Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og hæstaréttarlögmaður, gefur kost á sér í varaformannsembætti Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins sem fer fram næstu helgi, 28. febrúar – 2. mars. Þetta tilkynnti Diljá Mist í myndbandi sem birt var á samfélagsmiðlum hennar í gær. Þá hefur hún boðað stuðningsmenn sína til fundar við sig í Sykursalnum í Grósku í kvöld klukkan 20:00 til að fagna framboðinu og hita upp fyrir komandi landsfund.
„Grunngildi Sjálfstæðisflokksins – frelsi, samkennd og sköpunarkraftur – hafa gert Ísland að því landi sem við elskum. Sjálfstæðisflokkurinn stendur á krossgötum. Við þurfum að sjá til þess að þessi gildi haldi áfram að skapa tækifæri og samfélag þar sem allir geta blómstrað,“ segir Diljá Mist í myndbandinu.
Þá segir hún jafnframt að hún þekki flokkinn inn og út og vilji leggja sitt af mörkum til að efla starfið, hlusta á raddir flokksmanna og tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram burðarás í íslensku samfélagi.
Diljá Mist hefur setið á Alþingi síðan 2021 og á þeim tíma gegnt stöðu formanns efnahags- og viðskiptanefndar sem og utanríkismálanefndar Alþingis. Í sínu fyrsta prófkjöri árið 2021 hafnaði hún í þriðja sæti í sameiginlegu prófkjöri Reykjavíkurkjördæmanna. Þá hefur hún einnig verið varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Áður en Diljá hlaut kjör á Alþingi var hún aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra, starfaði sem fulltrúi á lögmannsstofunni Lögmáli og kenndi lögfræði við Verzlunarskóla Íslands.
Þá var Diljá einnig virk í ungliðastarfi flokksins en hún gegndi m.a. varaformennsku í Sambandi ungra Sjálfstæðismanna árin 2007-2009 og í Heimdalli, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík árin 2009-2010.
Diljá Mist lauk meistaraprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands og LLM gráðu í alþjóðlegum umhverfis- og auðlindarétti frá sama skóla. Þá lauk hún stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands.