mál, hef­ur beðið eft­ir því að þetta mál kæm­ist á dag­skrá. Sam­ræmt náms­mat í grunn­skól­un­um er ekki nýtt af nál­inni og hef­ur lengið tíðkast hér á landi. Á síðasta kjör­tíma­bili var hins veg­ar tíma­bundið fallið frá þeirri skyldu að leggja fyr­ir sam­ræmd könn­un­ar­próf vegna vand­kvæða í fram­kvæmd. Þá þegar var haf­ist handa við að þróa nýja mats­ferla enda al­mennt tal­in þörf á breyt­ing­um í ljósi þeirr­ar gagn­rýni sem sam­ræmd próf höfðu sætt.

Það er miður hvað þróun nýrra mats­ferla hef­ur tekið lang­an tíma og ljóst að ekki hefði átt að falla frá sam­ræmd­um könn­un­ar­próf­um – á gamla mát­ann – fyrr en nýir mats­ferl­ar lægju fyr­ir.

Einu sam­ræmdu mæl­ing­arn­ar sem hægt er að styðjast við í dag eru niður­stöður PISA-könn­un­ar­próf­anna sem sýna að ís­lensk­ir grunn­skóla­nem­ar skila ekki viðun­andi ár­angri. Kall­ar sú staðreynd á að gripið sé til aðgerða taf­ar­laust. Hér má eng­an tíma missa. Nú er nauðsyn­legt að bretta upp erm­ar og koma sem fyrst á skýru og gagn­sæju mats­ferli til að meta bæði gæði skóla og ár­ang­ur nem­enda.

Það má þó ekki gera bara eitt­hvað. Nauðsyn­legt er að not­ast við gagn­reynd­ar aðferðir þar sem tryggt er að ís­lensk­ir nem­end­ur hafi aðgang að bestu mögu­legu kennsluaðferðum og kennslu­gögn­um. Tryggja þarf aðgengi kenn­ara að því sama. Síðast en ekki síst þarf að vera hægt að mæla ár­ang­ur­inn svo að hægt sé að bregðast við og grípa til aðgerða eft­ir þörf­um. Und­ir­rituð þyk­ist vita að mik­il og góð vinna eigi sér stað í nýrri stofn­un, Miðstöð mennt­un­ar og skólaþjón­ustu, til þess ein­mitt að ná utan um þessa þætti. Þingið þarf að fylgj­ast vel með þeirri vinnu.

Kjörn­ir full­trú­ar, bæði í sveit­ar­stjórn og á þingi, eiga að hafa skoðun á skóla­mál­um. Reynd­ar á sam­fé­lagið allt að hafa skoðun á mála­flokkn­um. Það er bæði gagn­legt og mik­il­vægt fyr­ir skólaþróun hversu mik­il umræða hef­ur skap­ast um skólastarf á síðustu miss­er­um. Skólastarf er ekki einka­mál kenn­ara, nem­enda og for­eldra held­ur risa­stórt sam­fé­lags­mál. Skól­ar eru stærsta og mik­il­væg­asta jöfn­un­ar­tæki ís­lensks sam­fé­lags og grunn­ur að sam­keppn­is­hæfni og vel­ferð lands­ins til lengri tíma.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. febrúar 2025.