Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður:
Í vikunni lagði mennta- og barnamálaráðherra fram frumvarp um námsmat í grunnskólum. Málið er unnið í tíð síðustu ríkisstjórnar og óhætt að fullyrða að um mikilvægt mál sé að ræða. Gott er að vita til þess að ný ríkisstjórn vinnur áfram með góð og þýðingarmikil mál fyrri stjórnar. Fellur það nú í hlut þingsins að tryggja að lagabreytingin sem lögð er til skili tilætluðum árangri.
Undirrituð, bæði sem þingmaður og áhugamanneskja um skólamál, hefur beðið eftir því að þetta mál kæmist á dagskrá. Samræmt námsmat í grunnskólunum er ekki nýtt af nálinni og hefur lengið tíðkast hér á landi. Á síðasta kjörtímabili var hins vegar tímabundið fallið frá þeirri skyldu að leggja fyrir samræmd könnunarpróf vegna vandkvæða í framkvæmd. Þá þegar var hafist handa við að þróa nýja matsferla enda almennt talin þörf á breytingum í ljósi þeirrar gagnrýni sem samræmd próf höfðu sætt.
Það er miður hvað þróun nýrra matsferla hefur tekið langan tíma og ljóst að ekki hefði átt að falla frá samræmdum könnunarprófum – á gamla mátann – fyrr en nýir matsferlar lægju fyrir.
Einu samræmdu mælingarnar sem hægt er að styðjast við í dag eru niðurstöður PISA-könnunarprófanna sem sýna að íslenskir grunnskólanemar skila ekki viðunandi árangri. Kallar sú staðreynd á að gripið sé til aðgerða tafarlaust. Hér má engan tíma missa. Nú er nauðsynlegt að bretta upp ermar og koma sem fyrst á skýru og gagnsæju matsferli til að meta bæði gæði skóla og árangur nemenda.
Það má þó ekki gera bara eitthvað. Nauðsynlegt er að notast við gagnreyndar aðferðir þar sem tryggt er að íslenskir nemendur hafi aðgang að bestu mögulegu kennsluaðferðum og kennslugögnum. Tryggja þarf aðgengi kennara að því sama. Síðast en ekki síst þarf að vera hægt að mæla árangurinn svo að hægt sé að bregðast við og grípa til aðgerða eftir þörfum. Undirrituð þykist vita að mikil og góð vinna eigi sér stað í nýrri stofnun, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, til þess einmitt að ná utan um þessa þætti. Þingið þarf að fylgjast vel með þeirri vinnu.
Kjörnir fulltrúar, bæði í sveitarstjórn og á þingi, eiga að hafa skoðun á skólamálum. Reyndar á samfélagið allt að hafa skoðun á málaflokknum. Það er bæði gagnlegt og mikilvægt fyrir skólaþróun hversu mikil umræða hefur skapast um skólastarf á síðustu misserum. Skólastarf er ekki einkamál kennara, nemenda og foreldra heldur risastórt samfélagsmál. Skólar eru stærsta og mikilvægasta jöfnunartæki íslensks samfélags og grunnur að samkeppnishæfni og velferð landsins til lengri tíma.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. febrúar 2025.