Býsnavetur í borgarstjórn

14. febrúar 2025

'}}

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Enn einn vinstri meirihlutinn í borgarstjórn er fallinn með braki og brestum. Enn og aftur er reynt að finna varadekk undir vagninn og yrðu það býsn mikil ef myndaður yrði nýr fimm flokka vinstri meirihluti á rústum hins gamla.

Viðburðaríkur vetur

Yfirstandandi vetur hefur verið býsna viðburðaríkur hjá borgarstjórn. Nokkur dæmi:

  • Þjarmað hefur verið að Reykjavíkurflugvelli með þeim afleiðingum að annarri flugbraut hans hefur verið lokað.
  • Húsnæðisuppbygging er langt undir væntingum í Reykjavík. Húsnæðisverð hækkar stöðugt vegna lóðaskortstefnu og þéttingar byggðar.
  • Fjölmörg börn eru án dagvistunar og grunnskólar standa illa að vígi í alþjóðlegum samanburði.
  • Áfram er unnið að því að þrengja að umferð, sem hefur tafir og kostnað í för með sér fyrir borgarbúa.
  • Víðtæk andstaða er í Grafarvogi við hugmyndir fráfarandi meirihluta um ofurþéttingu byggðar í hverfinu, m.a. með því að ganga á græn svæði.
  • Gífurleg óánægja ríkir í Breiðholti vegna hugmynda um háreista byggð í Norður-Mjódd og nýlegs skipulagsslyss við Álfabakka. Risastór skemma hefur risið í nokkurra metra fjarlægð frá fjölbýlishúsi og við íbúum blasir gríðarmikill veggur.
  • Mikil reiði ríkir meðal foreldra í Laugardal eftir að meirihlutinn ákvað að rjúfa sátt við þá með því að ráðast í byggingu safnskóla í stað viðbygginga við eldri skóla.
  • Ekkert lát er á skuldasöfnun Reykjavíkurborgar. Fyrir áramót samþykkti meirihlutinn fjárhagsáætlun, sem gerir ráð fyrir að skuldir borgarsjóðs aukist um ellefu milljarða króna á árinu. Heildarskuldir borgarinnar aukist á sama tíma um 31 milljarð og verði orðnar 558 milljarðar í árslok.

Breytinga er þörf

Það var við þessar aðstæður sem Einar Þorsteinsson borgarstjóri sleit meirihlutasamstarfinu í borgarstjórn þar sem honum fannst ekki hafa tekist að knýja fram nauðsynlegar breytingar. Í því sambandi nefnir hann flugvallarmálið, húsnæðismál, leikskólamál og rekstur borgarinnar.

Ljóst er að taka þarf til hendi og ráðast í umbætur í mörgum mikilvægum málaflokkum í borginni.

Borgarstjórn á ekki að þvælast fyrir heldur að að bæta og einfalda daglegt líf Reykvíkinga. Mörg tækifæri eru til þess eins og eftirfarandi lausnir sýna:

Ráðast þarf í víðtæka hagræðingu og sparnað í rekstri borgarinnar.

Opna þarf austur-vestur braut Reykjavíkurflugvallar sem fyrst og festa völlinn í sessi með breytingu á aðalskipulagi.

Stórauka þarf lóðaframboð í borginni nú þegar, t.d. með nýjum íbúðarhverfum í Úlfarsárdal. Keldnalandi, Kjalarnesi og Geldinganesi. Samhliða auknu lóðaframboði verði áhersla lögð á lækkun húsnæðisverðs.

Auka þarf áherslu á fjölbreytileg úrræði í dagvistarmálum, t.d. með vinnustaðaleikskólum, heimgreiðslum og eflingu dagforeldraþjónustu.

Umferðaröryggi verði aukið og umferðarflæði bætt í borginni með markvissum aðgerðum, t.d. snjallvæðingu umferðarljósa.

Endurgerð gatnamóta Reykjanesbrautar og Bústaðavegar verði hraðað í því skyni að auka umferðaröryggi, bæta umferðarflæði og draga úr mengun.

Auka þarf samráð við íbúa í skipulagsmálum og leita sátta í umdeildum málum, t.d. í Breiðholti, Grafarvogi, Laugardal, Grafarholti og Úlfarsárdal.

Efla þarf strætó strax með sérstakri aðgerðaáætlun: a) hefja að nýju lagningu forgangsakreina fyrir strætó. b) forgangur strætisvagna tryggður með snjallstýringu umferðarljósa. c) úrbætur verði gerðar á skiptistöðvum strætó og upphituð biðskýli sett upp á fjölförnum biðstöðvum. d) tekið verði upp hraðvirkt og notendavænt greiðslukerfi í strætó. e) hraða endurnýjun vagnaflotans. f) endurskoða leiðakerfi Strætó bs.

Bæta þarf viðhald gatna, gangstétta, gangbrauta og ljósastaura í borginni.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. febrúar 2025.