Jens Garðar Helgason alþingismaður og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi gefur kost á sér til varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Hann lýsti þessu yfir í gær á facebook-síðu sinni.
„Ég hef ákveðið að gefa kost á mér til embættis varaformanns Sjálfstæðisflokksins.
Framundan eru mikilvæg verkefni sem skipta landið allt máli. Við þurfum að stíga stór skref í þá átt að leysa betur úr læðingi þá krafta sem búa í þjóðinni. Einkaframtakið, öflugur atvinnurekstur um allt land og frelsi til að framkvæma, leggja grunninn að allri farsæld okkar sem þjóðar,“ segir í tilkynningu.
Jens Garðar hefur setið á Alþingi síðan haustið 2024. Hann fæddist í Reykjavík 15. desember 1976.
Hann lauk stúdentsprófi frá MA árið 1996, stundaði nám í viðskiptafræði við HÍ á árunum 1997-2000, lauk diplóma í stjórnun og leiðtogafærni í sjávarútvegi frá HR árið 2014 og executive MBA frá Norwegian School of Economics árið 2020.
Hann var skrifstofu- og verkamaður hjá Hraðfrystihúsi Eskifjarðar 1996-1997, framkvæmdastjóri Fiskimiða ehf. frá 2000-2019, forstjóri Laxa fiskeldis ehf. frá 2019-2022 og aðstoðarforstjóri Kaldavíkur hf. Frá 2022-2024.
Jens Garðar sat í bæjarstjórn Fjarðabyggðar frá 2006-2019, formaður bæjarráðs 2010-2018 og hefur sinnt ýmsum trúnaðarstörfum á vettvangi sveitarstjórnar.
Þá var hann formaður sóknarnefndar Eskifjarðarkirkju frá 2015-2018, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi 2014-2020. Hann sat í framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins 2014-2020, var varaformaður stjórnar 2017-2020. Þá sat hann í stjórn Íslandsstofu 2014-2025, í stjórn Sinfoníuhljómsveitar Íslands 2014-2020, í stjórn Háskólans á Akureyri 2014-2017 og í stjórn Landsvirkjunar á árinu 2024.
Hann hefur setið í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis frá 2025.