Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:
Á síðasta ári gerðu Danir samkomulag við Kósóvó um að ríkið hýsi erlenda fanga sem eru ríkisborgarar ríkja utan Evrópusambandsins og hafa hlotið refsidóm í Danmörku. Fleiri Evrópuríki hafa skoðað þetta fyrirkomulag, enda glíma mörg þeirra við langan lista og hátt hlutfall erlendra afbrotamanna sem bíða afplánunar í fangelsum. Með þessu vilja Danir létta á dönsku fangelsiskerfi og senda erlendum afbrotamönnum skýr skilaboð.
Eftir að Danir gerðu framangreint samkomulag svaraði Guðrún Hafsteinsdóttir, þáverandi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, að sjálfsagt væri að skoða að semja við önnur ríki um að taka við erlendum föngum. Þar sem nýr dómsmálaráðherra er tekinn við málaflokknum hef ég nú lagt fram fyrirspurn á Alþingi til ráðherrans um afstöðu hennar til að gera slíkt samkomulag. Til að geta betur áttað sig á viðfangsefninu óskaði ég sömuleiðis eftir upplýsingum um fjölda og hlutfall erlendra fanga í íslenskum fangelsum. Einnig eftir upplýsingum um kostnað við sértæka þjónustu við þennan hóp fanga.
Við höfum ekki farið varhluta af auknum þrýstingi á fangelsiskerfi okkar, m.a. vegna skipulagðrar glæpastarfsemi og erlendra brotamanna sem koma hingað einungis í þeim tilgangi að stunda glæpi. Undanfarin ár hefur hlutfall erlendra ríkisborgara sem afplána hér dóma verið allt að þriðjungur fanga, svo að ljóst er að umfangið er gríðarlegt og kostnaður eftir því. Hlutfall erlendra gæsluvarðhaldsfanga er enn hærra og var um 75% árið 2023. Við gerum auk þess ráð fyrir að föngum muni halda áfram að fjölga á næstu árum og biðtími eftir afplánun lengist. Vandinn sem við glímum við mun ekki leysast af sjálfu sér – það verður fróðlegt að fá viðbrögð nýs dómsmálaráðherra við framangreindum spurningum. Og ekki á að þurfa að bíða svara, enda liggja upplýsingarnar fyrir.