Bjarni fór á kostum í kveðjuræðunni

28. febrúar 2025

'}}

Bjarni Benediksson setti landsfund Sjálfstæðisflokksins með stæl þegar að hann hélt setningarræðu fundarins í síðasta sinn en hann stígur nú niður af hinu pólitíska sviði og kveður sem formaður flokksins til tæplega 16 ára.

Það er vægt til orða tekið þegar að sagt er að húsfyllir var í Laugardalshöll þegar að Bjarni steig á stokk og fékk standandi lófatak. Enn var stappfullt við innritunarborðið og öllum sagt að finna sér sæti, slíkur var áhuginn á síðustu setningarræðu Bjarna Benediktssonar.

,,Ég ákvað að bjóða mig fram til formanns árið 2009 því ég vildi leggja mitt af mörkum við að styrkja flokkinn að nýju og endurreisa efnahag landsins," sagði Bjarni er hann vísaði til ákvörðun sinnar um formannsframboðið árið 2009 þegar að hann hafði betur gegn Kristjáni Þór Júlíussyni. Bjarni hefur setið í valdastól flokksins allar götur síðan.

Bjarni byrjaði á að minnast góðra félaga sem hafa kvatt okkur sjálfstæðismenn frá síðasta landsfundi en benti svo á hvað það er að vera sjálfstæðismaður; hvort sem það er sauðfjárbóndi, pípulagningamaður eða yngsti landsfundarfulltrúinn, Bríet Sunna, sem er aðeins fimmtán ára gömul

Hann talaði einnig um elsta landsfundarfulltrúann, hina stórmerku Salóme Þorkelsdóttur, 97 ára gamlan fyrrverandi forseta alþingis en þá reis fólkið úr sætum sínum og gaf henni dúndrandi lófatak. Helgi Ólafsson, 95 ára frá Raufarhöfn, fékk einnig sérstaka kveðju frá formanninum fráfarandi.

Pólitíkin

Bjarni lék á alls oddi og fór yfir pólitíkina síðan að hann tók við formennskunni en hann varð formaður á sama tíma og fylgi flokksins var í lægð og vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við völdum. Það vita allir Sjálfstæðismenn hvað gerðist næst. Bjarni leiddi flokkinn aftur í ríkisstjórn fjórum árum síðar þar sem hann hefur verið allt fram í nóvember á síðasta ári.

Formaðurinn vandaði þeirri stjórn ekki kveðjurnar og minnti á vegferð þeirra í Evrópusambandið og sagði hana hafa bitið höfuðið af skömminni með landsdómsmálinu. ,,Margir sem tóku þátt í þeirri aðför hafa síðan beðist afsökunar á framferði sínu en aðrir hafa valið þann kostinn að láta lítið fyrir sér fara," sagði Bjarni.

Bjarni fór yfir þær jákvæðu breytingar sem urðu á íslensku efnahagslífi eftir að Sjálfstæðisflokkurinn tók aftur við völdum eins og aukinn kaupmátt, þverrandi atvinnuleysi og margt fleira en óhætt er að segja að Bjarni fór fyrir ríkisstjórn sem kom Íslandi aftur á fætur eftir efnahagshrunið.

,,Er nema von að Samfylkingin hafi þurft að skipta um formann fjórum sinnum á meðan við vorum að þessu?" sagði Bjarni við mikil hlátrasköll ríflega 2000 gesta sem fylltu salinn til að fylgjast með ræðunni.

Alger andstæða við popúlisma

,,Sjálfstæðisflokkurinn er útvörður borgaralegra gilda og við höfum átt samleið með þjóðinni allt frá stofnun árið 1929. Það er okkar hlutverk að standa vörð um grunngildi flokksins og tryggja að þjóðin eigi valkost við vinstrisinnaða pópúlíska ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins."

Bjarni hóf flottan lokakafla ræðunnar með þessum orðum eftir að hann hafði náð inn nokkrum stungum á núverandi ríkisstjórn sem hefur ekki átt sjö dagana sæla á fyrstu vikum og mánuðum.

,,Við eigum að tala fyrir hinum almennu gildum, gildum sjálfstæðisstefnunnar sem eru alger andstæða við popúlismann," bætti Bjarni við.

Formaðurinn kvaddi með því að þakka samferðamönnum sínum kærlega fyrir og minntist sérstaklega á þau Þórdísi Kolbrúnu, varaformann, Vilhjálm Árnason, ritara, og Hildi Sverrisdóttur, þingflokksformann.

Hann bað svo undir lokin eiginkonu sína, Þóru Margréti, að koma upp á svið til sín og fengu formannshjónin svakalegt lófatak er Þóra rölti með sinn mann inn í hið pólitíska sólarlag.

Ræða Bjarna Benediktssonar í heild sinni:

Góðir sjálfstæðismenn, kæru vinir.

Mikið er gott að sjá ykkur hér á landsfundi. Það er heiður að opna enn og aftur langstærstu stjórnmálasamkomu á Íslandi.

Og takk fyrir síðast!

Það er stutt síðan við vorum í kosningabaráttu og við fórum fram úr öllum spám þótt heildarniðurstaðan væri ekki sú sem vonast var eftir.  Ég vil þakka ykkur öllum fyrir ykkar mikla framlag í kosningabaráttunni.

Og nú hittumst við á ný, þessi stóri hópur er hér til að skerpa á stefnunni, varða veginn til næstu tveggja ára - og kjósa nýja forystu fyrir flokkinn okkar. Í þetta sinn um 2200 manns.

Svona fundur verður ekki til af sjálfu sér. Ég vil biðja ykkur um að klappa fyrir öllu því frábæra starfsfólki og sjálfboðaliðum sem létu þessa helgi verða að veruleika.

Ég er einn af mörgum sem í tölvuskrá flokksins er merktur inn í bækurnar 1. janúar 1993, en þann dag hófst tölvutímatal Sjálfstæðisflokksins. Upphafleg skráning var að líkindum vélrituð í bækurnar á níunda áratug síðustu aldar.

Í öllu falli finnst mér óralangt síðan að ég datt í fyrsta sinn inn í hringiðu skoðanaskipta á landsfundi, heila helgi, og fann kraftinn í flokksstarfinu.

En hvernig ætli Salóme Þorkelsdóttur líði?  Elsti landsfundarfulltrúinn í ár, 97 ára gömul. Fyrrverandi forseti Alþingis og glæsilegur fulltrúi. Má ég biðja ykkur að klappa duglega fyrir Salóme!

Ég verð líka að nefna Helga Ólafsson, sem er ennþá að skottast um á rútu, það er ekkert tiltökumál fyrir hann að skella sér á fundinn frá Raufarhöfn, 95 ára gamlan!

 

-----------------------

 

Já, á landsfundi komum við saman til að vinna að framfaramálum, bættum lífskjörum, betra Íslandi. Fólk á öllum aldri, úr öllum starfsgreinum og stéttum.

Ég þakka þeim sérstaklega sem eru langt að komnir. Það var ekki útséð með það að allir kæmust hingað yfir höfuð þegar litið var á spána. Það vill nefnilega stundum vera vont veður í febrúar, eins og einhver benti á um daginn!

Kæru vinir,

Ég bar ungur út Garða, málgagn okkar í Garðabæ, í húsin í hverfinu og fór hús úr húsi og seldi happdrættismiða í nafni flokksins.

Ég tók síðar þátt í starfi Hugins, félags ungra Sjálfstæðismanna í Garðabæ og var þar formaður um skeið. Það var áhersla flokksins á frelsi einstaklingsins sem hreif mig umfram annað.

Við Þóra eignuðumst okkar fyrsta barn og hófum búskap árið sem Davíð Oddsson var kjörinn formaður flokksins. Þá var ég rétt rúmlega tvítugur. Við tók mikið framfaraskeið á Íslandi undir forystu Sjálfstæðisflokksins og á grunni sjálfstæðisstefnunnar.

Fyrir mig var mikil upphefð í því að fá símtal frá uppstillingarnefnd í Suðvesturkjördæmi fyrir kosningarnar 2003 sem varð upphafið að mínum þingmannsferli. Símtalið kom frá Jóni Guðmundssyni, sem er nýlega fallinn frá.

Hann var eins og þið, virkur í flokkstarfinu, bóngóður og fórnfús fyrir málstaðinn, alltaf að leita leiða til að stækka flokkinn og fá nýtt fólk í hópinn.

Í þessum breiða hópi sjálfboðaliða um allt land liggur styrkur sem enginn annar flokkur á landinu býr yfir.

Í vikunni andaðist Helgi Steinar Karlsson, vinur okkar úr starfinu í Reykjavík, ötull baráttumaður fyrir málefnum byggingariðnaðarins og eldri borgara í Sjálfstæðisflokknum.

Má ég sömuleiðis minnast fyrrum þingmanna okkar sem kvatt hafa frá síðasta landsfundi.

Ólafs G. Einarssonar, Sigurlaugar Bjarnadóttur og Árna Johnsen, sem féllu frá árið 2023.

Guðmundar H. Garðarssonar sem kvaddi í fyrra og Ellerts B. Schram sem féll frá nú í janúar.

Við sendum hlýjar kveðjur til fjölskyldna þeirra og þökkum fyrir dýrmætt framlag til flokksins.

II Hvað er að vera sjálfstæðismaður? (Hverjir eru mættir á fundinn)

Það er fyrir löngu orðin þjóðaríþrótt að skilgreina Sjálfstæðisflokkinn. En það er ekkert sem skilgreinir Sjálfstæðisflokkinn betur en fólkið í flokknum.

Ég gæti flutt langa tölu um gildin, kjörorðin og stefnuna, en enn betra að horfa bara hér út í salinn?

Það að vera sjálfstæðismaður er til dæmis að vera;

Sigríður Ólafsdóttir, sauðfjárbóndi á Víðidalstungu, sem vinnur alla daga hörðum höndum að því að búa til heilnæm matvæli og verðmæti fyrir landsmenn!

Kristján Baldvinsson, pípulagningameistari og dugnaðarforkur af Akranesi sem hefur byggt upp fyrirtæki sitt af miklum krafti.

Eða Bríet Sunna Bjarkadóttir, fimmtán ára gömul - yngsti landsfundarfulltrúinn í ár. Fædd í desember árið sem ég var kjörinn formaður, 2009. Bríet Sunna, vertu hjartanlega velkomin á landsfund!

III Formennskan -

Góðir sjálfstæðismenn,

Árið 2008 skall á fyrsta alvarlega efnahagslægð sem mín kynslóð hafði upplifað á sínum fullorðinsárum. Það urðu kaflaskil, stjórnin féll og boðað var til kosninga.

Ég ákvað að bjóða mig fram til formanns árið 2009 því ég vildi leggja mitt af mörkum við að styrkja flokkinn að nýju og endurreisa efnahag landsins. Það traust sem mér var sýnt á þeim tíma var mér afar dýrmætt, eins og það traust sem ég hef fundið hér alla tíð síðan.

Á þessum tíma stóðum við í miklum pólitískum mótbyr í stjórnarandstöðu - en Jóhönnustjórnin brást aldrei röngum málstað. Og með tímanum komst málflutningur okkar betur til skila.

Forgangsmál þeirrar stjórnar var að koma Íslandi í Evrópusambandið og taka upp nýja stjórnarskrá. Fyrir vikið tafðist það sem skipti máli, mikilvæg efnahagsleg uppbygging. Skattar voru hækkaðir á fólk og fyrirtæki og stórkostlegt klúður var í allri hagsmunagæslu fyrir landsmenn.

Vinstristjórnin gerði hvað hún gat til að útskýra fyrir þjóðinni að allar afleiðingar alþjóðlegu fjármálakreppunnar væru Sjálfstæðisflokknum að kenna. Þau bitu höfuðið af skömminni með landsdómsmálinu, þar sem í atkvæðagreiðslu í þinginu var skotið skjóli yfir ráðherra Samfylkingarinnar en tryggt að formaður Sjálfstæðisflokksins einn yrði ákærður.

Margir sem tóku þátt í þeirri aðför hafa síðan beðist afsökunar á framferði sínu en aðrir hafa valið þann kostinn að láta lítið fyrir sér fara.

En landsmenn sáu að leið vinstristjórnarinnar var ekki að skila árangri. Með kraftmiklum málflutningi okkar, öflugu málefnastarfi og tillögum sem áttu erindi við landsmenn náðum við að nýju stuðningi kjósenda og sátum svo í ríkisstjórn í tæp 12 ár.

Og með sama hætti verðum við að bregðast við nú.

Hér, á þessum landsfundi, hefst ný sókn Sjálfstæðisflokksins!

Já, við höfum áður notað árin í stjórnarandstöðu til að byggja okkur upp og styrkja tengslin við kjósendur í landinu.

Ég kallaði eftir kosningum, niðurstaðan liggur fyrir. Við höfum aldrei tekið því sem gefnu að vera ávallt í ríkisstjórn og ætlum að rækja okkar hlutverk í stjórnarandstöðu vel. Því fylgja tækifæri að þurfa ekki að gera málamiðlanir við aðra flokka. Það sem gildir nú er að standa saman og sækja fram!

Búa okkur undir að taka við stjórnartaumunum á ný, í allra síðasta lagi að tæpum fjórum árum liðnum.

Við höfum stefnuna, fólkið og söguna.

Nýjasta könnunin sýnir að við erum enn að bæta við fylgið frá kosningum. Enginn vafi er í mínum huga að með kraftmiklu flokksstarfi munum við innan skamms að nýju taka fram úr öllum öðrum í fylgi.

Það er stutt til kosninga á sveitarstjórnarstiginu, hér í höfuðborginni er þörf fyrir algera uppstokkun en Sjálfstæðisflokkurinn verður til þjónustu reiðubúinn um allt land!

Kæru vinir,

Framundan er tími uppbyggingar. Ég mat það svo að nú væri rétti tíminn fyrir mig að láta staðar numið eftir tæp 22 ár á þingi og nærri 16 ár sem formaður. Það er persónuleg ákvörðun sem ég er sáttur við.

Fyrir Sjálfstæðisflokkinn fannst mér líka rétt að nýtt fólk tæki við í forystunni á þessum tímamótum. Ný forysta mun móta með okkur stefnuna fram á við og stýra uppbyggingunni.

Og ég veit að þið, eins og ég, finnið orkuna í Sjálfstæðisflokknum fyrir þennan fund. Það var mjög stór og vel heppnaður fundur í gær hjá Landssambandi sjálfstæðiskvenna. Flokkurinn er  að springa úr krafti - og það er mér sönn ánægja að sjá tvær geysiöflugar konur bjóða fram krafta sína til að taka við keflinu af mér.

Sama hvor þeirra sigrar er ljóst að kona mun leiða flokkinn okkar í fyrsta sinn í sögunni - og við ætlum öll að standa þétt við bakið á nýjum formanni að kosningu lokinni!

IV Hvaða árangur náðist? 

Góðir sjálfstæðismenn,

Með markvissri vinnu okkar í stjórnarandstöðu fyrir 12 árum var lagður grunnur að einu mesta hagvaxtarskeiði lýðveldistímans.

Mikilvægast var að:

  • ráðast gegn skuldavanda heimilanna
  • lækka skatta og örva atvinnulífið
  • auka aðhald í ríkisrekstri og lækka skuldir
  • efla nýsköpun

Mikill árangur náðist snemma í ríkisstjórnartíð okkar með afnámi haftanna.

Stöðugleikaframlögin gjörbreyttu stöðu þjóðarbúsins og smám saman gátum við nýtt betri stöðu til að styrkja heilbrigðis- og velferðarkerfin.

Kaupmáttur launa og bóta fór stöðugt vaxandi.

Við höfum endurskrifað bæði ellilífeyris- og örorkukerfi almannatrygginga.

Fullfjármagnað byggingu nýs Landspítala og aukið framlög í ýmiskonar innviðauppbyggingu.

Við lækkuðum tryggingargjaldið fyrir fyrirtækin og tekjuskattinn fyrir heimilin.

Afnámum ýmsa tolla og felldum niður vörugjöld með tilheyrandi kjarabót fyrir neytendur í landinu.

Stafvæðing opinberrar þjónustu hófst af miklum krafti með Ísland.is og rafrænum skilríkjum.

Við gjörbreyttum umhverfi nýsköpunar þannig að stofnendur segja nú hvergi betra að vera frumkvöðull en á Íslandi. Hugverkaiðnaður blómstrar. Við höfum staðið með ferðaþjónustunni, sem hefur gengið í gegnum miklar sveiflur undanfarin ár, og er ein meginstoð hagkerfisins í dag.

Og við sjáum ýmsar framleiðslugreinar sækja í sig veðrið, bændur landsins eru þar engin undantekning, sóknarfærin eru svo víða.

Á sínum tíma var því haldið fram að ekkert að þessu gæti gerst án inngöngu í ESB og með nýrri stjórnarskrá. En nú getum við horft til baka og séð að

  • Á Íslandi var þrefalt meiri hagvöxtur á mann sl. 20 ár en á Evrusvæðinu og hátt í tvöfalt hraðari vöxtur frá 2013.
  • Kaupmáttarvöxtur 2013-23: ESB: 4%, Ísland: 51% - 14-falt hraðari kaupmáttarvöxtur.
  • Árið 2023 bjuggum við við næstmesta kaupmátt launa meðal allra OECD ríkja.
  • Útgjöld ríkisins og tekjur hafa minnkað sem hlutfall af landsframleiðslu frá 2013. Við höfum þrátt fyrir öll áföll undanfarinna ára dregið úr umfangi ríkisins í hagkerfinu í okkar stjórnartíð.
  • Hlutfall landsmanna sem býr við efnislegan skort féll um helming á árunum 2013-2023. Í síðustu samanburðarmælingum við Evrópu þá var þetta hlutfall lægst hér á landi.
  • Atvinnuleysi á Íslandi er minna en helmingur þess sem að meðaltali gerist á Evrusvæðinu).
  • Og að lokum hefur íslenska krónan verið stöðugri gagnvart bandaríkjadal en evran í rúman áratug.

Er nema von að Samfylkingin hafi þurft að skipta um formann fjórum sinnum á meðan við vorum að þessu?

Og að lokum var einnig skipt um stefnu á þeim bænum í hinum ýmsu málum.

Þau segja núna hvert á eftir öðru mikilvægt að stækka kökuna. Stækka kökuna! Ég hélt þau myndu aldrei segja þetta.

En þau eins og margir nota eflaust gervigreindina - BjarnaAI.

Svo það sé sagt þá er ég glaður að heyra að til standi að stækka kökuna. Við þurfum á því að halda. Auka verðmætasköpun og stækka hagkerfið, m.a. með grænni orku, til að byggja áfram upp lífskjör og loka fjárlagagatinu.

V Síðustu ár - niðurstöður kosninga 2021 

Góðir sjálfstæðismenn,

Árið 2017 var kosið eftir talsvert umhleypingatímabil. Það var ekki einsýnt hvernig ætti að mynda ríkisstjórn.

Eftir löng samtöl við alla flokka var eina mynstrið sem kom til greina, að mynda stjórn með Vinstri grænum og Framsókn. Sú stjórn náði saman yfir hinn pólitíska ás, og okkar markmið var að sækja fram á grundvelli árangurs fyrri ára, losa um ríkiseignir, styrkja innviði og fjölga stoðum hagkerfisins.

Í tíð þeirrar ríkisstjórnar - fyrir hin ýmsu áföll sem síðar dundu á þjóðarbúinu - stefndi skuldahlutfall ríkissjóðs í 12% og afgangur var fyrirséður á ríkissjóði til margra næstu ára.

En við vorum ekki alltaf með vindinn í bakið. Fall WOW Air, heimsfaraldur, stríðsátök, eldsumbrot og margföldun á fjölda fólks á flótta um allan heim var meðal þess sem við fengum í fangið.

Við slíkar aðstæður er hlutverk ríkisstjórnar ekki að bjóða stöðugt upp á hugmyndafræðilega flugeldasýningu.

Þá snýst þetta fyrst og fremst um að mæta í vinnuna, takast á við stöðuna, komast í gegnum skaflinn.

Vinnan snerist um að veita fólki og fyrirtækjum skjól og stuðning. Það sem öllu skipti var að við höfðum búið í haginn fyrri mögrum árum.

Á nær alla mælikvarða tókst sú vinna vel.

Við þurftum viðspyrnu, vildum vaxa út úr vandanum. Stækka kökuna að nýju.

Í kosningunum 2021 héldu ríkisstjórnarflokkarnir myndarlega velli og höfðu svo gott sem heitið því að rjúfa ekki samstarfið ef kjósendur héldu því í meirihluta. Sú var einmitt niðurstaða landsmanna.

Og hagkerfið tók stökk: Hagvöxtur var 5% 2021 og 9% 2022, í morgun uppfærði Hagstofan tölurnar fyrir 2023 og 2024 upp á við, einu sinni enn.

Hér eru lífskjör betri en víðast hvar og hafa aukist meira en annars staðar. Okkur hefur fjölgað, hér verða stöðugt til ný fyrirtæki, vel launuð störf og fjölbreytt.

Hér er meira spennandi að búa en nokkru sinni fyrr, fleiri tækifæri fyrir unga fólkið okkar sem vill koma sér upp fjölskyldu og búa sér framtíð á Íslandi.

Aldrei hefur meira verið byggt en undanfarin ár, þó betur megi ef duga skal. Frá ársbyrjun 2018 höfum við byggt sem nemur öllum Garðabæ og Kópavogi samanlagt - 23.000 íbúðir.

Eitt af því sem við lögðum áherslu á undanfarin ár var að efla listir og menningu. Kvikmyndagerð hefur blómstrað sem aldrei fyrr. Kvikmyndin Snerting er mikið listaverk og leikarinn og listamaðurinn Egill Ólafsson stórkostlegur í hlutverki sínu. Mig langar rétt til að grípa niður í ljóðið

Sjö kúplettur úr nýjustu ljóðabók hans:

á fætur fætur hafðu mætur

á fegurðinni og mennsku gætur

dag og daga mundu að aga

drenginn góða og viljann laga

 

dvelja dvelja svo skal velja

daga góða alla telja

 

þrauka þrauka til að bauka

ef þrekið viltu áfram auka

 

vertu vertu kátur sértu

vonarstyrkinn hertu hertu

 

máttu máttu til þá gráttu

í minnipokann aldrei láttu

 

lifa lifa mundu að bifa

litlu hlassi

ég segi og skrifa.

Já, þegar öllu er á botninn hvolft snýst þetta starf, eins og önnur, umfram allt um að mæta, leggja á sig og berjast áfram dag hvern. Aldrei að gefast upp. Verkefnið nú er að snúa hinum pólitísku vindum okkur í hag.

Það var hins vegar óumflýjanlegt í kjölfar þeirra hremminga sem á dundu að þær myndu taka toll. Það urðu mikil vonbrigði að hátt vaxtastig dróst á langinn og verðbólgan fékk mikinn byr í seglin.

Þessi tími reyndist mörgum þungur, sérstaklega ungu fjölskyldufólki - og þrálát verðbólga frestaði því að við sæjum vexti lækka.

Óánægjan í slíku ástandi finnur sinn farveg og fylgi stjórnarflokkanna endurspeglaði hana.

Okkur óx ásmegin í kosningabaráttunni eftir að hafa ítrekað verið spáð langtum verri niðurstöðu en raun bar vitni, en á engan mælikvarða getum við verið sátt við úrslitin. Þar vík ég mér hvergi frá ábyrgð.

Ég er engu að síður stoltur af því hvernig við ræstum vélarnar og tókum slaginn.

Kosningabaráttan var að mörgu leyti ólík því sem við eigum að venjast. Hún var stutt og háð á fleiri miðlum en oft áður.

Ég skar út grasker og Bjarni AI steig fram. Góður maður sagði mér að hann hefði reynt ýmislegt til að fipa Bjarna AI, lagt fyrir hann erfiðar og margslungnar spurningar en þá kom alltaf sama svarið: svona, svona við skulum vera málefnaleg, hvað finnst þér um húsnæðismálin?

Að lokum fór viðkomandi inn á spjallmenni Framsóknar og bar upp flókna spurningu og spurði svo: hvað finnst þér um það? Það stóð ekki á svari hjá Framsóknarspjallmenninu: ,,Hvað vilt þú að mér finnist um það?”

Sjá mátti glöggt að ungt fólk streymdi inn í baráttuna með alls kyns hugmyndir og uppákomur. Engin hugmynd var of geggjuð, mikil gleði og hlátur. Og pólitíkin verður skemmtilegri fyrir vikið.

VI Hveitibrauðsdagar ríkisstjórnar á enda 

Kæru landsfundarfulltrúar.

Það er við hæfi að óska nýrri ríkisstjórn alls hins besta. Allir sem hafa komið að stjórnmálum þekkja hversu krefjandi verkefnin geta verið. En vandi þessar ríkisstjórnar felst ekki í verkefnunum, vandinn er hún sjálf.

Inga hafði verið ráðherra í 13 klukkutíma og 18 mínútur þegar hún var byrjuð að ráðast á fjölmiðla og skamma þá fyrir að spyrja sig spurninga og nokkrum dögum síðar hringdi hún í skólastjóra úti í bæ og hótaði honum lögreglunni út af týndum strigaskóm.

Sagan segir að Inga hafi minnt á Don Corleone úr Guðföðurnum þar sem hún sat heima með köttinn í annarri, símtólið í hinni og sagði skólastjóranum að hún væri vel tengd inn í lögregluna.

Hún söng svo bara um að hún væri ,,komin til að sjá og sigra Sigurjón digra” - sem reyndar krafðist þess í textanum að menn tækju af sér skóna!

Heyra mátti á mörgum vinstrimanninum að ekki þyrfti að fjalla meira um málið, þetta væri bara reynsluleysi.

En ruglið var bara rétt að byrja. Næst var rifjað upp að innviðaráðherrann í ríkisstjórninni hafði í stjórnarandstöðu lýst því yfir að bókun 35 jafngilti stjórnarskrárbroti.

Þegar Eyjólfur var spurður hvort ráðherratign og staða flokksins í ríkisstjórn breytti afstöðu hans þá tilkynnti hann að hann hefði í engu breytt um skoðun, en myndi samt styðja málið.

Og rökin, jú flokkurinn hafði náð fram 48 dögum í strandveiðikerfi og fyrir það væri sjálfri stjórnarskránni fórnandi!

Þessi viðskipti með stjórnarskrána eru auðvitað einsdæmi í íslenskri stjórnmálasögu. Óskiljanleg og stórfurðuleg!

Og svo kom í ljós að formaður atvinnuveganefndar getur grætt á því að lögfesta 48 daga strandveiðikerfi, þingmaður flokks fólksins, félagi og vinur Eyjólfs innviðaráðherra, hann Sigurjón Þórðarson, sem ekki má rugla saman við Sigurjón digra.

Eyjólfur þessi er líka sá hinn sami og var alfarið á móti Borgarlínu, áður en hann tók fyrstu skóflustunguna að henni í nýja ráðherrastólnum!

Formanni fjárlaganefndar, Ragnari Þór Ingólfssyni, varð nóg um og kom sér upp 10 milljón króna neyðarsjóði frá VR. Það stóð ekki á rökunum hjá Ragnari.

Réttnefni fyrir sjóðinn hans væri Ragnarök, nokkuð sem virðist geta raungerst hraðar en nokkurn grunaði.

Þetta og meira til á fyrstu vikum kjörtímabilsins - sannkallaðar hraðfréttir.

Viðreisn kallaði til virðulegan háskólamann til að gegna embætti fjármálaráðherra. Ég vil nota þetta tækifæri og óska honum alls hins besta og hann þarf eflaust á slíkum óskum að halda.

Hugsið ykkur fyrsta  daginn á skrifstofunni.

Spennandi tímar og blóm og kransar. Fyrsta verkefnið kemur í hús - Flokkur fólksins vill 48 daga strandveiðikerfi!  Elsku maðurinn er nýbúinn að skrifa lærða grein um hversu þjóðhagslega óhagkvæmt það kerfi er og hvernig það brýtur gegn öllum hugmyndum um almannahag. Kerfið er samkvæmt grein ráðherrans “efnahagsleg sóun”.

Já, hugur okkar er hjá ráðherranum sem saknar eflaust strax fræðanna þar sem Flokkur fólksins er fræðilegt viðfangsefni en ekki hræðilegur veruleiki hversdagsins.

Svo er það stóra Planið sem Samfylkingin boðaði í kosningabaráttunni? Örlög þess eru greinilega þau sömu og nýju stjórnarskrárinnar og nýju símaskrárinnar - að koma aldrei út.

Þessi nöpru örlög Plansins birtust þjóðinni þegar þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar leit dagsins ljós. Ekkert nýtt, ekkert sem skipti máli, ekkert plan.

Kannski vilja einhverjir skrifa þennan vandræðagang ríkisstjórnarinnar á reynsluleysi, en ég er ekki viss.

Flokkur fólksins er bara svona.

Samfó er bara svona.

Og Viðreisn er bara svona.

Fyrir kosningar hafði Samfylkingin slegið ESB-aðild af borðinu og Viðreisn komst í gegnum kosningabaráttuna meira og minna án þess að minnast á þetta helsta baráttumál sitt.

En um leið og staðan varð ljós, að kosningum loknum, sameinuðust þessir tveir flokkar um að endurvekja drauginn. Nú á að kíkja aftur í pakkann. Og Flokkur fólksins var eini flokkurinn sem var til í þessa vegferð með þeim, þrátt fyrir að vera reyndar alfarið á móti aðild - eins og flestu öðru sem nú er á dagskrá.

Staða efnahagsmála er með slíkum hætti innan ESB að inngöngu í bandalagið hefur verið líkt við að ganga inn í brennandi hús. Kannski er það ofmælt, ég veit ekki, kannski er umsókn um aðild svipuð því að fullfrískt ungt par með 2 börn óski eftir því að komast í búsetuúrræði á elliheimili.

Kjarni málsins er einfaldlega sá að Samfylking og Viðreisn hafa aldrei trúað á getu þjóðarinnar til að stjórna málum sínum sjálf. Þrátt fyrir að við blasi að okkur Íslendingum hefur á undanförnum árum gengið mun betur en ríkjum  ESB, nánast sama á hvaða mælikvarða er litið.

Takið eftir að öll gömlu rök þeirra fyrir inngöngu eru farin. Nú snýst þetta bara um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu, sama hvað.

Það er sérstakt að utanríkisráðherrann segi okkur að allt kapp sé nú lagt á að halda Íslandi sem lengst frá deilum ESB og Bandaríkjanna um tollamál. Að við eigum skjól í EES samstarfinu. Og augljóslega er kostur fyrir okkur að fara sjálf með okkar tollamál.

En næst á dagskrá hjá þessum sama ráðherra er að koma Íslandi rækilega inn í ESB og þvæla okkur þar með beint inn í þessa sömu deilu og hún segist vilja forða okkur frá.

Mikilvægasta verkefni Sjálfstæðisflokksins næstu misseri verður að berjast af öllu afli gegn þessari tilraun Samfylkinginnar og Viðreisnar að draga þjóðina inn í ESB.

Um er að ræða fullveldi þjóðarinnar til langrar framtíðar og ég heiti á ykkur öll, hvert og eitt, að taka fullan þátt í þeirri baráttu.

Nafn flokksins okkar ber með sér fyrirheit um frelsi og sjálfstæði þjóðarinnar, fullveldi hennar og ábyrgð okkar á eigin örlögum. Með því skulum við standa.

Ég ætla að fá að vitna í alnafna minn og frænda þegar hann flutti framsögu um varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna fyrir tæpum 74 árum síðan;

„Öllum hinum frjálsu lýðræðisþjóðum er það ljóst, að það er frumskilyrði fyrir því, að þjóð geti verið sjálfstæð í raun og veru, að hún sé þess búin að verja land sitt, ef á það verður ráðizt, eða með öðrum hætti sjá landinu fyrir viðunandi vörnum, eftir því sem geta og aðstæður eru til.“

Þessi orð hafa sjaldan átt jafn vel við og nú. Öryggis- og varnarmál eiga að vera í öndvegi í allri stjórnmálaumræðu komandi ára, enda lifum við á viðsjárverðari tímum nú en sést hafa í áraraðir. Við höfum ekki efni á að vera værukær í þessum efnum.

VII Popúlisminn - Breyttur veruleiki stjórnmálanna og hvað blasir við

Ágætu landsfundarfulltrúar.

Guðmundur Magnússon sem bar höfundarnafnið Jón Trausti ólst upp á nyrsta bæ landsins, Rifi á Rifstanga. Á stuttri ævi var hann mikils megnugur. Hann tileinkaði þingmönnum Íslandsvísur árið 1901 og þar má finna þetta erindi:

 

Ég vil elska mitt land,

ég vil auðga mitt land,

ég vil efla þess dáð, ég vil styrkja þess hag.

Ég vil leita' að þess þörf

ég vil létta þess störf,

ég vil láta það sjá margan hamingjudag.

 

Við sem tökum þátt í stjórnmálum eigum það flest sameiginlegt að vilja vinna landi og þjóð gagn. En verum minnug þess að gæði skoðanaskipta og gæði ákvarðana, þjóðinni til heilla, haldast iðulega í hendur.

Undanfarin ár hefur borið á vaxandi áhrifum popúlískrar orðræðu, hér jafnt sem annars staðar á vesturlöndum.

Aðferðarfræði popúlistanna er sú að halda því fram að andstæðingar þeirra hafi svikið þjóðina eða stolið frá henni í baktjaldamakki með auðvaldinu og spilltum embættismönnum.

Dæmi um þetta er hvernig Sjálfstæðisflokknum er stillt upp þannig að hann gangi sífellt erinda stórútgerða og auðmanna og vilji svipta þjóðina eignum sínum. Ekkert er fjarri raunveruleikanum.

Sjálfstæðisflokkurinn styður aflamarkskerfið því að þannig eru tryggð mest verðmæti til þjóðarinnar og uppbyggingu atvinnulífins. Hér ráða almannahagsmunir för.

Aðferðafræði þessa má greina hjá Viðreisn og Samfylkingu. Í stað þess að ræða málin efnislega er gripið til pópúlískra slagorða og reynt að stilla andstæðingunum upp sem andstæðingum þjóðarinnar og sjálfum sér með þjóðinni, rétt eins og popúlista er siður beggja vegna Atlantshafsins. Öll rök eru afgreidd sem tæknimál og útúrsnúningar, og línan barin áfram.

Flokkur fólksins og forystufólk hans virðist sömuleiðis ætla að tileinka sér orðræðu og aðferðir popúlistanna af meiri krafti en áður hefur þekkst hér á landi.

Þegar Morgunblaðið ber upp eðlilegar spurningar um ýmis hneykslismál úr rósagarði Flokks fólksins ber svo við að þingmaður flokksins, þessi sami og bíður eftir 48 dögunum sínum, hótar að skera niður ríkisstyrk til blaðsins því það er svo leiðinlegt við hann og vini hans. Einhver gæti kallað þetta aðför að frelsi fjölmiðla!

Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að falla í þá gryfju að elta andstæðinga sína á hættulegri braut popúlismans.

Við eigum að tala fyrir hinum almennu gildum, gildum sjálfstæðisstefnunnar sem eru alger andstæða við popúlismann.

VIII Það er til önnur sýn - okkar sýn

Góðir landsfundargestir.

Sjálfstæðisflokkurinn er útvörður borgaralegra gilda og við höfum átt samleið með þjóðinni allt frá stofnun árið 1929. Það er okkar hlutverk að standa vörð um grunngildi flokksins og tryggja að þjóðin eigi valkost við vinstrisinnaða pópúlíska ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins.

Valkosturinn er sjálfstæðisstefnan. Hún hefur verið það alla tíð, grunnurinn ætíð sá sami. Við treystum á fólkið í landinu, athafnasemi þess og samtakamátt og við trúum á landið og möguleika þess til að veita okkur lífskjör eins og þau gerast best í víðri veröld.

Vitanlega breytast tímarnir, samfélagið þróast og veröldin öll á fleygiferð. En þessi grunngildi breytast ekki, þau grípa allt það sem best er í fari þjóðarinnar, “gleði og trú, bjartsýni æsku og von” eins og fyrrum formaður okkar orti svo vel. Það er þessi bjartsýni og trú sem er í kjarna sjálfstæðisstefnunnar og skín alltaf í gegn.

Við vitum að auðlindir þjóðarinnar eru slíkar að tækifæri okkar til að auka velmegun þjóðarinnar eru óteljandi. Það er ástæða til að vera full bjartsýni þegar við horfum fram á veginn og metum tækifæri okkar.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að saman fari nýting og vernd og við höfnum öllum öfgum í þessum málum.

Þegar saman fara fjárfestingar í vísindum, ríkuleg auðlind og frumkvæði einstaklinganna þá eru engin takmörk fyrir því hvaða árangri við getum náð.

Þetta á við um allar náttúruauðlindir Íslands og þess vegna skiptir gríðarlega miklu að við mótum skynsamlega stefnu um nýtingu þeirra og tryggjum að þær nýtist þjóðinni allri með því að virkja einkaframtakið sem best.

Um þetta er stefna okkar skýr, óbreytt frá því að Jón Þorláksson var kosinn formaður.

IX Lokaorð / Hvers vegna gefum við  kost á okkur?

Kæru vinir,

Í dag ávarpa ég ykkur í síðasta sinn sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Fyrir hugskotssjónum mínum hafa ótal minningar runnið undanfarna daga og þó að ég kveðji sáttur er stundin stór.

Í þau ár sem ég hef starfað í umboði ykkar hef ég lagt mig allan fram um að skila mesta mögulega árangri og mestu mögulegu tækifærum til fólksins í landinu.

Stjórnmálin krefjast mikils af manni og maður stjórnar ekki hraðanum.

Skilningarvitin þurfa að vera í lagi, ekki er hægt að fresta því að hafa skoðun á málum, þú undirbýrð þig ekki á morgun, þú þarft að vera tilbúinn og þú þarft að vera tilbúinn alltaf og tilbúinn strax.

Og auðvitað finn ég að ég hef vaxið, eflst og þroskast í þessu starfi.

Það segir sína sögu, um hve langur tími er frá því að ég settist á þing, að á þessum tíma hef ég eignast tvö börn og tvö barnabörn. Fjölskyldan hefur þannig stækkað en ég hef líka misst foreldri.

Einhver kann að muna að ég sagðist, þegar ég tók við formennskunni vera hrærður, eins og skyr.

Það er tímanna tákn að nú er ég bæði hrærður og grá-hærður.

Það eru mikil forréttindi að fá að starfa í þágu Sjálfstæðisflokksins og þjóðarinnar allrar. Að vera í stöðu til að hafa mikil áhrif á þróun mála í okkar stórkostlega landi.

Eftir stend ég, ekki bara reynslunni ríkari, heldur með beinlínis þúsundir vina, félaga, samherja í fólki sem hefur sama metnað fyrir landinu okkar og framtíðinni.

Og þótt ég hverfi nú úr þessu hlutverki þá ætla ég ekki að hverfa frá þessum frábæra félagsskap, sem hefur mótað mig og allt mitt líf.

Enda var ég að lesa, að fyrir utan hreyfingu og hollt mataræði séu félagsleg tengsl mikilvæg fyrir langlífi.

Ég vil því fyrst og síðast þakka ykkur öllum fyrir þessi stórkostlegu ár, það hefur verið mér sönn ánægja og heiður að starfa með hverju og einu ykkar.

Ég vil þakka ráðherrum Sjálfstæðisflokksins sem hafa starfað með mér í fjórum ólíkum ráðuneytum, þingmönnum og starfsmönnum þingflokks. Formönnum sérsambanda og öðrum trúnaðarmönnum þakka ég samfylgdina.

Sérstakar þakkir færi ég Þórdísi Kolbrúnu, varaformanni flokksins, fyrir einstaklega gott samstarf, einnig Vilhjálmi Árnasyni, ritara, Hildi Sverrisdóttur, þingflokksformanni, öðrum varaformönnum og riturum og þingflokksformönnum.

Þórði, framkvæmdastjóra flokksins, færi ég sérstakar þakkir og öllu starfsfólki Valhallar.

Aðstoðarmenn mínir, allir saman, hafa verið mér ómetanlegir - þeir skrifuðu reyndar þessi orð - en samt alveg frábærir, einstakt fólk!

Að lokum vil ég þakka öllum sem gerðu mér þetta erfitt. Ég fann ávallt að mótvindurinn efldi mig og ég tel að andstæðingar mínir hafi hjálpað mér meira en þá grunaði, að meitla sannfæringu mína, þeir áttu þátt í að gera mig að þeim stjórnmálamanni sem ég hef verið.

Starf stjórnmálamannsins, og formanns Sjálfstæðisflokksins er ekki auðvelt, oft hefur blásið á móti - og þá er ekki bara ég undir heldur allir í kringum mann. Fjölskyldan ekki síst. En ég er heppinn því ég á mjög góða að.

Um leið og ég segi þennan 45. landsfund Sjálfstæðisflokksins settan langar mig að biðja hana Þóru mína, sem hefur staðið með mér eins og klettur í gegnum súrt og sætt öll þessi ár, um að koma hingað upp og leiða mig út af pólitíska sviðinu.