Landsfundur Sjálfstæðisflokksins 2025 er settur en Bjarni Benediktsson hélt setningarræðuna fyrir framan vel ríflega 2000 manns í Laugardalshöll í dag. Bjarni hélt þar með sína síðustu ræðu sem formaður Sjálfstæðisflokksins en hann kveður nú sem formaður eftir tæplega 16 ára valdatíð.
Fundurinn hófst þó fyrr í dag þegar að málefnanefndastarf fór á fullt kl. 10.00 en rétt ríflega níu var Málfundafélagið Óðinn með kynningu á starfi landsfundar fyrir þá sem eru að koma í fyrsta sinn. Gríðarlegur áhugi er á þessum landsfundi en skráðir fulltrúar eru um 2.150.
Að loknu málefnanefndastarfi var gert smá hlé áður en Bjarni Benediktsson steig í ræðupúltið í síðasta sinn og setti fundinn með svakalegri ræðu sem fundargestir í stappfullri Laugardalshöll fylgdust náið með; klöppuðu og hlógu.
Landsfundur heldur áfram á morgun, laugardag, en kjör í málefnanefndir verður kl 8.45 og málefnastarf heldur svo áfram kl. 9.15. Seinna um daginn verða svo ræður ritara og varaformanns, ásamt ræðum frambjóðenda til formanns og varaformanns ásamt sérstökum viðburði þar sem Bjarni Benediktsson verður kvaddur með stæl.
Allt um landsfund má nálgast hér en dagskrána má finna hér.