Nýr varaformaður Sjálfstæðisflokksins

27. febrúar 2025

'}}

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:

Það styttist í landsfund, stærstu stjórnmálasamkomu Íslands. Sjálfstæðisflokkurinn hefur gegnt lykilhlutverki í íslensku samfélagi í næstum 100 ár og það er brýnt að tryggja að svo verði áfram. Á landsfundi munum við sjálfstæðismenn horfa fram á við og móta framtíðina saman.

Heimurinn er að breytast hratt fyrir augum okkar og í því felast bæði áskoranir og mikil tækifæri. Grunngildi Sjálfstæðisflokksins – frelsi, samkennd, sköpunarkraftur og jöfn tækifæri – hafa gert Ísland að frábærum og eftirsóknarverðum stað til að búa á.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur á krossgötum. Niðurstaða alþingiskosninganna var okkur mikil vonbrigði og við þurfum að axla ábyrgð á henni. Sjálfstæðisflokkurinn á aldrei að kenna öðrum um ófarir sínar. Það sæmir ekki leiðtoga. Verkefnið fram undan er ærið: við þurfum að sjá til þess að grunngildin okkar haldi áfram að skapa sóknarfæri fyrir Ísland – samfélag þar sem allir geta blómstrað. Þess vegna þurfum við að byggja upp innra starf flokksins á ný og hefjast strax handa við að endurheimta traust kjósenda. Betri ímynd mun fylgja góðum verkum okkar. Allt saman hefst þetta á því að hefja grunngildi Sjálfstæðisflokksins til vegs og virðingar.

Kynslóðirnar á undan okkur byggðu upp íslenskt samfélag af dugnaði, metnaði og framsýni. Nú er það okkar ábyrgð að halda verkinu áfram – fyrir komandi kynslóðir. Það er skylda okkar að skila af okkur samfélagi sem við getum verið stolt af.

Þessi leið fram á við byrjar inn á við. Ég þekki flokkinn okkar út og inn og vil leggja mitt af mörkum til þess að efla starfið, hlusta á raddir flokksmanna og tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram burðarás í íslensku samfélagi.

Ég gef því kost á mér til að gegna embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins og óska eftir stuðningi sjálfstæðismanna.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf verið afl frelsis og framfara. Það er von mín að við Sjálfstæðismenn tökum nú höndum saman, brettum upp ermar og tryggjum að svo verði áfram. Ég óska eftir stuðningi til að taka þátt í að leiða það verkefni.

Sjáumst á landsfundi!

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. febrúar 2025